14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er ekki langt síðan samþ. voru á Alþingi lög um útvarp, þar sem ríkisstjórninni var heimilað að gefa út leyfisbrjef handa fjelagi einu, með tilteknum skilyrðum í þeim lögum. Hefir fjelag þetta nú starfað í tvö ár og farið svo, sem við mátti búast eftir lögum þessum, að útvarpsstöðin hefir reynst ónóg með öllu. Allir, sem nokkuð þektu til þessara mála, vissu, að stöð, sem ekki hafði nema ½ kw. í loftnet, drægi ekki nema um nokkurn hluta landsins, síst þar sem fjöll og hálendi var til hindrunar, nema því aðeins, að viðtækin væru svo dýr, að öllum almenningi væri ofvaxið að eignast þau; en útvarpið er sjerstaklega mikils virði í því fámenni og strjál bygð, sem hjer er til sveita. Liggur í augum uppi, hve mikilsvert er fyrir sveitaheimili að geta fylgst með öllum nýjungum utan lands og innan. En högum flestra bænda er svo háttað, að þeir hafa ekki fje til að kaupa dýr viðtæki. En ef menn í fjarlægum hjeruðum fá sjer viðtökutæki svo sterk, að þeir geti haft samband við þessa litlu stöð hjer í Reykjavík, geta menn haft fullkomið samband við útlönd, og hlýtur þá að hverfa áhugi fyrir innanlandsstöðinni, af því að frá henni sje svo lítillar og ófullkominnar fræðslu að vænta.

Þeir, sem einhverja þekkingu höfðu á þessum efnum, sáu fyrirfram, að málið mundi lenda í hinu mesta öngþveiti, af því hvernig leyfisbrjef útvarpsfjelagsins var úr garði gert af fyrv. stjórn. Umbótakröfum á útvarpsmálum í heild sinni hefir samt stöðugt verið haldið vakandi, bæði af notendum útvarps og áhugamönnum, og kom fram áskorun í Nd. í fyrra um að athuga ríkisrekstur á útvarpi.

Jeg skal ekki rekja raunasögu útvarpsfjelagsins hjer. Fjelagið mun nú vera næstum því fjárþrota. Stöðin var ljeleg í upphafi, og hefir líka reynst eftir því. Nú liggur fyrir frv. um að bæta úr þessum agnúum í rekstri útvarps hjer á landi, og er það samið af nefnd þeirri, er skipuð var í Nd. í fyrra til að athuga þetta mál. Í greinargerð þessa stjfrv. er sagt margt frá útvörpum í öðrum löndum, en búast má við, þar sem framfarir í þessum efnum eru svo örar sem þær eru, að ýmislegt sje orðið á eftir tímanum í þessari þriggja mánaða gömlu skýrslu.

Í frv. er stjórninni heimilað að láta reisa og starfrækja útvarpsstöð í Reykjavík. Ekki er þó ákveðið með öllu, hve miklu fje skal verja í því skyni, og hefir nefndin fleiri en eina till. um það. Hæsta till. fer fram á 700 þús. kr., en óvíst er, að svo mikils þurfi með. Nú er stungið upp á, að stöðin verði ekki minni en sem nemi 5 kw. á loftnet til talsendinga, en 10 kw. til skeytasendinga. Verður það lagt á vald stjórnarinnar að ákveða, hve stöðin verður stór, og má telja sjálfsagt, að hún ráðfæri sig við fróðustu menn í þessum efnum og að tekið verði tillit til nýjustu uppgötvana á þessu sviði.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt. Þó þykir henni orðalagi frv. allmjög ábótavant, en hefir þó ekki viljað breyta um þar, enda hefði þá orðið að orða upp næstum heilar greinar, og hefði það ef til vill þótt tiltektarsemi af nefndinni. Í háttv. Nd. voru gerðar lítilsháttar breytingar á frv. Þannig var bætt inn í það heimild um lántöku.

Þá er og bráðabirgðaákvæðið aftan við 8. gr., að ríkisstjórninni heimilast að taka að sjer ríkisrekstur á útvarpi nú þegar með minni stöð en í frv. ræðir um til bráðabirgða, enda komi það ekki í bága við rjett þess fjelags, sem nú hefir einkarjett á rekstri útvarps. — Þetta þýðir það, að landsstjórnin eigi að semja við útvarpsfjelagið, en mjer virðist það nú svo að þrotum komið, að það geti ekki lengur framkvæmt hlutverk sitt eins og Alþingi ætlaðist til, og jafnvel ekki eftir leyfisbrjefi því, er hv. 1. þm. Skagf. (MG) á sínum tíma veitti fjelaginu. Í þessu bráðabirgðaákvæði er hugsað til þess, að stjórnin kaupi útvarpsstöðina hjer. En hún ætti ekki að kaupa hana hærra verða en fáanlegt er fyrir hana erlendis. Ef hin nýja stöð yrði keypt hjá Standard Electric, — sem áður hjer Western Electric —, er sennilegt, að það fjelag fengist til að taka litlu stöðina aftur, með því að hún er upphaflega frá því. En ef hagkvæmara boð um nýja stöð fæst frá einhverju öðru fjelagi, þá er sjálfsagt fyrir ríkisstjórnina að taka því. Og þá má hún ekki taka við stöðinni af útvarpsfjelaginu við hærra verði en fæst fyrir hana aftur. Þetta var að vísu ekki beinlínis rætt í nefndinni, en svona horfir málið við frá mínu sjónarmiði.

Að öðru leyti vísa jeg til þeirrar tillögu nefndarinnar, að frv. verði samþykt óbreytt. Ef einhverjar brtt. koma fram, geri jeg þó ráð fyrir, að nefndin taki þær til athugunar, og má vel vera, að hún gæti fallist á breytingar á frv.