13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Magnús Torfason:

Jeg stend ekki upp til þess að ræða þetta mál alment, því að allir viðurkenna, að eitthvað verður að gera til þess að bæta um fangavist hjer. En jeg stend upp sakir þess, að hæstv. dómsmrh. nefndi sjúkrahúsið á Eyrarbakka sem fallið til að gera að fangahúsi. Jeg skal nú ekki fara neitt nákvæmlega út í þær sakir, en í sambandi við það, að hæstv. dómsmrh. gat þess, að á húsinu mundi hvíla eitthvað um 20 þús. kr. skuld við Landsbankann, veðrjettur, sem hann hefði í húsinu, vildi jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. dómsmrh. um það, hvort hann myndi ekki verða mjer sammála um það, ef ríkið tæki þetta að sjer, að greiða spítalasjóði Eyrarbakka það, sem var lagt í spítalann. spítalinn var upphaflega reistur fyrir nær 40 þús. kr., sem safnað hafði verið með samskotum og svo hafði aukist með vöxtum. Jeg hefði nú litið svo á, að það væri eðlilegt, að þessi sjóður eða Eyrarbakkahreppur fengi þetta borgað aftur, til þess að geta komið upp sjúkraskýli á sínum tíma. Þessu vildi jeg gjarnan fá svar við, og jeg tek það líka fram til athugunar fyrir þá nefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar.