23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð til hv. 1. þm. Skagf. Jeg sagði ekki, að lækkanir undanfarandi þinga á sykurtollinum væri sönnun þess, að hann ætti að lækka ennþá meira. En jeg benti á, að þjóðin hefði viðurkent nauðsyn þessarar. vöru með því að reyna að komast hjá háum tolli á henni.

Honum þótti það langt gengið, að þeir, sem ábyrgð bera á stjórninni, komi sjer saman um, hvernig nægjanlegra tekna skuli aflað. Það er stjórnviska, sem sæmir höfundi fjáraukalaganna miklu, að hugsa ekki fyrir samkomulagi um þau tekjuaukafrv., sem nauðsynleg eru, fljóta sofandi að feigðarósi, láta hending ráða, hvað nær fram að ganga og hvað ekki, hvort ríkissjóður fær nægar tekjur eða ekki. Slíkt er óviturra manna ráð Það getur verið, að hv. þm. hafi lifað eftir þessari reglu, meðan hann var ráðherra. En jeg ætla mjer ekki að gera það. Stjórnin mun aldrei láta það vera undir tilviljun komið, hvort nægjanlegar tekjur fást, eða hvernig sjeð er fyrir fjárstjórn landsins. Hún mun ávalt vaka yfir því að tryggja forsvaranlega afgreiðslu fjárlaga. En meðan minni hl. sýnir annað eins ábyrgðarleysi í fjármálum þjóðarinnar og Íhaldsmenn hafa sýnt, þá er tilgangslaust að ræða þau mál við hann. Meðan Framsókn var í minni hl., hegðaði hún sjer öðruvísi. Hún neitaði ekki stj. um nauðsynleg skattalög. Þetta hefir mælst svo illa fyrir hjá þjóðinni, að jeg vona, að þeir sjái að sjer og sýni meiri ábyrgðartilfinning í starfi sínu að málum þjóðarinnar. Hv. þm. spurði, hvað af tekjuaukafrv. ætti að ganga fram. Það getur hann sagt sjer sjálfur, hafi hann nent að lesa þingsjölin. Fjhn. er búin að athuga þau og taka afstöðu til þeirra, svo að hv. þm. er vorkunnarlaust að sjá fyrir, hvað af þeim verður samþykt og hvað ekki. Jeg ber það á hv. þm., að hann hafi ekki sint nægilega þingstörfum, metið of mikið málfærslu sína úti í bæ, ef hann getur ekki svarað sjer sjálfur.

Svo hneykslast þessi hv. þm. á því, að þeir menn, sem ábyrgð bera á stj., koma sjer saman um, hvernig ríkissjóði skuli sjeð fyrir nægjanlegum tekjum!

Annars ferst þessum hv. þm. ekki að tala um það, þó menn breyti atkv. sínum. Má minna hann á tóbakseinkasöluna. Það situr ákaflega illa á honum að draga líkingu milli sín og núverandi fjmrh. Það er slíkt djúp milli aðstöðu þessara tveggja manna, milli þingsögu þeirra, að hann ætti ekki að voga sjer að nefna hæstv. fjmrh. við hliðina á sjer.

Afstaða stj. er sú, að tryggja ríkinu nægilegar tekjur, en hitt telur hún minna um vert, að rígbinda sig við vissar tillögur.