20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Ólafsson):

Það þarf ekki langan formála fyrir jafnlitlu efni og hjer er um að ræða frá hálfu nefndarinnar. Eins og nál. ber með sjer, höfum við aðeins lagt til fáeinar smábreytingar, ekki af því, að við álitum ekki þörf á gagngerðari breytingum í þessu efni, heldur af því, að í fyrra var skipuð milliþinganefnd, sem meðal annars hefir þetta mál til athugunar, og vildum við ekki á nokkurn hátt taka fram fyrir hendurnar á henni, enda má búast við, að ekki dragist lengur en til næsta þings, að hún leggi fram ítarlegar tillögur í þessu máli. Brtt. nefndarinnar eru því aðeins til bráðabirgða.

Við viljum ekki taka upp c-lið í stjfrv. að þessu sinni, sem sje stofna við skólann sjerstaka deild, er veiti lýðfræðslu. Við álítum það svo mikilsvert atriði, er þurfi svo gagngerðrar athugunar við, að við treystum okkur ekki til þess að gera neinar tillögur um það að svo stöddu. En þar með er ekki sagt, að þetta sje ekki nauðsynlegt. Á það hefir enginn dómur verið lagður í nefndinni. Aðeins álítum við, að það atriði verði betur athugað og undirbúið í milliþinganefndinni.

Nefndin vill ekki taka upp skýlaus ákvæði um, að skólabúin skuli rekin fyrir opinberan reikning, en hún vill rýmka ákvæði um það úr lögunum frá 1905. Í stað orðanna í 1. gr. laganna: „ef öðru verður ekki við komið“, vill nefndin setja: ef hentara þykir. Þar með er ákvæðið gert svo rúmt, að ef augsýnilegt skyldi reynast, getur stjórnin, í samráði við Búnaðarfjelagið, hvenær sem er gert þá breytingu.

Þá kem jeg að hinni verklegu hliðskólanna. Í seinni tíð hafa heyrst æ háværari og háværari raddir um það, að meiri áherslu beri að leggja á verklega kenslu en hingað til hefir verið gert. Fyrir síðasta búnaðarþingi lá ítarleg greinargerð um þetta efni, og yfirleitt virðist áhugi manna fyrir því vera mikill. Ef á að krefjast mikillar verklegrar kenslu við búnaðarskólana, hefir það að sjálfsögðu aukin útgjöld í för með sjer, þannig að það fara að renna á menn tvær grímur um það, hvort ekki sje heppilegast, að skólabúin sjeu rekin fyrir opinberan reikning. Mjer þykir sennilegt, að á sínum tíma, þegar mál þetta hefir verið rækilega íhugað, verði horfið að því ráði. En þá á auðvitað eitt yfir báða skólana að ganga, en ekki að taka annan út úr. Í frv. stj. er aðeins farið fram á breytingu á öðrum skólanum. Jeg hefi ekki kynt mjer, af hverju það stafar, en mjer virðist það sama muni eiga við um báða skólana. Þeir njóta nú mikils styrks frá því opinbera, sem ekki virðist fara minkandi, heldur þvert á móti, eftir því sem aukið er við kensluna. Það er auðsjeð, að annar skólinn, eins og því búi er fyrir komið, á að vera sjálfum sjer nógur. Öðru máli er að gegna um hinn skólann, sem orðið hefir aftur úr og á yfirleitt við verri skilyrði að búa.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Jeg legg sem sagt aðaláhersluna á, að breytingar landbn. sjeu aðeins bráðabirgðabreytingar, sem standa kannske ekki árinu lengur.