27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Jeg hafði hálfvegis búist við því, að hæstv. stj. mundi reifa þetta mál eitthvað um leið og það kemur fyrir þessa hv. deild, því að þótt þetta mál hafi verið til umr. í hv. Ed., þá höfum við hjer oftast annað að gera en að hlusta á umr. þar. Jeg vil því leyfa mjer að koma hjer fram með nokkrar aths. og óska að fá skýringar hjá hæstv. stj. um nokkur atriði, er mjer þykir máli skifta.

Frv. þetta, eða samnefnt frv., er hv. 1. þm. N.-M. flutti, lá fyrir síðasta þingi. Var það rætt mjög hjer í háttv. deild og endurbætt af landbn. og fleirum. Málið hefir tekið allmiklum stakkaskiftum frá því það var fyrst flutt. Undanfarin ár hefir það kveðið við sem heróp allra flokka, að vinna þyrfti að því að fá fleira fólk og fleiri býli í sveitum landsins og koma í veg fyrir, að fólkið flytti þaðan. Og því er ekki að neita, að einna hæst hefir heyrst til sumra þeirra manna, sem nú sitja í stj. landsins. Mjer þætti því mikils um vert að heyra, hvað hæstv. stj. legði nú sjerstaklega til málanna.

Jeg dreg enga dul á það, að jeg varð fyrir talsverðum vonbrigðum, þegar jeg las frv., því að mjer finst, að þar vera höfð endaskifti á hlutunum. Þetta mál var flutt hjer í deildinni í fyrra af hv. 1. þm. N.-M. og gekk þá einkum í þá átt að fjölga býlum, svo að sem flest fólk gæti hafst við í sveitum landsins. Nú er tilgangurinn orðinn aðallega sá, að endurbyggja þá sveitabæi, sem eru orðnir hæfilega niðurníddir. Skal jeg í því efni vísa til 4. gr. frv., þar sem ákveðið er, að lán til þessa skuli sitja fyrir. — Hvernig stendur á þessari straumbreytingu? Ef frv. er tekið í víðtækari merkingu, þá er hjer að vísu gerð tilraun til að leysa eitt af stærri vandamálum þjóðarinnar, sem sje hvernig eigi að byggja upp sveitirnar með góðum og varanlegum húsum. En til þess að þeim tilgangi sje náð þarf að taka þetta mál öðrum tökum og á miklu breiðari grundvelli en hjer er gert. Auk þess sem það er spilling á hugsunarhætti bænda að verðlauna jafnvel verstu jarðníðinga, því á því er enginn greinarmunur gerður, hvort jörð hefir níðst vegna fátæktar eiganda eða af hirðuleysi. Það er alkunna, að margt af þeim húsum, sem bygð hafa verið á síðustu árum, er hin mesta handaskömm, bæði ljót, köld og full af sagga. Og það er ilt fyrir bændur að baka sjer mikinn kostnað við að koma þessum byggingum upp og verða svo á eftir að búa við húsakynni, sem eru jafnvel verri en þeir höfðu áður. Hagur sveitabænda er yfirleitt svo, að þeir eru ekki færir um að byggja vönduð hús, nema þá að hleypa sjer í skuldir, sem verða þeim til þyngsla allan þeirra búskap. Það er því afar áríðandi fyrir bændur og þjóðfjelagið, að bygð verði góð og varanleg hús þegar bygt er, og að það verði sem ljettbærast að koma þeim upp; þetta gildir jafnt fyrir kotbóndann sem bjargálnamanninn og efnabóndann. Það má nú ef til vill segja, að ummæli mín sjeu meðmæli með frv. Jeg sje enga ástæðu til að draga fjöður yfir þessa nauðsyn, en það verður alls ekki úr henni bætt með þessu frv., þó að það verði að lögum. Til þess þarf miklu meira fje en ríkissjóði er ætlað að leggja fram. Þegar um þetta er að ræða, þarf líka að gæta þess vel, að það, sem gert er, komi að sem mestu hagnýtu gagni.

Það er áreiðanlegt, að mikið má um bæta í þessu efni, þótt ekki væri um neinn verulegan ríkisstyrk að ræða. Ef nú, svo að jeg haldi mjer við frv., ætti að leysa þetta endurbyggingamál á þeim grundvelli, er frv. bendir til, gæti svo farið, að hver eyrir, sem þessi sjóður fengi til umráða, gengi til þess, og yrði þá ekkert eftir til byggingar nýbýla. Með öðrum orðum, það yrði ekkert eftir til þess að fjölga býlum og jafnframt fólki í sveitunum! Ef það er meiningin að nota fjeð aðallega til að endurbyggja býli, sem eru að fara í auðn, og þá helst afdalabýli, þar sem fólk á orðið erfitt með að haldast við, þá skal jeg játa, að það kemur ekki eins í bága við nýbýlamálið. En þá er á það að líta, af hverju þessi býli eru að leggjast í eyði. Ekki er það vegna bygginga, heldur vegna þess, að fólkið unir ekki orðið á afdalabýlum; einangrunin hræðir það og rekur í þjettbýlið, og þar á að byggja.

Jeg hefi hugsað talsvert um þessi mál, bæði endurbyggingamálið, sem jeg svo kalla, og nýbýlamálið, og jeg álít, að þau sjeu bæði svo mikil stórmál, að þeim sje enginn greiði gerður með því að fljetta þau hvort inn í annað. Jeg álít heppilegast að vinna að þeim báðum hvoru í sínu lagi, eftir því, sem best eru föng á. Þetta eru nú almennar athugasemdir um málið. Mjer finst vera dregið þarna inn í mál, sem að vísu er dálítið skylt, en þó ekki svo, að ástæða sje til að gera það að höfuðatriði eða setja það ofar, eins og hjer er gert.

Þá vildi jeg sem bendingu til þeirrar nefndar, sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, skjóta því fram, hvort ekki væri hyggilegra að ákveða eitthvert lágmark þess minsta lands, sem megi byggja á. Þó að staðhættir geti verið mjög mismunandi, kann jeg þó ekki við, að þetta sje algerlega komið undir geðþótta manna. Annars er það svo, ef tekinn er kaflinn um endurbyggingu bygðra býla, að þar þykir mjer að ýmsu leyti ótryggilega um búið. Til dæmis vil jeg nefna það, að krafist er vottorðs frá hreppstjóra eða hjeraðslækni um húsakynni, um að þau sjeu til dæmis þannig, að heimilisfólki sje hætta búin af að búa í þeim. Í þessu sambandi dettur mjer í hug framkvæmd berklavarnalaganna. Hún er á þá leið oft og einatt, að þegar fólk, sem á að einhverju leyti erfitt uppdráttar, kemur til þessara manna, þá gefa þeir af góðsemi sinni vottorð um, að ástæður þess sjeu svo og svo slæmar. Líkt mundi fara um þessi fyrirmæli; þau munu verða misbrúkuð á ýmsan hátt.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni. Jeg vildi sem sagt koma fram með þessar athugasemdir áður en málið færi til nefndar, í von um, að hún taki þær til greina.