23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Sigurðsson:

Það má ekki minna vera en jeg svari hæstv. atvmrh. fáum orðum, þótt svar hans til mín væri æðiófullkomið og hann bæri ekki við að reyna að svara fyrirspurn þeirri, sem jeg beindi til hans.

Hann taldi það sína helgustu skyldu að reyna að hafa bætandi áhrif á okkur hv. þm. Borgf. Það fer að vísu vel á slíku fyrir fyrverandi prest, en mjer finst þó, að hann ætti fyrst að snúa sjer til sinna nánustu flokksbræðra og fylgifiska í því efni. Jeg lít svo á, að honum beri t. d. enn meiri skylda til að leiðbeina starfsbróður sínum, dómsmrh., í þessu efni, svo hann geti bætt sig. Má vera, að hann hefði þá, ef hann hefði neytt prjedikunarhæfileika sinna, getað fengið því áorkað, að útgjöld samkv. till. stjórnarinnar, utan fjárlaga, hefðu ekki numið nema 2 milj. kr., í stað þess að nú nema þau á 4. milj. kr. Hæstv. atvmrh. hefir áreiðanlega nægilegt verkefni fyrst um sinn meðal sinna eigin flokksmanna.

Hvað því viðvíkur, að við hv. þm. Borgf. og jeg höfum ætlað að koma tekjuhalla á fjárlögin, þá er það ósatt. Því hefir verið lýst yfir, að till. yrði orðuð svo, að stjórninni væri heimilt að fresta framkvæmdum, ef fje væri ekki fyrir hendi. Ekki þurftum við heldur að fara í smiðju til annara með þessa till., og vísa jeg þeim ummælum frá mjer sem ósönnum. Við þurftum ekki að fara í smiðju til að hafa fulla meðvitund um, hvað það er, sem sveitirnar helst þarfnast, þótt hann virðist hafa gleymt því.