16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Jeg ætla ekki að tala langt mál, hvorki til þess að þreyta hv. deild, sjálfan mig eða hv. landbn., því jeg skildi ummæli hv. frsm. á þá leið, að þetta mál væri svo þrauthugsað, að því verði ekki gerð betri skil. Jeg ætla samt að drepa á fáein atriði, nefndinni til athugunar, og vilji hún ekki sinna þeim, mun jeg við 3. umr. bera fram brtt. í því efni, svo að hv. deild gefist kostur á að fella sinn dóm um þær.

Það eru þá fyrst ákvæði 4. greinar um lán til að endurreisa íbúðarhús á sveitabýlum. Þar er beinlínis tekið fram, að slík lán eigi að sitja fyrir að reisa nýbýli.

Nú hefir mjer skilist, að hv. landbn. hallaðist að því, að einstaka jörðum yrði skift í 2–3 eða 4 smærri býli. Hvernig á þá að skilja þetta? Nú getur verið góður bær og nýlega gerður á jörðinni, en eftir skiftinguna þarf kannske að reisa tvo nýja bæi.

Eins og 4. gr. er orðuð, ná ákvæði hennar aðeins til þess að endurreisa niðurnídd hús á sveitabýlum, en sje það alvara, eins og þetta frv. var upphaflega skilið, að fjölga býlum í landinu, þá vil jeg, að ekki geti orkað tvímælis, að þetta ákvæði nái einnig til þess að reisa nýbýli.

Þá er annað, sem jeg vildi einnig benda á, og það er það, hvort ekki mundi ástæða til að setja í lögin lágmark þeirrar landsstærðar, sem bygt er á.

Sá bankastjóri Landsbankans, sem aðallega hefir veðdeildarlánin með höndum, hefir sagt mjer, að stundum komi lánbeiðnir til nýbýla, er svo lítið land hafi til umráða, að bersýnilegt sje, að á því sje ekki hægt að lifa, og því ekkert viðlit að verða við slíkum lánbeiðnum. Því vitanlega getur það ekki verið tilgangurinn með nýbýlaræktuninni, að vekja þar upp kotabúskapinn í sinni ömurlegustu mynd. Býlin verða að vera það stór, að þau geti framfleytt fjölskyldu á sómasamlegan hátt.

Annars er það ýmislegt fleira, sem jeg hefði viljað minnast á. En af því að hv. landbn. hefir tekið fálega öllum breytingum, ætla jeg ekki að þreyta hv. deild með frekari athugasemdum.