28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Jeg mundi alls ekki hafa kvatt mjer hljóðs aftur svona fljótt til þess að svara hæstv. forsrh. (TrÞ) og hæstv. dómsmrh. (JJ), ef hinn síðarnefndi hefði ekki heitið mjer því, að í þessum umræðum skyldi jeg vera ódauðlegur eins og jeg væri ráðherra og því fá að tala eins oft og jeg vil við þessa umræðu. Þetta vona jeg, að hæstv. ráðh. ( JJ ) standi við. (Dómsmrh. JJ: Jeg hefi aðeins lofað að mæla með þessu við hæstv. forseta). Mjer þykir leitt, ef hæstv. ráðh. ætlar að bregðast í þessu, en fyrst hann skýtur nú máli sínu til hæstv. forseta, þá er jeg tryggur, því að hann hefir sagt, að hann mundi láta þetta óátalið, og mun jeg því nota þennan rjett minn til hins ítrasta. Annars er sýnilegt, að hæstv. ráðh. ætlar að reyna að eyða hjer sem mestum tíma sjálfur, svo að aðrir komist ekki að, því að hann hefir nú þegar einn haldið lengri ræðu en allir aðrir til samans. Skil jeg, að þetta er kænskubragð af honum, til þess að þreyta hv. deildarmenn. En jeg vil láta hann vita, að jeg ætla að sjá um með aðstoð hins lofaða ódauðleika míns, að þetta bragð hepnist honum ekki. Jeg tel ekki eftir mjer að vaka í alla nótt, ef með þarf, til þess að segja honum til syndanna og leiðrjetta missagnir hans og ósannindi.

Áður en jeg vík máli mínu að hæstv. ráðh. ætla jeg að svara nokkrum orðum hæstv. forsrh., en þar sem hans ræða var stutt, þarf svar mitt ekki heldur að vera langt. Hann var ánægður yfir samlíkingunni um latneska goðið með 2 höfðum. Hann um það. Jeg nefndi þetta sem dæmi eða mynd af hverflyndi hans og um andlitið, sem snýr að bændunum, og andlitið, sem snýr að jafnaðarmönnum. Má hann vera hróðugur yfir, ef honum þykir ástæða til, og skal jeg því ekki frekar um það ræða.

Hæstv. forsrh. vildi engu svara mjer um járnbrautarmálið og bar því við, að það væri til umsagnar hjá ákveðnum manni, eftir ábendingu minni í fyrra. Tilætlun mín í fyrra með því að fá álit þessa manns (rafmagnsstjórans hjer í bænum) var einungis sú, að fá hjá honum upplýsingar um fagatriði, sem taka þyrfti fram í væntanlegu leyfisbrjefi, sem út yrði gefið um virkjun Urriðafoss og járnbrautina en alls ekki, að hann ætti að ráða, hvort leyfisbrjef yrði gefið eða ekki. Því á ráðherra auðvitað að ráða sjálfur, og finst mjer því hæstv. forsrh. farast lítilmannlega, er hann vill hafa mann þennan að skildi fyrir sjer og kveðst ekkert vita sjálfur. Hann kvaðst mundu svara ákveðið þegar hann svaraði. Þetta er síst þakkarvert, en mig uggir, að svarið kunni að dragast nokkuð lengi, ef til vill fram yfir þing, því að hæstv-. forsrh. veit, að í þessum sal sitja ýmsir menn, sem munu kunna honum litlar þakkir fyrir svarið, hvort sem það verður játandi eða neitandi, og hlýt jeg því að telja afstöðu hans stjórnast af ístöðuleysi. Jeg hefi þó ekki hreyft þessu máli til að sýna ístöðuleysi hæstv. ráðh., heldur til þess að herða á honum í málinu, því að dráttur á því er hættulegur fyrir framgang þess. Jeg játa, að ráðh. á nokkuð erfitt í þessu máli, vegna aðstöðu sinnar í fyrra, en hann verður annaðhvort að beygja sig eða bera hina þungu ábyrgð af að neita málinu um framgang, og mun honum þykja hvorugur kosturinn fýsilegur.

Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, að við Íhaldsmenn hefðum skilið illa við skattamálin og lækkað skattana svo mikið, að litlu fje væri hægt að verja til verklegra framkvæmda. Þetta þótti mjer undarlegt að heyra, því að á undanförnum þingum hefir hann margendurtekið það, að Íhaldsmenn hafi lagt geysiþunga skatta á þjóðina. Allir verða og að viðurkenna það, að á síðustu árum hefir að tilhlutun Íhaldsflokksins verið unnið meira að verklegum framkvæmdum en nokkru sinni áður; t. d. voru á síðastliðnu ári brúaðar 25 stærri og minni ár. Þetta gat Íhaldsflokkurinn gert með þeim sköttum, sem nú eru, en hæstv. ráðh. kveðst þurfa mikla skattahækkun, ef framhald eigi að verða á framkvæmdum. Bendir þetta sannarlega ekki til sparnaðarviðleitni, enda er auðsætt af hinum mörgu frv. stjórnarinnar, t. d. um letigarð, sundhöll, nýja stjórnarráðsbyggingu, síldarverksmiðju, strandferðaskip o. fl. o. fl., að í aðra farvegi eigi að beina þeim en til samgöngubóta í sveitum.

Hæstv. forsrh. kvaðst ekki taka mjer það illa upp, þó að jeg stríddi sjer dálítið, því að hann hefði oft strítt mjer á undanförnum þingum. Mjer þykir gott að heyra það, að ekki hefir verið meiri alvara í aðfinslum hans í minn garð en ertni og stríð, en jeg verð að segja honum, að aðfinslur mínar í hans garð voru í fullri alvöru gerðar, nema það, sem jeg sagði um pyttinn, er hann hefði holað sjer niður í við hliðina á mjer. Þau ummæli má vel skoða sem stríð, ef hann vill það heldur.

Þá mintist hæstv. forsrh. á sendiherramálið eða legátafarganið og gerði enga tilraun til að rjettlæta eða bera á móti hringsnúningi sínum í því máli, enda var það ekki hægt. Hann reyndi helst að rjettlæta sig með því, að hann hefði 1924 barist hlið við hlið með fyrv. forsrh. (JÞ) um að hætta í bili að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, en þetta er lítil afsökun, því að þá hafði Sveinn Björnsson sagt upp starfinu og hægt í bili að fá ágætan mann, búsettan í Kaupmannahöfn, til þess að gegna hví, en lengur en til 1926 var ekki um hað að ræða. Mjer virtist hæstv. ráðh. jafnvel gefa í skyn, að þar sem nú liggur frv. fyrir þinginu, sem skoða má tilraun til afnáms sendiherraembættisins, þá viti jeg ekki nema hann fylgi hví, en jeg veit, — og um það mun raun gefa vitni —, að hann þorir ekki að ljá því frv. samþykki sitt, eftir þeim ummælum, sem hann hafði um daginn um sambandslögin.

Hæstv. ráðh. mótmælti því, að hann hefði bætt við manni til þess að leysa, af hendi störf „litla utanríkisráðherrans“, en mótmæli hans eru röng. Meðan hv. 3. landsk. (JÞ) var forsrh., leysti hann sjálfur þessi störf af hendi, að öðru leyti en því, að stúlka, sem var í fjármálaráðuneytinu, ritaði brjef, sem senda þurfti. Skömmu eftir að stjórnarskiftin urðu fór stúlka þessi og önnur var tekin í hennar stað. En auk þess tók hæstv. ráðh. mann til þess að hjálpa sjer við utanríkismálin. Þetta er sá maður, sem jeg talaði um, að við hefði verið bætt, og er það óhrekjanlegt. Annars kveður nú við annan tón hjá hæstv. ráðh. um utanríkismálin en áður í skrifum hans. Nú telur hann þau umfangsmikil og vandasöm, og sannar þetta, að það er rjett, sem jeg sagði hjer fyr í dag, að hann hefði áður skrifað og skrafað um þessi mál af mikilli vanþekkingu.

Hæstv. ráðh. kvaðst altaf hafa verið mótfallinn verðsveiflum gjaldeyrisins. Þetta eru engin tíðindi, því að allir voru og eru heim mótfallnir. Þær hafa komið yfir allar þjóðir að þeim nauðugum og allir hafa orðið að sætta sig við þær og þau óþægindi og tjón, sem þeim eru samfara. Hví skyldum við Íslendingar geta verið þar undantekning?

Þegar jeg benti hæstv. ráðh. á ummæli hans frá 1926 og ósamræmi athafna hans nú við þau, þá segir hann, að von sje á verðfestingartillögu frá sjer nú á þinginu. Þetta getur hann auðvitað sagt mjer, því að jeg veit ekki, hvað í huga hans býr. Jeg fer eftir því, sem fram er komið, og fæst ekki við spádóma um, hvað muni gert verða, en hefi fyrir satt, sem mjer þykir líklegast, og það er, að ef slíkt frv. eða till. kemur fram, þá er það af því, að jeg hefi nú mint á þetta óuppfylta loforð.

Hæstv. ráðh. kvaðst ekki þurfa sjerstök lög til þess að láta ríkissjóð taka þátt í gengistapi bankanna, þí að hann hefði sömu heimild til að gera þetta og íhaldsstjórnin hefði haft 1925, er hún gekk í ábyrgð fyrir gengistapi Landsbankans. Þessu er því fyrst að svara, að þingið 1926 lýsti því yfir, að stjórnin hefði ekki heimild til að verja neinu verulegu úr ríkissjóði í þessu skyni, og er því þessi yfirlýsing ráðh. á sandi bygð. En annars þótti mjer gott að fá að vita það, að hæstv. ráðh. vissi um það, að íhaldsstjórnin hafði 1925 gengið í ábyrgð gagnvart Landsbankanum fyrir gengistapi, til þess að fyrirbyggja frekari hækkun krónunnar en þá var orðin, því að ráðh. hefir sagt það í ræðu og riti margoft, að íhaldsstjórnin hafi aldrei gert neitt til að halda krónunni niðri, heldur spent hana upp eftir megni. Aftur á móti er það leiðinlegt fyrir hæstv. ráðh. að ósanna þannig eigin orð sín.

Um gengisviðaukafrv. frá í fyrra sagði hæstv. ráðh., að hann hefði aðeins átalið, að stjórnin hefði gleymt þessu frv. Þetta er ósatt; hann átaldi einnig, að áætlað var í fjárlagafrv. með tekjum af því, og má sjá það af greininni, að jeg fer rjett með, en hæstv. ráðh. segir rangt frá. En hvernig veit hæstv. ráðherra, að frv. hafi gleymst? (Forsrh. TrÞ: Af því að frv. var ekki flutt fyr en komið var fram á þing). Það er engin sönnun, þótt öll stjfrv. sjeu ekki flutt í einu. Eða vill þá hæstv. ráðh. halda því fram, að núverandi stjórn hafi gleymt öllum þeim fjölda frv., sem hún flytur sumpart sjálf eða lætur aðra flytja eftir að langt er liðið af þingtímanum? Jeg slæ því þess vegna föstu sem óhrekjanlegu og ómótmælanlegu, að hæstv. stjórn hefir nú gert það sama, sem hæstv. ráðh. taldi í fyrra „hneyksli“ og „afglöp“.

Að síðustu kom hæstv. ráðh. að því máli, sem hann fer jafnan út í, þegar hann á í deilum við mig, en það mál er tóbakseinkasalan. Honum þykir það mikil goðgá, að jeg skyldi láta afnám hennar hlutlaust, vegna þess að jeg átti þátt í að koma henni á. Þetta mál kemur reyndar þessum umræðum ekkert við, en úr því að jeg nýt í þessum umræðum frelsis og fjörs hins ódauðlega, þá er mjer ánægja að því að svara hæstv. ráðh. í þessu efni.

Tóbakseinkasölufrv. bar jeg fram sem tekjuaukafrv. 1921, af því að jeg var ragur við að taka tekjur þær, sem þurfti með tollhækkun. Einkasalan var ekki vinsæl og margir hjeldu því fram, að hægt væri að ná sömu tekjum og hún gaf með ekki mjög mikilli tollhækkun og þannig, að tóbakið yrði heldur ódýrara. Jeg ljet þetta mál hlutlaust á þinginu, er einkasalan var afnumin, en reynslan hefir nú sýnt, að verslunarágóðinn hefir meira en unnist upp með tollhækkuninni og þannig, að verðið á tóbakinu lækkaði heldur. Ríkissjóður hefir því, að því er sjeð verður, fremur hagnast á afnámi einkasölunnar en hitt. Jeg finn því ekki, að jeg eigi neitt ámæli skilið fyrir það, að jeg ljet afnám einkasölunnar hlutlaust, og mjer þykir það gott, að andstæðingur skuli ekki hafa annað vopn gegn mjer, sem hann telur beittara.

Hæstv. ráðh. taldi mjer það til ámælis, að jeg hefði verið með í því að setja þessi lög og síðan horft upp á afnám þeirra án þess að hafast að. Þetta orðaði hann svo smekklega, að jeg væri bæði faðir og morðingi laga þessara. Maður skyldi því ætla, að hið sama hefði ekki hent hann sjálfan, en svo er þó, að á þingi 1925 greiddi hann atkvæði með afnámi laga, sem hann hafði gerst flutningsmaður að árið áður. Hann ætti ekki að lá mjer í þessu efni, því að hans synd er stærri en mín, ef um synd er að ræða, þar sem hann eftir ár greiðir atkvæði með afnámi eigin lagaafkvæmis, en jeg var hlutlaus um afnám laga, sem jeg hafði flutt nokkrum árum áður. Ef hæstv. ráðh. á langa ólifaða stjórnmálaæfi, geri jeg ráð fyrir, að hann eigi eftir að sjá sumt af getnaði sínum aflífað, að minsta kosti suma lausaleikskrakka hans og jafnaðar manna. En hvað mig snertir, þá tel jeg, að jeg eigi svo marga bautasteina í löggjöf landsins síðustu árin, að nægir sjeu eftir, þótt þessi lög gangi frá.

Annars er ekki úr vegi í þessu sambandi að geta þess, að fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var hjer um kosningu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), þá hjelt hæstv. forsrh. ræðu og lýsti því yfir með miklum fjálgleik og handaupprjettingum, að hann gæti ekki stutt að því, að sú kosning yrði tekin gild. En hvað varð svo? Þegar til atkvæða var gengið, greiddi hann ekki atkvæði og studdi þannig óbeinlínis að því, að kosningin yrði tekin gild.

Að svo mæltu læt jeg úttalað um hæstv. forsrh. í þetta skifti, en sný mjer að samherja hans, hæstv. dómsmrh. (JJ). Þau atriði, sem jeg hefi ritað eftir honum, hefi jeg ritað með rauðu. (EJ: Þýðir það bolsevisma? — Dómsmrh. JJ: Nei, það er hjartablóð). Nei, blóð er það ekki, því að með blýanti er ritað, en mjer finst rauði liturinn, litur sósíalistanna, eiga best við hæstv. ráðh. (JJ), sem var einn þeirra fulltrúa, sem stofnuðu Alþýðusamband Íslands, mig minnir sama árið og hann gekk í Framsóknarflokkinn, til þess, eftir því sem Alþýðublaðið hefir sagt, að vjela bændur til fylgis við jafnaðarmenskuna.

Þessi hæstv. ráðh. hefir nú undanfarna 6 mánuði verið að leita og snuðra í ráðuneytum þeim, er jeg veitti forstöðu, til þess að reyna að finna eitthvað, sem hann gæti snert mig með. Árangurinn hefir orðið sá, að hann hefir fundið nokkur brjef, sem hann telur aðfinsluverð og sumpart hefir lesið upp. Aðfinslum hans út af þessum atriðum mundi jeg ekki hafa svarað einu orði hjer, ef mjer hefði ekki verið heitið ótakmörkuðu málfrelsi, því að þessa umr. ætlaði jeg aðeins að nota til að segja stjórninni til syndanna, en ekki til þess að verja mig. Jeg skil það vel, að hæstv. ráðh. vill helst leiða athyglina frá sjer og sínum gerðum, en jeg mun sjá um, að það takist ekki, og þótt jeg svari honum nú um hríð, þá má hann ekki halda, að jeg gleymi hans syndum. Þær munu verða raktar hjer síðar, bæði af mjer og öðrum.

Fyrst sný jeg mjer að fiskiveiðasjóðsláninu, sem hann nefndi. Reyndar ætti jeg ekki að þurfa að vera langorður um það mál, því að jeg hefi áður gert grein fyrir því hjer á þingi. Lán þetta var veitt gegn 1. veðrjetti í gufuskipi, og var lánað svo, að nam tæplega 1/3 virðingarverðs skipaforráðamanna. Skip þetta fór á síldveiðar skömmu eftir að lánið var veitt, en fiskaði sama og ekkert, enda brást síldveiði alstaðar það ár. Afleiðingin af þessu var sú, að á skipið hlóðust sjóveð, sem ganga fyrir öllum öðrum veðum, svo að sjáanlegt er, þar sem eigandi skipsins er orðinn eignalaus, að tap verður á láninu, en hversu mikið það verður, er enn ósjeð. Þessi er í fám dráttum saga málsins, og jeg er þess fullviss, að við þessa lánveitingu er ekkert athugavert, þó að svona tækist til. Engin álösun heyrist af munni hæstv. ráðh. t. d. í garð Landsbankans, þótt hann hafi tapað miljónum á lánveitingum, en mig vill hann helst hengja fyrir nokkur þúsund kr. tap. Það er rangt, sem hann segir, að Fiskiveiðasjóður hafi ekki áður tapað á lánum, en það hefir verið í mjög smáum stíl. Spurningu hæstv. ráðh. um, hvers vegna þetta lán hafi verið veitt, er svarað með því að upplýsa, að Fiskiveiðasjóður er til þess ætlaður að veita lán til skipakaupa, en öllum dylgjum hans í sambandi við þetta mál vísa jeg á bug og get ekki fengið mig til að svara þeim. Hæstv. ráðh. má ekki dæma gerðir annara eftir sjálfum sjer, því að þá gerir hann öllum rangt til.

Þá nefndi hæstv. ráðh. hið svonefnda Ohm-mál. Ohm var enskur togari, er strandaði við Skaga mjlli Skagafjarðar og Húnaflóa síðastl. sumar. Varðskipið „Óðinn“ var þá við síldveiðagæslu nyrðra, og fór umboðsmaður hins strandaða skips, Helgi Zo?ga kaupmaður hjer í bænum, þess á leit við dómsmálaráðuneytið, að „Óðinn“ aðstoðaði við björgunina, þar sem helst voru líkur til, að hann næði skipinu af skerinu, sökum þess hve sterka vjel hann hefir. Umboðsmaður hins strandaða skips bauð þegar í stað fram venjuleg björgunarlaun fyrir hönd hins enska vátryggingarfjelags. Mjer var ekki um að leyfa þetta, því að „Óðinn“ hafði ærið annað að starfa. Það varð þó úr, að „Óðinn“ reyndi að bjarga; fór hann á vettvang; en varð frá að hverfa í bili. Síðar hepnaðist honum með aðstoð togara, sem kom að, að ná hinum strandaða togara af skerinu, og fór Óðinn með honum hingað til Reykjavíkur. Eftir að skipið var komið hingað var rætt um björgunarlaunin, og vildi þá hið útlenda vátryggingarfjelag auðvitað borga sem minst, en að síðustu varð samkomulag um, að greiða skyldi 12000 kr. í björgunarlaun, og mátti það sannarlega ekki minna vera, því að skipið var metið á tæplega 130000 krónur.

Svona er saga þessa máls, en þegar hæstv. ráðherra er að segja frá þessu, þá setur hann málið þannig fram, að hjer hafi átt að fjefletta hið erlenda vátryggingarfjelag. Og hann kveðst ekki eiga nógu sterk orð til þess að lýsa andstygð sinni á þessari aðferð, á þeim gyðingshætti, sem jeg hafi sýnt í þessu. Og til þess að þvo af landinu blettinn af þessu hafi hann gefið einhverjum sjóði í Englandi 8000 kr. af björgunarlaununum, en 4000 kr. hafi farið til skipshafnarinnar á „Óðni“.

Eins og jeg hefi bent á, hafði „Óðinn“ eytt talsvert miklum tíma og fyrirhöfn í björgunina. Hann varð í nokkra daga að hætta við vörslustarf sitt nyrðra og eyddi miklum kolum til ferðarinnar hingað suður. Hvaða sanngirni er í, að við borgum þetta fyrir erlend, fjesterk vátryggingarfjelög? Þeim er skylt að greiða slíkan kostnað og hafa fyrirfram tekið borgun af hinum vátrygðu skipum fyrir þá ábyrgð. Höfum við svo mikið að virða við hin erlendu fiskiskip, er koma hingað til að veiða á fiskimiðunum í kringum landið og stundum í landhelgi, að við sjeum skyldir til að halda úti varðskipum með gífurlegum kostnaði, til þess að bjarga þeim fyrir ekkert gjald, þegar þau koma of nærri landi? Jeg segi nei, og jeg stimpla það sem heimskuhjal, er ráðh. átelur þetta. Togarinn hafði lofað björgunarlaunum og boðið þau fram að fyrra bragði. Hví átti hann ekki að standa. við það loforð? Hvað mundi verða úr starfsemi hinna íslensku varðskipa, ef þau teldust skyld að þjóna hinum erlendu togurum fyrir ekkert? Gífuryrði ráðh. í þessu máli styðjast ekki við neitt og hljóta að vera sprottin af hinu sjúka sálarástandi hans og veikluðu taugum, en maður í hans stöðu ætti að hafa betra vald á sjer, jafnvel þótt jeg viðurkenni, að hann hafi í þessum umræðum fengið mörg og þung vandarhögg á þann stað, setu vant er að bera vöndinn að.

Jeg vil ennfremur upplýsa það, að vegna þess að skipshöfn skipa, er bjarga öðrum skipum, á samkvæmt siglingalögum kröfu á þriðjungi björgunarlauna, þá varð ekki hjá því komist að ákveða björgunarlaun eða brjóta lög. Þegar jeg ljet af ráðherrastarfi, var engin ákvörðun tekin um, hvað gera skyldi við þann hluta björgunarlaunanna, sem tilheyrði ríkissjóði. Nú hefir ráðherra upplýst, að hann hafi gefið þessar 8000 kr. einhverju ensku fjelagi. Jeg vil í þessu sambandi minna hann á, að hann átti ekki einn einasta eyri í þessu fje, og hafði hann því enga heimild til að gefa það. En ef hann vildi gefa af annara fje, þá sýnist mjer, að nær hefði legið að gefa það til einhvers þarfafyrirtækis innanlands. Hæstv. ráðh. ætti því að hætta að gorta af þessari heimildarlausu ráðstöfun á annara fje, og má þakka fyrir, ef hann verður ekki látinn endurgreiða það. Þegar ráðh. er að gorta af þessari gjöf, þá lætur hann um leið líta svo út, að breska heimsveldið hafi staðið á öndinni út af þeim 8000 kr., sem vátryggingarfjelagið átti að breiða ríkissjóði, en þetta er svo brosleg frásögn, að það er óþarfi að nefna hana sínu rjetta nafni. En hví gaf ráðherrann ekki vátryggingarfjelaginu sjálfu eftir upphæðina, fyrst honum finst óviðurkvæmilegt, að hún væri greidd? Þá hefði hún að hans áliti komist í rjettar hendur. Monti hæstv. ráðh. út af enskum blaðaummælum er ekki ástæða til að svara. Hann skoðar sig sem stórkostlegan velgerðamann heimsveldisins breska, og er varla gustuk að ræna hann þeim skýjaglópshugmyndum.

Hæstv. ráðh. nefndi nokkur dæmi þess, að erlend ríki hefðu gefið eftir björgunarlaun. Jeg rengi þetta ekki, en þetta sýnir einmitt, að þessi ríki telja sig hafa átt kröfu á björgunarlaunum, því að annars var ekkert að gefa eftir. Enginn getur gefið eftir það, sem hann á engan rjett á. Það er vitleysa. Hæstv. ráðh. hefir með þessu sannað það, að kröfu áttum vjer á björgunarlaunum, og með þessu greitt sínum eigin málstað greinilegt rothögg.

Eftir ummælum hæstv. ráðh. er jafnvel á honum að skilja, að við þurfum helst að friðmælast eitthvað eða friðþægja Englendingum, af því að við sektum hjer lögbrotatogara. En þetta er rangt á litið. Englendingar eru miklu meiri menn en svo, að þeir átelji, þótt sekir togarar þeirra sjeu sektaðir. Umræður hafa talsvert oft orðið um þetta í breska þinginu, og þá hefir breska stjórnin ávalt sagt skýrt og skorinort, að hún taki ekki til greina kvartanir frá hinum seka og fyrsta krafan, sem Bretar verði að gera til þegna sinna, sje sú, að þeir hlýði lögum, og er full ástæða til að minna hæstv. dómsmrh. á þetta með tilliti til aðbúðar hans við íslensk lög, sem hann þó er settur til að gæta.

En til þess að sýna, að fyrv. stjórn hefir sýnt Bretum maklega vinsemd og greiðasemi, skal jeg benda á, að breska stjórnin fór eitt sinn fram á, að við ljetum varðskip leita um hafið fyrir norðan Ísland að breskum togara, sem ekki hafði spurst til um lengri tíma, og var þetta þegar í stað gert. Leitaði varðskipið lengi og var engin borgun fyrir tekin, enda kom beiðnin frá stjórninni. Hitt er aftur á móti hin mesta ósvífni einmitt gagnvart Bretum sjálfum, að gefa það í skyn hjer á þingi, að þeir ætlist til, að ríkissjóður kosti björgunarstarfsemi til hagsmuna fyrir stórauðug vátryggingarfjelög.

Jeg kem þá að ummælum hæstv. dómsmrh. um Thorcilliisjóðinn og ráðstöfun mína, er hann snertir. Um þetta mál fór ráðh. með svo mikil ósannindi og staðleysur, að engu var líkara en að hann vildi sjálfur reyna að færa sannanir fyrir rjettmæti hinna landsfleygu ummæla, sem Sigurður Þórðarson hafði um hann fyrir nokkrum árum í riti, sem hann gaf út. Ráðh. segir í stuttu máli þannig frá: Thorcilliisjóðurinn hefir verið afhentur leynifjelagi (Oddfellowfjelaginu) og konungssamþykki verið fengið til. Sjóðurinn geti því farið til útlanda hvenær sem er og vilji gefanda sjóðsins sje með þessum ráðstöfunum virtur aðvettugi. Þetta er, held jeg, aðalinnihaldið í ásökunum hans, og ætla jeg nú að rekja í sundur þennan vef blekkinga og ósanninda, en mun ekki hirða, þótt jeg verði nokkuð langorður, því að mjer þykir í rauninni gott að fá tækifæri til að sýna hjer á þingi, hvernig hæstv. ráðh. leyfir sjer að misþyrma sannleikanum.

Thorcilliisjóðurinn er myndaður með gjöf Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors í erfðaskrá hans 1759 til þess að koma upp stofnun til uppihalds fátækum og þurfandi börnum í Kjalarnesþingi hinu forna (Gullbr.- og Kjósarsýslu, Reykjavík og Hafnarfirði). Sjóður þessi var um skeið notaður til þess að halda uppi barnaskólum, en því er fyrir löngu hætt eftir að ríkið tók að sjer barnafræðsluna. Hefir sjóðurinn lítið starfað hin síðari árin og er nú rúmlega 100000 kr. Eftir reglugerð sjóðsins, sem er staðfest af konungi, eiga að stjórna honum stiftamtmaðurinn á Íslandi og biskupinn á Sjálandi í Danmörku. Löngu eftir dauða gefandans var stjórn sjóðsins lögð undir stiftsyfirvöldin hjer, og með tilskipun konungs, dags. 23. ágúst 1904, var sjóðurinn settur undir stjórnarráðið. Í stjórnarráðinu hafði landritari stjórn sjóðsins á hendi, en eftir afnám landritaraembættisins tók við þessu starfi skrifstofustjórinn í dómsmálaráðuneytinu. Þetta stutta yfirlit sýnir, að oft hefir verið breytt um yfirstjórn sjóðsins og að tilgangur sjóðsins er að hjálpa fátækum og þurfandi börnum á áðurnefndu svæði.

Í frásögn ráðh. kastaði fyrst tólfunum, þegar hann fór að lýsa Oddfellowreglunni. Hann lýsti henni sem erlendu leynifjelagi og gaf í skyn eða jafnvel sagði beinlínis, að hún hefði með röngu dregið sjer fje frá Vífilsstaðahælinu. Vegna þessara gífurlegu og mannskemmandi ósanninda get jeg ekki komist hjá að skýra nokkuð frá starfsemi reglunnar hjer á landi. Hæstv. ráðh. sagði, að fjelagið væri leynifjelag. Það er leynifjelag á sama hátt og t. d. Goodtemplarareglan, en eins og allir vita, að Goodtemplarareglan starfar að bindindisútbreiðslu, eins vita allir, að Oddfellowreglan starfar að margskonar líknarstarfsemi og hefir komið þar miklu til leiðar. Í þessu efni ætti að nægja að minna á holdsveikraspítalann, radíumsjóðinn og Vífilsstaðahælið. Alt eru þetta stofnanir, sem Oddfellowreglan hefir beitt sjer fyrir og komið áfram með mikilli fórnfýsi og fjárframlögum, og það er hart að þurfa að verja þann fjelagsskap, sem hefir átt forgöngu að öllu slíku, fyrir svívirðingum og auraustri dómsmálaráðherra landsins. Jeg fer þó ekki langt út í þetta mál, því að bæði eru störf þessa fjelags alkunn og nöfn þeirra manna, sem einna fremstir hafa staðið í fylkingu til þess að hrinda fram þessum velferðarmálum, nægileg trygging fyrir því, að starfsemin sje rekin í góðum tilgangi. Meðal þessara manna má nefna Björn Jónsson fyrverandi ráðherra, Tryggva Gunnarsson bankastjóra, Klemens Jónsson fyrv. ráðherra, Guðmund Björnson landlækni, Sighvat Bjarnason bankastjóra, Knud Zimsen borgarstjóra o. fl. o. fl.

Eitt af viðfangsefnunum, sem reglan hefir tekið sjer fyrir hendur, er baráttan gegn „hvíta dauða“, baráttan gegn tæringunni. Eftir að Vífilsstaðahælið hafði verið reist og eftir að ríkið hafði tekið við því til rekstrar, sneri fjelagið sjer meðal annars að því að koma á fót sumarhæli fyrir veikluð börn og fátæk, í heim tilgangi að reyna með því að fyrirbyggja, að þessi börn yrðu síðar herfang „hvíta dauða“. Var reynt með þessu að „stemma á að ósi“, enda mun það vera álit flestra lækna, að einhver mikilsverðasti þátturinn í berklavörnunum sje einmitt að verja börnin. Sumarhælið hefir starfað nokkur sumur í Borgarfirði, en af því að aðstaðan er óþægileg og ótryggileg nema húsnæði og margt annað sje víst, sneri fjelagið sjer að því að koma upp eigin sumarhæli í þessu skyni, og hefir útvegað sjer ágætan stað í þessum tilgangi. En til þess að hugmynd þessi gæti sem fyrst komist í framkvæmd sneri fjelag manna, sem fyrir þessu gengst, sjer til mín á síðastliðnu sumri og bauðst til að gefa Thorcilliisjóði 40000–50000 kr., sem safnast höfðu til sumarhælis, ef sjóðurinn vildi halda uppi slíku hæli. Var tilgangurinn, að reisa skyldi hælið fyrir gjafafjeð, en Thorcilliisjóður halda því uppi með vöxtum sínum, þó þannig, að jafnan skyldi nokkur hluti þeirra leggjast við höfuðstólinn, til þess að sjóðurinn yxi.

Þetta þótti mjer svo góð hugmynd og svo mjög í anda gefanda Thorcilliisjóðsins, að jeg hikaði ekki að taka við gjöfinni, og fjelst konungur á tillögu mína í þessu efni og var gefin út tilskipun sú um þetta, sem hæstv. ráðh. hefir dregið hjer inn í umræðurnar, en slept úr henni, til þess að honum væri hægra um árásina.

Eftir tilskipun þessari er stjórn sjóðsins falin 3 mönnum. Einn þeirra skal vera æðsti yfirmaður Oddfellowreglunnar á Íslandi, annar maður úr reglunni, sem ráðherra samþykkir, og þriðji maður, sem ráðherra útnefnir. Með þessu eru ráðherra trygð yfirtökin. Og auk þess getur ráðherra sett þær reglur um stjórn sjóðsins, sem honum þykir þurfa, og er það berum orðum tekið fram í tilskipuninni. Í stjórn sjóðsins voru af mjer skipaðir: æðsti maður reglunnar hjer á landi, Klemens Jónsson fyrv. ráðh., sem hafði einn stjórnað sjóðnum frá 1904–1916, Jón Pálsson bankagjaldkeri og Guðm. Sveinbjörnsson skrifstofustjóri, sem hafði stjórnað sjóðnum frá 1917–1927. Þori jeg óhræddur að leggja það undir dóm hvers manns í landinu, að sjóðnum sje vel borgið í höndum þessara ágætismanna.

Svona er rjett skýrt frá þessu máli, og sjest þá, að nokkuð skýtur skökku við frásögn ráðh. Hann talar um, að sjóðurinn geti farið til útlanda eftir þessu fyrirkomulagi, og er jeg steinhissa á, að hann skuli vera svo djúpt sokkinn, að hann skuli ekki fyrirverða sig fyrir að fara þannig með bein ósannindi í þingsalnum, svo að segja á sömu mínútunni sem hann les það upp úr tilskipuninni, að stjórn sjóðsins á að skipa æðsti maður reglunnar á Íslandi og að ráðh. þarf að samþykkja báða hina, sem í stjórninni eru. Reglan færir Thorcilliisjóðnum 40–50 þús. kr. gjöf, en þetta snýst þannig í munni hæstv. ráðh., að sjóðurinn sje afhentur reglunni. Ráðh. las upp brjefið, sem gjafatilboðið er í, en samt snýr hann þessu svona, og verð jeg að segja, að þm. hefir sjaldan verið sýnd slík ósvífni og áreiðanlega aldrei fyr úr ráðherrastóli, að ætla þeim að gleypa svona flugur.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að jeg hefði verið fljótur til að afgreiða þetta mál, en það var gert að undangenginni ítarlegri rannsókn, enda hefi jeg jafnan haft þann sið að geyma ekki afgreiðslur úr hófi fram.

Þá dróttaði hann einnig fjárdrætti að Oddfellowreglunni og kvaðst mundu fara í opinbert mál við hana eftir ráðum yfirlæknisins á Vífilsstöðum. Hann ræður sínum gerðum í þessu, hæstv. ráðh., en af því að jeg þekki vel til, hvað hann á hjer við, þá vil jeg segja honum það, að hann mun ekki ríða feitum hesti frá þeirri málssókn. Annars væri fróðlegt að vita, hvað hann á við með „opinberu máli“, því að jeg er óviss um, að hann viti, hvað átt er við með því, jafnfáfróður og hann er í öllu, sem að dómsmálum lýtur. Mjer dettur ekki í hug að fara langt út í þetta fjas hæstv. ráðh., en svo mikið get jeg sagt honum, að ef hann ætlar að leita að þessu fje, sem hann nefndi, hjá Oddfellowum, þá mun hann verða fyrir alvarlegum vonbrigðum. Frekari upplýsingar ætla jeg ekki að gefa honum, af því að mig snertir þetta ekki og jeg hefi engar skyldur til að sjá um, að vonir hans bregðist ekki.

Vegna ummæla hæstv. ráðh. um útlent fjelag, vil jeg taka það fram, að Oddfellowreglan hjer á landi er íslenskt fjelag, en annars er reglan útbreidd um mestan hluta hins mentaða heims, eins og t. d. Goodtemplarareglan.

Mig tekur það sárt, að hæstv. ráðh. hefir í ákafa sínum um að vega að mjer gert árásir á Oddfellowregluna, því að hún er alsaklaus. En kannske ætlar ráðh. að fara að dæmi Mussolini og fyrirbjóða regluna hjer á landi, eins og Mussolini hefir gert á Ítalíu um Frímúrararegluna, en án stjórnarskrárbrots getur hann ekki gert það. Það vil jeg minna hann á, þó óvíst sje, að dugi. Hæstv. ráðh. og Mussolini eru báðir gamlir sósíalistar og ýmsum sýnist, að hinn fyrnefndi vilji í mörgu taka hinn síðarnefnda sjer til fyrirmyndar.

Jeg kem þá næst að ummælum hæstv. ráðh. um Shellfjelagið og olíugeyma þess við Skerjafjörð. Vildi hann láta líta svo út, að sjálfstæði voru gæti stafað hætta af fyrirtæki þessu, sökum þess, að geymarnir væru svo stórir, að erlendur herfloti gæti notað þá á ófriðartímum. Gaf hann fyllilega í skyn, að erlent stórveldi mundi standa hjer á bak við og að jeg væri verkfæri í höndum þess stórveldis til þess að svíkja mitt föðurland. Hæstv. ráðh. notar sjer í þessu þinghelgina á svipaðan hátt og innbrotsþjófur notar felustaði. Hann veit, að ef hann hefði viðhaft slík ummæli utan þinghelginnar, mundi hann hafa fengið húsaskjól hjer í tugthúsinu um lengri tíma. Þess vegna hefir hann ekki orðað þessar ásakanir fyr.

En til þess, að enginn geti verið í efa um, hvernig máli þessu er varið, mun jeg nota það tilefni, sem mjer er með þessu gefið, til þess að skýra í aðaldráttum frá olíumálinu hjer á landi á hinum síðari árum.

Á síðustu árum fyrir heimsstyrjöldina hafði Standard Oil náð hjer svo miklum tökum á olíusölu, að nærri þótti stappa fullri einokun. Þetta varð til þess, að sett voru lög 1912 um heimild handa landsstjórninni til þess að taka einkasölu á steinolíu. Lög þessi og önnur lög, sem sett voru í þeirra stað, voru þó ekki notuð fyr en árið 1923, er einkasala var tekin af hálfu þáverandi landsstjórnar, er samdi við enskt fjelag, British Petroleum, um að það skyldi selja einkasölu ríkisins olíu. Samningur sá sem þá var gerður, var gagnrýndur mjög og margir töldu hann óhagstæðan oss. Bent var og á það, að olíuverslun væri áhættusöm verslun fyrir ríkissjóð í fiskileysisárum. Þetta varð til þess, að í þinginu varð sú skoðun ofan á, að afnema einkasölu ríkisins á steinolíu frá 1. janúar 1926, en ríkissjóður hjelt áfram olíuverslun í frjálsri samkepni, og stóð svo þar til um síðustu áramót, er ríkið hætti allri olíuverslun. Var að þessu ráði horfið vegna þess, að ákveðið var fyrir alllöngu, að fjelag það, sem selt hafði olíuverslun ríkisins, British Petroleum, ætlaði að byggja olíugeyma hjer í Reykjavík. Var þá ástæðulaust að halda lengur uppi olíuverslun á ábyrgð ríkissjóðs, þar sem sjeð var fyrir, að olíubirgðir yrðu hjer og víst um, að fleiri fjelög ætluðu að byggja hjer olíugeyma, en við það skapaðist samkepni um olíuna, en samkepnileysið um hana var einmitt það, sem hratt af stað einkasöluhugmyndinni í byrjun.

Hæstv. ráðh. ámælti mjer fyrir það, að jeg hefði samkvæmt heimild í lögum 1919 leyft öðru fjelagi en British Petroleum að fá eignarhald á lóð við Skerjafjörð til þess að byggja þar olíugeyma, en þessi ámæli eru vissulega ekki á rökum bygð. Það var vitað, er leyfi þetta var gefið, að British Petroleum, mjög voldugt fjelag, sem enskastjórnin á mikið í, ætlaði að reisa olíugeyma hjer í Reykjavík. Það var því ekki nema gott að fá keppinaut um olíusölu hjer á landi, einmitt með hliðsjón af, að samkepnileysið hafði áður reynst oss ilt. Þeir einir geta haft á móti þessari ráðstöfun minni, sem af einhverjum ástæðum vilja draga taum British Petroleum okkur í óhag. Grunar mig, að sá fiskur liggi undir steini hjá hæstv. ráðh., er hann nú vill gera Shellfjelagið tortryggilegt, en hefir ekkert að athuga við British Petroleum eða bygging olíugeyma þess hjer í höfuðstaðnum. Jeg skil ekki, að nokkur maður með heilbrigðri skynsemi og með nokkurnveginn óbrjálaðri rjettlætistilfinningu geti ámælt mjer fyrir það, þótt jeg vildi með því að gefa leyfi til að eiga land undir olíugeyma reyna að tryggja landsmönnum sem hagkvæmasta olíuverslun. Með þessu er ekkert frá ríkissjóði tekið og engin áhætta á hann lögð, en landsmönnum hinsvegar trygt að minsta kosti eitt skilyrði fyrir, eftir því sem unt var, hagstæðri olíuverslun.

Hæstv-. ráðh. þótti stærð olíugeymanna við Skerjafjörð tortryggileg, en það er vegna vanþekkingar hans. — Geymarnir eru að sönnu nokkru stærri en beinlínis er þörf á eins og nú stendur, en olíunotkun landsins fer hraðvaxandi ár frá ári, eins og olíunotkun heimsins yfirleitt. Skipum, sem nota olíu til að knýja fram vjelar sínar, fjölgar árlega stórkostlega. Hið nýja skin Sameinaða gufuskipafjelagsins „Dronning Alexandrine“, sem er í förum hjer við land, notar t. d. olíu, en ekki kol. Mikil hreyfing er uppi í heiminum um að nota olíu í stað kola á togurum, og mun ekki verða langt þangað til einn slíkur togari kemur hingað. Á síðustu árum hafa komið hingað skemtiskip, er nota olíu í stað kola, svo stór, að þau mundu hafa þurft til einnar ferðar eins mikið af olíu og geymarnir við Skerjafjörð rúma.

Að þannig vöxnu máli er alveg sjálfsagt að hafa geymana nokkru stærri en þörf er á í augnablikinu. Olíuverslunin vex hröðum fetum og það kostar tiltölulega lítið meira að byggja t. d. þriðjungi stærri geymi en beint er þörf á í augnablikinu, enda sparast þar með á öðrum liðum, t. d. flutningskostnaður á olíunni til landsins. Eftir því sem hægt er að flytja hana í stærri skipum, eftir því verður flutningskostnaðurinn minni á hverri smálest.

Að aðrar þjóðir geti notað geyma þessa til þess að birgja herskip sín að olíu, er fáránleg vitleysa. Olía sú, er kemst í geymana, mundi ekki vera hlutfallslega meiri birgðir fyrir herskipaflota, þótt lítill væri, en fingurbjörg af steinolíu væri fyrir venjulegt sveitaheimili. Um slíka vitleysu verður ekki öðrum talin trú en mjög grunnhyggnum mönnum, og mjer dettur ekki í hug, að hæstv. ráðh. trúi þessu sjálfur. Í þessu sambandi er það lítilfjörlegt atriði, að Skerjafjörður er ekki gengur herskipum stórþjóðanna, svo að þegar af þeirri ástæðu mundu geymarnir hafa verið settir annarsstaðar, ef sú hefði verið tilætlunin að birgja erlenda flota, og sannarlega væri þá nær að benda á þá olíugeymana, sem eru við Reykjavíkurhöfn, en það gerði hæstv. ráðh. ekki, og er hann því ber að hlutdrægni í þessu máli, og tek jeg það svo, að það sje af því, að hann eða hans menn eru við þá geyma riðnir.

Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að hið íslenska Shellfjelag væri að einhverju leyti ólöglegt, en vað undrar mig mikið að heyra slíkt, því að hann hefir látið lögfræðing hjer í bænum rannsaka þetta, og í gær átti jeg tal við þann lögfræðing, og hann sagði alt í reglu. Sjálfur hefir hæstv. ráðh. ekkert vit á þessu; því að hann er ekki lögfræðingur, eins og kunnugt er. Jeg verð hví að álíta, að hann hafi hjer farið með bein ósannindi.

Hæstv. ráðh. nefndi lækni hjer í bænum, Björgúlf Ólafsson, sem hefir lagt mikið fje í þessa olíuverslun, en hann hafði það ranglega eftir honum, að hann hefði ekki innborgað sinn part. Læknirinn kveðst alls ekki hafa sagt þetta, enda væri það rangt.

Dylgjum ráðh. í minn garð veit jeg varla, hvort jeg á að svara. Jeg tel hann ekki merkari mann en svo, að jeg gæti látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvað hann segir. En jeg get sannað með fjölda vitna, að það kom ekki til orða, að jeg færi í stjórn fjelagsins fyrri en jeg hafði látið af ráðherrastörfum, og áður en jeg játaði að taka þetta að mjer, spurði jeg hæstv. fjmrh. (MK), sem mjer er kunnugt um, að er riðinn við stjórn þess fjelags, er stendur að geymum British Petroleum, hvort honum pætti miður, að jeg færi í stjórn Shellfjelagsins, en hann kvað nei við. Nú get jeg ekki með neinu móti skilið, hvernig hæstv. ráðh. getur fengið sig til að sýna þá bersýnilegu hlutdrægni, að átelja mig fyrir það sama, sem hann lætur óátalið hjá starfsbróður sínum og flokksbróður, hæstv. fjmrh. Þessi aðferð sýnir, að hæstv. ráðh. hirðir lítt um óhlutdrægni, og hjer er einungis um að ræða pólitíska árás á andstæðing, en hún er og verður máttlaus, af hví allir sjá, að hún er ekki á öðru bygð en hlutdrægni og rangsleitni.

Á yfirstandandi ári hafa verið reistir olíugeymar hjer á landi, en ekki fyr, svo að teljandi sje. Nú fyrst er því hægt að reka steinolíuverslun hjer á svipaðan hátt og í öðrum löndum, en hingað til höfum vjer orðið að nota tunnur eingöngu. Mikið af olíunni hefir lekið niður og við það hefir hún orðið miklu dýrari. Nú er það lag á komið, að stór olíugeymaskip flytja olíuna milli landa og dæla henni í aðalgeymana á landi. Úr geymunum verður hún sumpart látin á tunnur og sumpart í lítið olíugeymisskip, er flytur olíuna í smágeyma sem næst heim stað, þar sem á að nota hana. Þessa smáolíugeyma þarf að reisa víða kringum land, og fyrst þegar svo er komið, er olíuverslun vor komin í sama horfið og í öðrum siðuðum löndum. Þá fyrst losnum við við að þurfa að borga fyrir þúsundir og tugi þúsunda lítra af olíu, sem lekur niður án þess að nokkur hafi gott af. Þetta er það, sem verið er að gera hjer á landi. Það er verið að undirbúa þetta fyrirkomulag, sem allar aðrar siðaðar þjóðir búa við, en þá rís upp öfundin, tortryggnin og rógurinn og blæs dómsmálaráðherra landsins því í brjóst, að rjettast sje að nota þetta mál í pólitískar þarfir, en sanngjarnt er að geta þess, að starfsbróðir þessa ráðh., hæstv. fjmrh. (MK), lítur alt öðrum augum á þetta mál.

Jeg get ekki skilist svo við þetta mál, að jeg bendi ekki á þá ósvinnu, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sjer á þingi að drótta því að öðrum ríkjum, að þau ætli sjer með ráðnum huga að brjóta hlutleysi vort. Ef þetta hefir ekki illar afleiðingar fyrir oss, er það fyrir það eitt, að ekki er tekið mark á geypan ráðherrans. Mun jeg ef til vill víkja að þessu nokkuð síðar, en um leið og jeg skilst við þetta atriði vil jeg segja það, að það er illa til fallið, er stjórn landsins kastar hnútum að þeim mönnum, sem hrinda af stað framfarafyrirtækjum.

Fáeinum orðum verð jeg að svara hæstv. ráðh. vegna ummæla hans um afsetningu sýslumannsins í Barðastrandarsýslu, því að hann er auðsjáanlega montinn yfir því að hafa komið því þrekvirki í gegn. Jeg dáist ekkert að honum fyrir þetta. Mörg stjórn hefir sett sýslumenn af og ekki fundið ástæðu til að stæra sig af á þingi. Hjá þessum sýslumanni voru rannsakaðar allar fjárreiður á tilsettum og fyrirskipuðum tímum, og fanst ekkert athugavert við þær. Þetta veit hæstv. ráðh., en til þess að gera skoðun hjá þessum embættismanni tortryggilega hefir hann vaðið upp á starfsmann einn í stjórnarráðinu, ungan og mjög efnilegan lögfræðing, meðan hann dvaldi erlendis vegna veikinda, og hefir borið honum á brýn sviksamlega aðferð við skoðunina. Þetta gerði ráðherrann í blaði sínu, en því hefir verið svarað aftur opinberlega, svo að engin ástæða er til að tala lengra mál um það. Hjer vil jeg aðeins bæta því við, að það er hin mesta heimska að gera stjórn ábyrga fyrir því, þótt sjóðþurð kunni að verða hjá einhverjum embættismanni landsins, enda hefir slíkt ekki verið gert af öðrum en hæstv. ráðh. (JJ). Hann er ekki vanur að láta smámuni fyrir brjósti brenna. Út yfir tekur þó, þegar hann heldur, að hann hafi rjett til að áfella mig fyrir það, að þessi sami maður hafi ekki borgað legukostnað á Landakotsspítala.

Jeg hefi þá svarað öllum ákúrum hæstv. ráðh., svo að ekki stendur steinn yfir steini, en nú kem jeg að því, sem hann sagði sjálfum sjer til varnar. Mun jeg nú athuga það lítið eitt.

Ráðh. afsakar sig mjög að því er snertir Spánarsamningana. Nú viðurkennir hann, að við það mál geti hann ekkert átt, af því hve mikill meiri hluti á þingi hafi verið þeim fylgjandi. Hann kveðst ekki þora að fækka útsölustöðum Spánarvína og hann kvaðst ekki þora að reyna að fá samningunum breytt. Þetta vissi jeg reyndar áður, en jeg vildi einmitt fá hæstv. ráðh. til að segja þetta, til að fá tækifæri til að svifta af honum hræsnisblæjunni um þessi atriði. Á þingi í fyrra greiddi hann atkv. með hvorutveggja þessu, sem hann nú játar, að hann þori ekki að gera, vegna þess, hve miklir hagsmunir sjeu við þessa samninga tengdir. Í þinginu í fyrra er hann nógu ábyrgðarlaus til þess að skora á okkur, sem þá áttum sæti í landsstjórninni, að gera þetta sama, sem hann nú telur ófært að gera. Og ekki nóg með það, heldur úthúðar hann fyrir kosningarnar í sumar öllum Íhaldsmönnum fyrir undirlægjuhátt við Spánverja og ótrygð gagnvart banninu. Hve mörg atkvæði hann og hans flokkur hefir fengið á kjördegi fyrir þessar brellur, veit jeg ekki, en hitt veit jeg, að öll slík atkvæði eru fengin á óheiðarlegan hátt. Þau eru fengin með kosningafölsun, sem ekkert er betri en Hnífsdalsfölsunin, og vil jeg þó sannarlega ekki mæla henni bót. — Þessi óheilindi og þennan yfirdrepskap hæstv. ráðh. vildi jeg afhjúpa hjer, og það hefir tekist ágætlega. Viðurkenningin liggur fyrir skjalleg og óhagganleg, og tek jeg mjer nú í munn orð hæstv. ráðh. sjálfs og segi: Jeg á ekki nógu sterk orð til að lýsa andstygð minni á slíkri stjórnmálamensku.

Áður en fyrv. stjórn fór frá völdum, var hætt að lána vín nema til lyfja, og þó mjög takmarkað. Breyting á þessu veit jeg því alls ekki til, að hafi orðið. En um skýrslurnar um áfengisútlát lækna er það að segja, að að vísu ljet fyrverandi stjórn ekki birta þær, en þær voru til, eins og jeg sýndi fram á á þinginu í fyrra, og þess vegna þurfti ekki að samþykkja að safna þeim. Jeg skal ekkert ámæla hæstv. ráðh. fyrir birtinguna, en mjer finst, að hann hefði getað látið starfsmenn vínverslunarinnar vinna að þessu og að hann hefði ekki þurft að kaupa mann fyrir 400 kr. á mánuði til þess að leysa það verk af hendi.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að síðan hann komst í stjórn hefðu áfengisútlát lækna mikið minkað. Jeg vil ekkert um þetta fullyrða, en skýrsla sú, sem nýkomin er fyrir árið 1927, ber þess ekki vott. Og nú eru ekki liðnir nema 2 mánuðir af árinu 1928, svo að of snemt er að spá um það ár. Annars vil jeg benda á, að hinar útgefnu skýrslur bera það með sjer, að áfengisútlát lækna hafa farið minkandi ár frá ári, og jeg þykist þess fullviss, að þau hefðu haldið áfram að minka, þótt hv. dómsmrh. hefði ekki orðið ráðherra. Jeg tók eftir því, að þegar ráðh. var að útmála ótta sinn við það að hrófla nokkuð við Spánarsamningunum, þá taldi hann meðal annars sem ástæðu fyrir þeim ótta það, að ef hann bryti samninginn, t. d. með því að fækka útsölustöðum vínanna, þá mundu Spánverjar frjetta það, Íhaldsmenn mundu sjá fyrir því. Þessi orð opna undarlega innsýn í hugskot hans. Hann gefur í skyn, að ef hann væri viss um, að það frjettist ekki til Spánar, mundi hann jafnvel vera til í að brjóta samninginn.

Þá sagði hæstv. ráðh., að vín væri nú horfið úr skipum, er sigla hjer við land. Í því sambandi vil jeg minna hann á, að jeg fór norður til Akureyrar með honum á skipi seint á síðastliðnu hausti, í erindum, sem hann hefði sjálfur átt að lúka, úr því að hann átti ferð þangað. (Dómsmrh. JJ: Það var gömul synd þingmannsins, sem var best, að hann sjálfur bætti úr). Engin synd, en erindinu lauk jeg auðvitað, svo að landsstjórnin var harðánægð yfir úrslitunum, en það hefði verið ódýrara fyrir ríkissjóð, að hæstv. ráðh. hefði treyst sjer að leysa þetta erindi af hendi sjálfur. En jeg var að tala um skipsferðina norður, og verð að segja, að ekki var vín horfið af því skipi. Þá var hægt að fá það alveg eins og áður. (Dómsmrh. JJ: Brjefið til lögreglustjóra var ekki farið þá). Það veit jeg ekkert um, en hitt veit jeg, að hann fullyrðir hjer um atriði, sem hann getur ekki vitað, er hann fullyrðir, að vínið sje horfið úr skipum, sem hjer sigla. En ef svo er, að minna sje drukkið nú en áður, þá er það meðal annars af því, að landsmenn hafa fyrirlitið ráðleggingu hans um að drekka Spánarvín eins og kaffi.

Jeg viðurkenni, að það hefði átt að halda skrá yfir upptæk vín, en hinsvegar er jeg þess fullviss, að lögreglustjórinn hjer í bænum hefir gætt þess vel, að það færi ekki forgörðum. Það hefir ætíð verið geymt í læstum klefa í hegningarhúsinu.

Hæstv. ráðh. kvaðst hafa sagt flestum þeim upp starfi, sem hafa á hendi vínsölu úti um land, og gaf í skyn, að hjá þeim hefði verið sjóðþurð. Mjer er kunnugt um, að þessir menn höfðu sett tryggingar, og vil jeg því spyrja, hvort til þeirra hafi þurft að taka. — Ráðh. svarar engu, og tek jeg það svo, að til trygginganna hafi ekki þurft að taka, en það sýnir, að hafi verið sjóðþurð, hefir hún verið greidd þegar í stað.

Undarlegt var að heyra þennan ráðh. tala um, að þm. hjeldu langar ræður. Hann, sem talaði svo mikið í fyrra, að 1/10 hluti umræðna Alþt. er eftir hann, og hann ljek sjer þá að því að tala 2–3 klst. hvað eftir annað. Hann ætti að venja sig á að tala minna um flísina í auga bróður síns, en gefa meiri gaum að bjálkanum í eigin auga.

Hv. þm. Vestm. (JJós) er fyllilega fær um að svara hæstv. ráðh. út af varðskipamálinu, en jeg vil þó leggja þar nokkur orð í belg, vegna þess að málið snertir mig nokkuð og hæstv. ráðh. ræddi um mig í þessu sambandi. Ráðh. er mjög umhugað um að reyna að spyrða okkur saman í þessu máli, en mjer er af skiljanlegum ástæðum lítið um það spyrðuband gefið. Ráðh. viðurkennir fúslega, að hann hafi brotið varðskipalöggjöfina frá síðasta þingi, enda er honum þar ekkert undanfæri. En hann heldur því fram, að jeg hafi gert hið sama, og heldur, að hann geti dregið úr sínu broti með þessu. Hingað til hefi jeg þó ekki vitað það, að það teldist nein afsökun fyrir þjófa, að aðrir hafa stolið, og svo er þetta um öll lagabrot. Hæstv. ráðh. getur því ekki borið annað úr býtum út af þessum samanburði en meðvitundina um, að einn maður annar á landinu sje honum jafnillur.

En jeg verð að segja hæstv. ráðh. það, að jeg er ekkert upp með mjer af þessum samanburði og tel hann stórlega móðgandi við mig. Mun jeg nú sýna fram á, að samanburður þessi á sjer engin rök.

Brot hæstv. ráðh. liggur í því, að hann lætur lögskrá skipshafnirnar á varðskip ríkisins þvert ofan í lög frá síðasta þingi, og hann greiðir ekki skipverjum laun þau, sem síðasta Alþingi ákvað, heldur ákveður hann þau eftir sínum geðþótta og með þeirri rangsleitni, að vjelstjórar skipanna hafa hærri laun en skipstjórarnir.

Mitt brot segir ráðh. að sje í því fólgið, að jeg hafi ekki látið afskrá mennina. Ennfremur lætur hann í veðri vaka, að jeg muni hafa dregið að skipa mennina á skipunum og gert það í þeim tilgangi að skilja honum eftir óþægilegan arf, en lagabrot skilst mjer ekki, að hann telji þetta, enda væri það fáránlegt.

Til þess að skýra fyrir hv. deild og sjerstaklega hæstv. ráðh., að ekki þurfti nein afskráning mannanna að fara fram, vil jeg benda á, eins og jeg hefi gert áður, að aðalatriði lögskráningar á skip er það, að kveða á um ráðningarkjör mannanna, sjerstaklega kaup þeirra. En hinn 1. júlí í fyrra komu í gildi ný lög, er ákváðu kaupið. Þess vegna átti engin lögskráning að fara fram og þess vegna var það bannað í lögunum frá síðasta þingi. Um afskráning skipverja segja lög þessi aftur á móti alls ekkert, og þau eru því ekki brotin, hvort sem afskráning úr skiprúmi fór fram eða ekki. En af því að lögskráning fer venjulega ekki fram nema þegar menn fara af skipi og tilætlun mín var, að allir skipverjar yrðu áfram meðan þeir vildu og brytu ekki af sjer, svo og vegna þess, að gildandi lögskráningarsamningur um kaup mannanna hlaut að falla úr gildi vegna ákvæða laganna um laun skipverja, þá, taldi jeg og tel enn afskráning mannanna alveg ónauðsynlega. En hún var vitaskuld ekki brot á lögunum, og með því að skipstjórarnir óskuðu hennar, fór hún fram síðar. Það er því langt frá, að jeg viðurkenni nokkurt lagabrot af minni hálfu, eins og hæstv. ráðh. gerir af sinni hálfu, enda var áður en fyrverandi stjórn fór frá farið að greiða laun eftir hinum nýju launalögum skipverja, og einnig höfðu verið gefnar út reglur þær, sem lögin frá síðasta þingi gerðu ráð fyrir. Það var því byrjað að framkvæma lögin áður en stjórnarskiftin urðu, en á eftir var hætt að framkvæma þau, eins og jeg hefi tekið fram. Þetta er hinn mikli munur, munurinn, sem er á sekt og sýknu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði dregist marga mánuði hjá mjer að skipa mennina á skipin. Launalög skipverjanna komu í gildi 1. júlí 1927, en seint í ágúst urðu stjórnarskiftin. Um marga mánuði gat því ekki verið að ræða. Og jeg vil minna hæstv. ráðh. á, að jeg var í kosningaleiðangri eins og hann frá því nokkru eftir miðjan júní og þangað til seint í júlí. Drátturinn, sem hjer var um að ræða af minni hálfu, var því ekki langur. Og frá minni hálfu var alt tilbúið undir skipun mannanna. Uppkast að skipunarbrjefunum var fullbúið og samþykt af mjer og ekki annað eftir en hreinrita þau og undirskrifa. En vegna anna í skrifstofunni var hreinrituninni ekki lokið þegar stjórnarskiftin urðu, og því gat jeg ekki undirritað brjefin. Jeg er viss um, að hæstv. ráðh. veit þetta, þótt hann vilji ekki segja það, en viti hann ekki, hvað rjett er í þessu, er honum innan handar að fá að vita það hjá skrifstofufólkinu í dómsmálaráðuneytinu, ef hann eða aðrir trúa ekki því, sem jeg segi.

Hin lofsamlegu ummæli hæstv. ráðherra um, hversu góður skrifstofumaður jeg sje, er skylt að þakka að verðleikum, en eins og jeg hefi áður sýnt fram á, getur hann ekki notað þau ummæli sín sem rök fyrir viljandi drætti í þessu máli, þar sem jeg hefi sýnt fram á, að alt var tilbúið frá minni hendi. Og satt að segja leit jeg svo á, að það væri alveg sama, hvort jeg eða eftirmaður minn undirritaði brjefin, og mjer datt það alls ekki í hug, að nokkur ráðherra mundi leyfa sjer að ganga á þann hátt í berhögg við vilja þingsins, sem raun er á orðin um hæstv. dómsmrh. Því get jeg einnig bætt við, að síðustu dagana fyrir stjórnarskiftin var mjög mikið annríki, því að fjöldi manna vildi fá mál sín afgreidd áður en nýja stjórnin tæki við. (Dómsmrh. JJ: T. d. Oddfellowar). Já, og margir fleiri, og fanst mjer ekki í því liggja neitt traust til eða gleði yfir hinni nýju stjórn.

Hæstv. ráðh. endurtók það nú, sem hann hefir oft sagt áður, „að íslenskir togarar væru altaf í landhelgi, en væru aldrei teknir.“ Allir vita, að hvorttveggja er ósatt. Íslenskir togarar hafa verið teknir í landhelgi og sektaðir, en það er ekki aðalatriði, þótt ráðh. segi rangt frá um þetta. Aðalatriðið er, að þessi ummæli dómsmálaráðherra landsins eru okkur stórhættuleg. Hvað munu Englendingar og Þjóðverjar hugsa um strandgæsluna, ef þeir fá að heyra þessi ummæli dómsmálaráðherrans? Þeir munu auðvitað hugsa, að sömu lög gangi ekki yfir landsmenn og útlendinga, en það á þó svo að vera eftir alþjóðareglum. Þessar þjóðir munu álíta, að við brjótum þessar reglur, og það getur orðið okkur stórhættulegt. Við, sem hjer erum, vitum, að dómsmrh. hefir ekki vald á tungu sinni í heitum umræðum, en það vita ekki Englendingar og Þjóðverjar. Þeir þekkja ekki slíka ráðherra, er missa stjórn á sjer.

Það var ekki nóg með, að hæstv. ráðh. segði, að jeg hefði brotið lög eins og hann. Hann þóttist hafa fundið lögbrot hjá fleirum, alt ofan frá Hannesi Hafstein og niður til sín. En það yrði of langt að telja þetta og hrekja, og sleppi jeg því þess vegna, en ekki þykir mjer smekklegt að draga þannig dauða menn inn í umr. og bera þá brigslum. Að Jón sál. Magnússon hafi brotið launalögin með því að ákveða ekki skrifstofufje sýslumanna til fimm ára í senn, er ekki rjett, því að þingið samþykti fyrirfram þá ráðstöfun.

Þá mintist ráðh. á, að jeg hefði brotið lögin um atvinnu við siglingar. En mjer þykir undarlegt, að hann skuli ekki hafa vítt mig fyrir það á fyrri þingum. Annars tiltók hann ekki, í hverju þetta brot lægi, en þegar hann skýrir frá því, er jeg reiðubúinn að ræða það við hann.

Jeg býst við, að háttv. þm. Vestm. svari því, sem hæstv. ráðh. sagði um laun skipstjóranna á varðskipunum, en jeg vil þó benda á, að báðir þessir menn voru teknir úr þjónustu fjelags, sem launaði þeim jafnhátt og gildandi launalög gera ráð fyrir hæstu. Menn þessir mundu ekki hafa farið úr hinum fyrri stöðum sínum, nema þeim hefði verið heitið sömu launum í núverandi stöðum sínum. Aðferðin gagnvart mönnum þessum er því ærið harkaleg og spursmálslaust ólögleg.

Jeg mun þá ekki að sinni tala lengra mál, en geri ráð fyrir, að jeg láti næstu ræðu ráðh. ekki ósvarað.