20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

27. mál, bændaskóli

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. landbn. vildi líta svo á, að það væru nokkuð stór orð hjá mjer, er jeg sagði, að hjer væri um stórvægilega stefnubreytingu að ræða, þar sem breyting þessi ætti aðeins að vera um skamma stund. Jeg vil benda honum á, að breytingin er í sjálfu sjer jafnstórvægileg fyrir því, þó gert sje ráð fyrir, að hún sje aðeins til bráðabirgða.

Hv. frsm. sagði ennfremur, að ekki væri forsvaranlegt að láta rekstur skólabúsins í hendurnar á hverjum sem er. Þetta er alveg rjett og hlýtur að vera ljóst þeim, sem hafa með höndum byggingu skólabúanna.

Jeg sje ekki mun á því, hvort um er að ræða einkarekstur á skólabúum eða að þau sjeu rekin fyrir ríkisreikning; það er vitanlega jafnnauðsynlegt í báðum tilfellunum, að búin sjeu í höndum ötulla og hagsýnna manna. En það er síður en svo, að meiri trygging sje fyrir því, að slíkir menn veiti búum forstöðu, ef þau eru rekin fyrir ríkisreikning, og að þau verði rekin myndarlega, heldur alveg hið gagnstæða. Jeg álít aftur þvert á móti miklu meiri tryggingu fyrir því, að búin verði „praktiskt“ rekin og til fyrirmyndar, ef um einkarekstur er að ræða. En það hefir áreiðanlega miklu meiri þýðingu fyrir nemendurna á bændaskólunum að sjá og kynnast slíkum búrekstri, sem „praktiskt“ er rekinn og myndarlega og gefur góðan arð, heldur en þó borið sje mikið fje í búskapinn án tillits til þess, hver arðurinn er, eins og oft vill verða, þegar ríkið er annarsvegar.

Eins og tekið hefir verið fram af hv. 1. þm. Skagf., hefir ekkert það komið fram, sem bendir til þess, að það sje ekki vilji þingsins að auka verklega námið við bændaskólana. Og það er engin ástæða til þess hjá hæstv. forsrh. að óttast, að svo verði á þetta litið, þó dagskrá mín verði samþykt; þvert á móti lúta umræðurnar allar um þetta mál að því, að auka beri verklega námið, og þarf milliþinganefndin í landbúnaðarmálum ekkert um að villast, hver er vilji þingsins í því efni, er hún fer að semja tillögur til breytinga á bændaskólalöggjöfinni. En ef það verður ofan á hjá hæstv. atvmrh., að stofna ekki til ríkisrekstrar á Hólum fyr en útsjeð er um afdrif tillagna milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum, þá skiftir það ekki í rauninni miklu máli, hvort samþ. verður frv. hans eða dagskrá mín. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vera reiðubúinn að gefa þá yfirlýsingu, fyr en við 3. umr., og get jeg því vel frestað að láta dagskrá mína koma undir atkvæði þangað til.