28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg hefi ekki miklu að svara. Við hv. 2. þm. Reykv. (HjV) höfum gert upp skoðanir okkar í nefndinni. Þó vil jeg taka það fram, að fæst útvarpstæki eru svo úr garði gerð hjer, að hægt sje að ná því, sem útvarpað er erlendis frá.

Hv. þm. Borgf. (PO) tók það fram sem sína skoðun — og er ekki neitt við það að athuga —, að hann vildi hafa einkarekstur, en sagði þó sem rjett er, að vel mundi fara á að reka útvarp í sambandi við landssímann. En jeg vil drepa á það, að ef útvarp er rekið sem einkafyrirtæki, er hætt við, að meira verði miðað við hagsmuni fjelagsins en hagsmuni þjóðarinnar og sjerstaklega sveitanna. Annars verð jeg fyrir nefndarinnar hönd að gefa það á vald hæstv. stj., hvaða leið hún tekur í rekstri útvarpsins. Aðalatriðið er, að útvarpinu verði haldið áfram. Jeg vil taka það fram, að það fjelag, sem nú rekur útvarpið, er ólíklegt til að halda því áfram; jeg byggi það á miklum rökum, að því verði ekki að heilsa. Jeg vil benda á eitt enn, sem sýnir, hvað útvarpið getur orðið til mikils gagns fyrir þjóðina, en það er, að mikil líkindi eru til, að hægt verði, ef hjer fæst sterk útvarpsstöð, að útvarpa til margra miljóna manna því, sem þessi litla þjóð hefir á boðstólum í vísindum og listum, auk allra frjetta.

Hv. þm. Barð. (HK) þarf jeg ekki miklu að svara. Hann sagði að útvarpið gæti ekki komið í stað síma. Jeg sagði það heldur ekki, en benti hinsvegar á, að það bætti um, að menn gætu fengið skeyti til sín, þó að þeir gætu ekki sent þau frá sjer. Jeg vil svo nota tækifærið til að þakka hinar vingjarnlegu undirtektir, sem málið hefir fengið, og vona, að þetta verði eitt af þeim málum, sem allir geta fallist á.