06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Jóhannes Jóhannesson:

Mönnum er orðið það ljóst, að ástand fullnustu refsidóma hjer á landi er fyrir löngu orðið óviðunandi. Um þetta eru allir sammála, en aftur á móti virðist mál það, er hjer er um að ræða, ekki vera nægilega undirbúið.

Jeg verð að segja, að mjer finst ekkert undarlegt, þótt stj. hafi ekki getað veitt því þann undirbúning, sem æskilegt hefði verið, á þeim stutta tíma, er hún hefir setið að völdum, vegna þess, að hún hefir átt mörgum öðrum vandamálum að sinna.

Það má ekki dragast lengur, að úr þessu ástandi verði bætt. Ef hin rökstudda dagskrá, sem fram hefir komið um þetta, verður samþ., geri jeg mjer enga von um, að neitt verði gert í þessu máli fyr en á næsta þingi. Verði frv. aftur á móti samþ., má gera sjer von um, að ráðin verði hin nauðsynlegasta bót á þessu ástandi, sem er, í náinni framtíð, þótt jeg að vísu sje ekki alveg viss um það eftir orðum hæstv. ráðh.

Jeg mun því greiða frv. atkv. í von um, að gerðar verði umbætur á þessu ástandi á næstunni. Aftur á móti er jeg í vafa um það, hvort hentugt sje að reisa betrunarhús á Eyrarbakka. Jeg álít, að ýmislegt mæli á móti því, en hinsvegar gæti jeg hugsað, að hentugt væri að hafa þar letigarð og sjúkrahús fyrir fanga. Mætti eflaust finna hentugri stað fyrir betrunarhús en þar.

Jeg vil lýsa yfir því, að hæstv. dómsmrh. hefir sýnt mikinn áhuga á því að bæta úr þessu illa ástandi, síðan hann tók við völdum, og í trausti þess, að eitthvað verði gert í máli þessu hið bráðasta, greiði jeg frv. atkvæði.

Annars finst mjer frv. ekki allskostar heppilega orðað, og vildi jeg í því sambandi skjóta þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvort sú heimild, er frv. fer fram á, eigi við kaup á Eyrarbakkaspítala. (Dómsmrh. JJ: Já). Þá virðist mjer, að orða mætti frv. betur, því ef kaupa ætti spítalann, geri jeg ráð fyrir, að þyrfti að greiða lán það, er Landsbankinn hefir veitt til byggingarinnar, og mundi því verða um kaup á húsi að ræða, en ekki á landi, en í frv. er gert ráð fyrir kaupum á landi, en ekki húsi. Vil jeg skjóta því til hæstv. ráðh. og þeirrar nefndar, er um málið fjallar, hvort ekki mætti haga orðalagi frv. þannig, að það fjelli saman við framkvæmdirnar. (Dómsmrh. JJ: Það mætti athuga þetta til 3. umr.).