25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

29. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Þótt jeg hafi ekki borið fram neinar brtt. við frv., langar mig þó til að koma hjer fram með nokkrar aths. og bendingar til hv. landbn., og vænti jeg, að hún taki rær til athugunar. En færi svo, að hv. nefnd sæi sjer ekki fært að sinna þeim, mun jeg bera fram brtt. við 3. umr. Nefndin hefir lagt til, að hækkaður verði styrkur til matjurtagarða. Í því sambandi vil jeg benda á, hvort ekki mundi hagkvæmara að breyta tölunum þannig, að annaðhvort stæði á 50 aurum eða heilli krónu. Hjer er um mikla skýrslugerð að ræða og því mikilsvert, að upphæðir standi á þægilegum tölum. Ef styrkurinn til matjurtagarða væri ákveðinn þannig til dæmis, að stofntalan væri 50 aurar, þá yrðu flokkarnir þrír — 50, l00 og 150 aurar. Þetta er nú aðeins hagkvæmis atriði.

Þá er annað atriði, sem jeg vil benda á, og það er það, að með aðalbreytingu nefndarinnar hefir verið gerð gagnger breyting á til1. stj. –Nefndin hefir sem sje lagt til, að sá styrkur, sem hreppabúnaðarfjelögin fengju, sje tekinn af þeim og lagður í verkfærakaupasjóð, sem atvinnumálaráðuneytið varðveiti og stjórni. Menn eiga svo að sækja um styrkinn til þessa sjóðs og fá hann eingöngu til verkfærakaupa.

Eins og flestum mun kunnugt, hefir búnaðarfjelagastyrkurinn staðið um tugi ára og verið hin mesta bjargartaug og einasta tekjulind fjelaganna til sameiginlegrar starfsemi. Jeg tel ekki árstillög fjelagsmanna, sem víðast munu ekki vera hærri en 1–2 kr. og hafa því ekki verulega þýðingu.

Þar sem nú þessi styrkur hefir átt svo mikinn þátt í því að halda búnaðarfjelögunum saman í sveitunum og styrkja starfsemi þeirra, þá verð jeg að segja það, að mjer er talsvert sárt um að missa hann alveg. Og mjer verður á að spyrja, — hvað hafa fjelögin í raun og veru brotið, svo að ástæða sje til að skipa þeim yfirfjárráðamenn? Þessi styrkur hefir altaf verið notaður til verkfærakaupa og til stuðnings meiri háttar framkvæmdum öðrum. Hann hefir komið að mjög fjölbreyttum notum. Til dæmis hefir hluta af honum verið varið til að verðlauna góða skepnuhirðingu og til verðlauna á smásýningum í sveitum, og slíkt hefir sín áhrif. Hefir slík viðleitni fjelaganna, þótt í smáum stíl hafi verið, gengið í rjetta átt og örvað menn til framfara á hinum ýmsu sviðum.

Það, hve lítið hefir verið gert víða, er auðvitað mest vegna þess, hve lítið fje hefir verið fyrir hendi, og svo er hins að gæta, að engin fyrirmæli hafa verið sett um það, hvernig styrknum skyldi varið. Það hefir verið reynt að koma ákvæðum um það inn í fjárlögin, en hefir ekki tekist. En jafnvel þótt fjelögin hafi ekki haft neitt aðhald um þetta, hefir styrknum yfirleitt verið varið mest til verkfærakaupa og annara nauðsynja sveitanna, — og hversu miklu fremur mundi þess þá ekki vera gætt, ef fyrirmæli hefðu fylgt um það. Jeg vil ennfremur benda á, að til eru fjelög, sem eru svo birg af nauðsynlegum verkfærum, að þeim er annað enn meira áríðandi, — og til hvers er þá fyrir þau, að safnað sje í þennan sjóð, sem ekki á að veita styrk til neins annars, en ýms önnur verkefni bíða óleyst? Jeg sje mjer af þessum ástæðum ekki fært að fallast á þessa till. nefndarinnar, að búnaðarfjelög hreppanna sjeu algerlega svift umráðum yfir þessum styrk. Nefndin leggur til, að auk 10 aura tillags ríkissjóðs á hvert dagsverk greiði hann árlega 20000 kr. í sjóðinn, sem skiftist milli fjelaganna. Þessar 20000 kr. á ári gætu orðið góður styrkur fyrir þau sveitarfjelög, sem skemst eru á veg kominn, ef honum væri þannig varið, og því verður ekki neitað, að hinu opinbera ber mest skylda til að hjálpa þeim, sem þannig er ástatt fyrir. Vitanlega á helst að beina fje ríkissjóðs þangað, sem þörfin er brýnust og mest aðkallandi.

Vil jeg skjóta þessu til hv. landbn., að hún athugi til 3. umr., hvort hún sjái sjer ekki fært að láta búnaðarfjelögin óáreitt, en nota verkfærasjóðinn fyrst og fremst til styrktar þeim sveitum og hjeruðum, sem skemst eru komin í jarðrækt og hafa því mesta þörf á slíkum stuðningi.