05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

29. mál, jarðræktarlög

Pjetur Ottesen:

Jeg er ekki viss um, að allir hv. þdm. hafi gert sjer það ljóst, hver munur er á að byggja upp verkfærasjóð samkv. till okkar þremenninganna eða samkv. frv. því, er hjer liggur fyrir. samkv. frv. á að veita styrk úr ríkissjóði til hreppabúnaðarfjelaga, er nemi 10 aurum fyrir hvert unnið dagsverk styrk þessum er úthlutað þannig, að hann skiftist hlutfallslega á milli búnaðarfjelaganna, eftir fjölda jarðabótamanna í hverju fjelagi. Styrk þennan á að leggja í sjóð, er nefnist verkfærasjóður. Auk þess á að greiða 20 þús. kr. úr ríkissjóði, er skift er niður á hreppabúnaðarfjelögin á sama hátt og hinum. Með þessu er kipt burt þeim styrk, sem um tugi ára hefir verið veittur til hreppabúnaðarfjelaganna.

Okkar till. eru aftur á móti þær, að árlegt tillag úr ríkissjóði verði 10 aurar á hvert jarðabótadagsverk og, að tekinn verði til þessarar verkfærasjóðsstofnunar 10. hluti af styrk þeim, sem veittur er samkv. II. kafla jarðræktarlaganna, en að hreppabúnaðarfjel. njóti styrks á sama hátt og hingað til. Þetta er þá aðalmunurinn á 11. gr. eins og hún er í frv. og eins og við viljum að hún verði.

Jeg tel það mjög óheppilegt og langt frá því að vera til bóta, ef nú á að kippa burt frá búnaðarfjel. þeim styrk, sem þau hafa hingað til notið, því til þess fjelagsskapar má fyrst og fremst rekja orsök þeirra stórfeldu framkvæmda, sem átt hafa sjer stað í búnaðinum nú síðari árin. Og þó að þessi styrkur væri ekki svo hár, að hann hefði í raun og veru fjárhagslega þýðingu fyrir þá, sem urðu hans aðnjótandi, þá hefir hann orðið þess valdandi, að í flestum hreppum hafa risið upp búnaðarfjelög og innan þeirra hafa menn bundist samtökum, og á þann hátt hefir styrkurinn orðið hvöt til manna að vinna að jarðyrkju, og hefir á þann hátt haft mjög víðtæk áhrif. Sem sagt þá tel jeg mjög varhugavert að svifta burt þessum styrk og taka úr höndum bænda yfirráðin yfir þessu fje, en það er það, sem farið er fram á í frv. Í ýmsum búnaðarfjelögum hefir það t. d. talsvert tíðkast, að búnaðarfjel. hafa komið upp vinnuflokkum, sem hafa svo unnið til skiftis hjá meðlimum fjelaganna. Þetta hefir átt mikinn þátt í því að hrinda áfram ýmsum búnaðarframkvæmdum, en það að svifta hreppabúnaðarfjelögin styrknum, eins og lagt er til, getur óneitanlega orðið til að draga úr þessari bráðnauðsynlegu starfsemi. Það er fleira, sem kemur að liði í þessu efni en þó stofnaður verði verkfærasjóður; hann er góður út af fyrir sig, því á hvaða grundvelli sem hann verður reistur, verður langt að bíða þess, að bændur geti haft veruleg not af honum.

Hv. 1. þm. Árn. talaði mikið um ýmsa annmarka, er væru á þessum till. okkar, svo sem það, að það mundi draga um of úr framkvæmdum, ef þessi 10. hluti væri tekinn í verkfæra sjóðinn. (JörB: Það hefi jeg aldrei sagt). Það hefir þá verið kominn svo mikill reisingur og æsing í hv. þm., að hann hefir tapað jafnvæginu og ekki vitað, hvað hann sagði; en þetta sagði hann. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje á neinum rökum bygt hjá hv. þm., því samkv. okkar till. eiga hreppabúnaðarfjelögin að halda sínum styrk, sem þau nú hafa og hafa notið um langt skeið. Þetta fje er notað til sameiginlegrar búnaðarstarfsemi innan hreppanna, og það vegur áreiðanlega meira til raunverulegra búnaðarframfara en það, þó 10. hluti af styrknum samkv. jarðræktarlögum sje látinn renna í verkfærasjóð. Að því er úthlutun styrksins úr verkfærasjóðnum snertir, þá verður það svo í framkvæmdinni, af því að honum er úthlutað hlutfallslega eftir tölu jarðabótamanna í hverju fjelagi, að þau fjelög, sem fæsta meðlimi hafa, en þau eru oftast í útkjálkasveitum, og þess vegna verst aðstaða hjá þeim, fá tiltölulega minstan styrk, og virðist þó síst ástæða til þess, að þau verði ver úti en búnaðarfjelög í kaupstöðum, sem að öllu leyti hafa betri aðstöðu.

Hv. þm. talaði ennfremur um það í sambandi við úthlutun verkfæranna, að búnaðarfjel. sjálf gætu skift þeim haganlegar niður heldur en Búnaðarfjelag Íslands. En þetta er misskilningur. Búnaðarfjelag Íslands á hvort sem er að gefa út reglugerð um þetta, og getur því ætíð, ef það vill, haft hönd í bagga með úthlutuninni. Auk þess hefir það sína trúnaðarmenn í hverjum hreppi, og ætti því að geta fengið fullnægjandi upplýsingar fyrir milligöngu þeirra. Jeg held því, að grundvöllurinn undir þessu sje síst lakari í brtt. en í frv.

Það virtist svo sem brtt. kæmu hv. þm. eitthvað ókunnuglega fyrir sjónir og að hann kannaðist varla við þær. (JörB: Jeg var ekki búinn að lesa þær). Það þykir mjer harla merkilegt, því að brtt. var þó afhent nefndinni fyrir mörgum dögum. Að minsta kosti hefir hún kynt sjer brtt. okkar það mikið, að hún hefir getað hnuplað úr henni einu atriði (um 300 kr. framlagið). Þetta ber þó vott um, að nefndin hefir lesið brtt., þó henni hafi ekki auðnast að meta gildi hennar svo sem verðugt var. Það er yfirleitt hið mesta ósamræmi í öllu tali hv. þm., og virðist sem hann hafi alls ekki athugað þetta, en alt snúist um það eitt að hamast á móti þessum till. Í 5. gr. frv. er prentvilla, 30 aurar í staðinn fyrir 80 aura, en jeg taldi rjettast að gera ekki mun á styrk fyrir þær umbætur og á styrknum fyrir venjulegar jarðabætur, að það væri sett 1 kr. á dagsverk. En það sýnir best, hvað þetta alt hefir þurft langan meðgöngutíma, að það er fyrst nú, sem þessi skriflega brtt. fæðist. Alt snýst um það að hamast á móti þessari brtt. okkar, sem er þó augsýnilega til stórmikilla bóta. Og það væri sannarlegt hnefahögg framan í bændur þessa lands, eins og hæstv. forsrh. komst einu sinni að orði í öðru sambandi, ef þeim væri ekki trúað fyrir að ráðstafa þessum litla styrk, sem hreppabúnaðarfjelögin njóta og hafa notið um langt skeið. Því það væri það versta vantraust, sem hægt væri að sýna þeim, og óverðskuldað með öllu. Og argvítugast er, að þetta skuli koma frá sjálfri landbúnaðarnefnd, og er það algerlega ófyrirgefanlegt. Sök sjer, hefði það komið frá einhverjum öðrum, sem minna þekti til. Hv. þm. Mýr. hefir þegar farið nánar í ýms atriði þessa máls, svo jeg þarf ekki að fara frekar út í það.

Jeg skal að endingu geta þess, að allur tónninn í ræðu hv. 1. þm. Árn. var sá, að hann virtist líta svo á sjálfan sig, að alt það í þessu máli, sem ekki rúmaðist í heila hans og honum þætti ekki gott og blessað, væri vitleysa. Jeg veit ekki, hvort sú mikla upphefð, sem honum hefir hlotnast með því að vera kosinn í milliþinganefndina í landbúnaðarmálum, hefir stigið honum svo mjög til höfuðs, að honum þykir ekkert vit vera í neinu nema því, er frá honum sjálfum er runnið.