13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi talað áður í þessu máli og fært þá fram rök fyrir því, og skal ekki endurtaka þau nú.

Viðvíkjandi því, að tillag það úr ríkissjóði, sem hjer ræðir um, sje of mikið, þá er það rjett, ef litið er á það hlutfall, sem verið hefir á milli framlags ríkissjóðs og hjeraða til sundlauga úti um land. En eins og tekið hefir verið fram, er sú stefnubreyting orðin í þessu máli, að hjer eftir verður sama töluhlutfall til sundlauga úti um land og hjer er farið fram á að verði til sundhallarinnar. Jeg vænti því, að hv. þm. utan Reykjavíkur sjái, að hagur þeirra kjördæma verður ekki fyrir borð borinn hvað þetta snertir. Og hv. þm. N.-Ísf. vil jeg segja það, að hann má eiga von á mínum stuðningi við þær framkvæmdir, sem stendur til að gera á Reykjanesi vestra.