27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Lárus Helgason):

Hv. þm. Barð. (HK) vildi halda því fram, að þetta frv. kæmi ekki að notum, vegna þess að í það vantaði nægilega trygg ákvæði. Jeg get ekki skilið, að það sje rjett. Í 3. gr. segir svo: „Kynbótanefnd skal sjá um, að jafnan sjeu til innan hrepps eða utan hæfilega mörg naut, kyngóð og efnileg, til undaneldis í hreppnum“. Og í 5. gr.: „Öll naut eldri en 8 mánaða, sem ekki eru ætluð til undaneldis samkvæmt 3. og 4. gr., skal gelda eða halda í öruggri vörslu“. Þetta virðist mjer nægilegt til þess að tryggja, að ekki sje til mikið af nautum nema af góðu kyni. Öll önnur naut skulu gelt. Ef þessi ákvæði reynast í framkvæmd ekki nógu trygg, þá er um vanrækslu af hendi kynbótanefndar að ræða. (HK: Í þessum ákvæðum felst ekkert bann gegn því að nota önnur naut en valin eru af kynbótanefnd). Það er skýrt tekið fram, hvað kynbótanefnd á að gera: velja naut til undaneldis og sjá til, að önnur sjeu gelt.