05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

29. mál, jarðræktarlög

Halldór Stefánsson:

Við 2. umr. komu að mestu fram eða öllu ástæðurnar fyrir brtt. minni á þskj. 324, og þarf jeg ekki að eyða mörgum orðum að því að skýra hana. Jeg hafði haldið því fram þar, að það væri ekki ástæða til að greiða landsetum hins opinbera svo miklum mun hærri styrk fyrir jarðabætur heldur en öðrum landsetum. Það er nú að vísu hugsað svo í frv. og tillögum nefndarinnar að lækka það allmikið frá því, sem verið hefir, en tillögur mínar fara þó fram á að lækka það enn meira.

Það kom fram við 2. umr., að ýmsum þótti rjett, að ríkið væri betri landsdrottinn og gengi á undan öðrum, og jeg vil alls ekki neita því, að það sje nokkuð fyrir þessari hugsun, en hún er heldur alls ekki rofin, þótt gengið væri að tillögu minni, þar sem jeg ætla landsetum ríkissjóðs 1/3 hærri styrk heldur en öðrum. Hv. landbn. hefir ekki getað aðhylst hana, og hv. 1. þm. Árn, talaði svo, sem jeg vildi engan mun gera, en þriðjungs munur er ekki svo lítið. Auk þess talaði hv. þm. svo, sem allir aðrir ábúendur jarða heldur en landsetar hins opinbera sjeu sjálfseignarbændur. En það er ekki rjett. Fleiri eru leiguliðar en ábúendur á opinberum eignum. Ef gera ætti mun á þeim grundvelli, get jeg viðurkent, að það gæti verið ástæða til, að sjálfseignarbændur fengju minni styrk en leiguliðar; en sá munur hefir hvorki verið hugsaður nje tilraun gerð til að gera hann. Brtt. mín hnígur þannig dálítið til sparnaðar á þeim framlögum, sem verða við þessar framkvæmdir, og þar sem mjer finst alveg sómasamlega boðið frá landsins hálfu að bjóða landsetum sínum þriðjungi hærri styrk en aðrir fá, þá tel jeg rjettmætt, að brtt. mín verði samþykt.

Þess má ennfremur geta, að eftir till. minni verður greiðslan tiltölulega rjettlátari en eftir till. nefndarinnar. Í till. nefndarinnar er heimilað, að greiðsla á hvert metið dagsverk skuli vera alt að kr. 3.50, jafnt fyrir allar tegundir jarðræktarframkvæmda. Nú eru greidd mishá verðlaun fyrir mismunandi tegundir framkvæmda, hæst fyrir áburðarhús, þá fyrir túnrækt og lægst fyrir garðrækt. Ef miðað er við till. nefndarinnar, yrði styrkurinn fyrir áburðarhús rúmlega tvöfaldur, fyrir túnrækt meir en þrefaldur og fyrir garðrækt rúmlega ferfaldur. Ef mínar till. verða samþyktar, þá verður hækkunin hlutfallsleg.

Enn má geta þess, að ef till. mín verður samþ., þá verða öll viðskifti við leiguliða hins opinbera um þetta atriði miklu einfaldari og óbrotnari, þá gætu allir fyrirframsamningar um jarðabæturnar fallið niður á milli landseta og umráðamanna jarðanna, sem geta verið allfyrirhafnarsamir og umfangsmiklir, og í öðru lagi fellur það ákvæði niður og sú fyrirhöfn, sem því fylgir að meta þessar jarðabætur á móti landskuldunum. Vitanlega geta menn unnið þær af sjer eftir sem áður, með því að vinna nógu mikið, á þann einfalda hátt að nota styrkinn til landskuldargreiðslu eða upp í landskuldargreiðslu — það sem hann hrekkur — eftir því sem áskilið er í byggingarbrjefi.

Sá hluti tillögunnar, sem merktur er með rómversku tölunni II, stendur og fellur með hinum hluta tillögunnar, og þarf því ekki að ræða hann. Þar með falla niður þær reglur, sem verið hafa um fyrirframsamninga um jarðabætur, og sömuleiðis það, að meta jarðabætur upp í landskuld.