29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það hafa verið bornar fram nokkrar fyrirspurnir til mín, og held jeg, að jeg muni flestar þeirra, þó jeg hafi ekki skrifað þær hjá mjer. Jeg ætla þá fyrst að snúa mjer að vini mínum hv. þm. Barð. (HK). Jeg skal taka það fram, að jeg met mikils það traust, sem þessi hv. þm. ber til mín, og viðurkenning hans á minni stefnu að því er snertir Thorcilliisjóðinn. Þá var það skýrsla síra Björns Þorlákssonar, og er mjer sjerstakt ánægjuefni að minnast á hana. Upplestur hv. þm. Barð. tókst mjög vel og hefir væntanlega haft sín áhrif, eins og besti húslestur, enda var þess að vænta, þar sem textinn var eftir prest og prýðilega upplesinn og hátíðlega af stórvini bæði fyrverandi og núverandi stjórna. Það er auðvitað, að þessum manni er greidd dálítil þóknun fyrir sitt starf, enda er það vel metið af goodtemplurum og hófsemdarmönnum, en miður af drykkjumönnum, en hv. þm. talaði ekki af þeirra hálfu hjer, og fer jeg því ekki út í það.

Jeg get bætt því við, að þessu verður haldið áfram, ef ekki verða bráðlega stjórnarskifti, en þegar komið er yfir það versta, verður fyrirhöfnin og kostnaðurinn miklu minni. Áhrifin af þessu eru nú þegar farin að sýna sig, eins og áður hefir verið lýst.

Að því er snertir orðalag skýrslunnar, sem hv. þm. þótti eitthvað óviðfeldið, skal jeg benda á það, að ef til dæmis hv. þm. Barð. gerði skýrslu fyrir stjórnina, sem vel gæti komið fyrir sakir þeirrar miklu vináttu, sem þar er á milli, þá mundi hann auðvitað verða látinn ráða orðalagi þeirrar skýrslu án íhlutunar stjórnarinnar. Um síra Björn er það að segja, að hans fortíð gefur honum rjett til að haga ávörpum sínum þannig til vissra manna, og sama regla ætti auðvitað að gilda um háttv. þm. Barð., sakir þeirrar sjerstöku varfærni og þess rjettlætis, sem lýsir sjer í öllu því, er hann tekur sjer fyrir hendur.