23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 2. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ljet í ljós við 2. umr. þessa máls þá skoðun mína, að fella ætti niður gengisviðauka á tolli af kaffi og sykri, af því að hann kæmi harðast niður á þeim, sem fátækastir eru. Þá voru ekki komin fram þau tekjuaukafrv., sem nú liggja fyrir og afgreidd munu verða af þessu þingi, þó að þau að vísu lægju í loftinu, svo að jeg geri ráð fyrir, að margir hv. þingmenn hafi fyrir þær sakir verið ófúsir á að sleppa þeim tekjuauka, sem fæst með gengisviðauka af þessum tolli. Nú horfir málið öðruvísi við. Hv. Ed. hefir tekið þá afstöðu til þess, að fallast á brtt., sem borin var fram í deildinni um að fella niður viðauka á kaffi- og sykurtolli frá 1. jan. 1929. Jeg fyrir mitt leyti er ánægður með þessi málalok, og með því nú sígur á seinni hluta þings og ekki vert að tefja mál að óþörfu, vil jeg mæla fast með því, að hv. deild samþykki frv. eins og það kemur frá hv. Ed., með tilliti til þeirra tekjuaukafrv., sem nú eru á ferðinni og liggja munu þungt á landsmönnum, þótt þessi rangláti viðauki verði niður feldur. (MJ: Hverju nemur þessi lækkun á kaffi- og sykurtolli? — (ÓTh: Rúmlega 200 þús. kr.).