09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Nefndin hefir orðið sammála um að leggja til við hv. deild, að þetta frv. verði samþ. með tveimur minniháttar breytingum.

Nefndinni þykir betur til fallið, að ráðuneytið úrskurði uppdráttinn og lýsinguna á sundhöllinni heldur en að bygging og snið hennar sje bundið við teikningu, sem er nú þegar gerð. Það geta komið fram góðar till. í þessu máli, sem enn hefir ekki bólað á, og er sjálfsagt, að hægt sje að taka tillit til slíkra hluta án lagabreytinga.

Eins þykir nefndinni sjálfsagt, þar sem ríkissjóður styrkir þetta fyrirtæki svo ríflega, að ráuðuneytið eigi að hafa úrskurðarvald um aðgangseyri eftir að sundhöllin er upp komin.

Að öðru leyti lítur nefndin svo á, að hjer sje um eitt hið þarfasta frv. að ræða. Þetta frv. getur haft stórmikið gildi fyrir Reykjavíkurbæ um það að efla hjer hreinlæti, styðja að aukinni sundkunnáttu og yfirleitt bæta úr þeirri miklu vöntun á vetraríþróttum, sem er einn af höfuðókostum þessa bæjarfjelags. Aðstaðan hjer í Reykjavík á vetrum er mjög örðug fyrir alt íþróttalíf; en hjer er um stærsta möguleikann að ræða til þess að bæta úr því og gefa æskulýðnum og einnig fullorðnum borgurum tækifæri til þess að iðka hressandi íþrótt.

Eins og jeg hefi sagt, þá er Reykjavík ríflega styrkt samkvæmt þessum lögum. Afleiðingin er vitanlega sú, að það þarf að breyta hlutfallinu um sundlaugastyrk úti um landið, þannig að sundlaugar annarsstaðar á landinu hljóti framvegis helmingsstyrk. eins og hjer er ætlast til um Reykjavík. Jeg vil segja, að afleiðingin sje líka sú, að það þurfi að hækka þann sundlaugastyrk, sem er í fjárlögum til sundlauga annarsstaðar á landinu, að miklum mun. En kannske er hjer ekki rjett að orði komist, að þetta sje afleiðingin af því frv., sem fyrir liggur; hitt er í rauninni rjettara, að bæði þetta frv. og þörfin á að hækka styrk til hverrar einustu sundlaugar úti um landið, — það sje hvorttveggja afleiðing af hinni ríku þörf þjóðarinnar til sundnáms og sundiðkana.