23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Háttv. 1. þm. Skagf. hefir beint til mín nokkrum orðum, sem jeg þarf að svara, en mun þó aðeins gera það lauslega.

Jeg vil geta þess út af ummælum hv. 2. þm. Skagf., sem talaði fyr, að þar sem hann var að tala um, að jeg vildi sverta Íhaldsflokkinn, þá er það alls ekki rjett. Jeg ljet það skýrt koma fram, að með því að hirta Íhaldsflokkinn væri jeg að reyna að vekja þá ábyrgðartilfinningu, sem jeg veit, að blundar innifyrir hjá hv. 2. þm. Skagf. og fleirum. Jeg get sagt það í viðbót, að jeg geri ráð fyrir, að þessi hugmynd, sem fólst í till. um framkvæmdir fyrir tekjuhalla, hafi ekki fæðst í heila hv. 2. þm. Skagf., nje hv. þm. Borgf.; hitt tel jeg sennilegra, að sú merkilega hugmynd sje frá einhverju öðru heilabúi Íhaldsflokksins, eða þessum „heila heilanna“, sem hv. 2. þm. G.-K. ætti að kannast við.

Jeg þori hiklaust að vitna í það, hvernig jeg sem fjvn.maður og frsm. fjárl. og sem einn í minni hl. í fjögur ár sýndi í verkinu ábyrgðartilfinningu um það að afgreiða fjárl. á sómasamlegan hátt.

Hv. 1. þm. Skagf. þarf jeg ekki að svara nema örfáum orðum. Hann sagði, að jeg hefði skipað að slíta fundi. Það hefi jeg aldrei gert; jeg hefi ekkert vald til þess, og mundi það ekki verða tekið til greina, þótt jeg eða einhver annar þm. skipaði slíkt.

Hann sagði ennfremur, að jeg hefði talað um tóbakseinkasöluna sem lífakkeri. Það hefi jeg aldrei gert; en það var hv. 1. þm. Skagf., sem kallaði hana lífakkeri á sínum tíma, og meira að segja vann hann það þrekvirki að fá einn góðan og gegnan kaupmann hjeðan úr nágrenninu til þess að greiða atkv. með frv. við úrslitaatkvgr. hjer í deildinni. Jeg veit, að hv. þm. minnist þess mikla sigurs, þegar hann fjekk kaupmanninn með þessu máli.

Jeg var ekki að brigsla hv. þm. um það, að hann ynni slælega að þingstörfum, en jeg sagði það, að ef hv. þm. spyrði, hvað líklegt væri, að gengi fram af tekjuaukafrv., þá væri það af því, að hann fylgdist ekki með. Öll frv. eru komin fram og nál. eru komin fram, svo að hafi hann fylgst með. veit hann, hvað muni ganga fram, og hefir hann þá spurt út í loftið.

Háttv. þm. sagði líka, að jeg gæti aldrei talað um sig án þess að nefna tóbakseinkasöluna og fjáraukalögin miklu. Það er nú svo. Mjer dettur í hug Jón biskup Ögmundsson; hann gat ekki annað en minst Ísleifs fóstra síns, er hann heyrði góðs manns getið. Þetta er satt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að altaf þegar jeg minnist hans. stendur mjer fyrir hugskotssjónum mynd af fjáraukalögunum miklu og tóbakseinkasölunni. Það fylgir hv. þm. áreiðanlega til grafar, þetta hvorttveggja.