02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

47. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Mjer heyrðist á hv. 1. þm. Skagf., að frv. þetta um flutning kjördagsins væri fram borið af einskærri umhyggju fyrir bændum. Jeg verð að segja, að mjer finst sú umhyggja harla einkennileg, því að víðast hvar munu bændur telja 1. vetrardag heppilegri en 1. júlí. Sú var og skoðun löggjafans, þegar lög þessi voru sett, og ætti að vera það enn. Veldur því margt. — Það er þá fyrst, að ef kosið er 1. júlí, er þingi nýlokið og þingtíðindi ekki komin út. — Sumum hv. þm. kann að koma slíkt vel, en kjósendunum kemur áreiðanlega miklu betur að geta lesið þingtíðindin og á þann hátt kynst störfum fulltrúa sinna, áður gengið er til kosninga. Jeg vil þó ekki væna hv. flm. um það, að þessi sje ástæðan fyrir flutningi frv. Í öðru lagi er 1. júlí mikill annatími. Að vísu er svo kallað, að þá sje á milli voranna og sláttar, en engu að síður er það ákaflega margt, sem þá kallar að, og gefa menn sjer því eigi tíma til að sinna stjórnmálum á þeim tíma árs. Þegar sumarstörfum er lokið, er öðru máli að gegna. Þá gefa menn sjer frekar tíma til þess að íhuga þessi mál.

Jeg geng þess ekki dulinn, að illviðri kunna að geta hamlað sókn á kjörfund á haustin að einhverju leyti í stöku hjeruðum dag og dag, þar sem langt er á kjörstað, en auðvelt er að ráða bót á þessu með því að skifta hreppum í fleiri kjördeildir en gert er. Með því væri sveitamönnum gert auðveldara að neyta kosningarrjettar síns.

Hv. 1. þm. Skagf. hjelt því fram, að síðustu kosningar til Alþingis hefðu eigi verið miður sóttar en þótt þær hefðu verið að hausti til. Þetta má vera rjett í þessu tilfelli, en það, hvernig kosningar eru sóttar, er auðvitað komið undir því, hver þau mál eru, sem á mestu veltur við hverjar kosningar; þá var kosið um stórmál. (MT: Og svo því, hve mikið sú stj., er þá situr, hefir gert fyrir sjer). Þetta er alveg laukrjett hjá hv. þm. Víst má telja, að hinn almenni áhugi manna við síðustu kosningar hafi verið af þeirri ástæðu; alþjóð var ríkt í huga að losna við íhaldsstj.

Mestum erfiðleikum veldur flutningur kjördagsins þeim, sem í kaupstöðum búa og fara í atvinnuleit um land alt yfir sumartímann og dvelja fjarri heimilum sínum. Get jeg ekki neitað því, að jeg gruna hv. flm. um græsku, það, að þeim sje ósárt um, þótt minna kveði að því, að þeir, sem við sjávarsíðuna búa, neyti kosningarrjettar síns, en hinir, er byggja sveitir landsins.

Hv. 1. þm. Skagf. hjelt, að það væri lítið að marka, þótt mótmæli kæmu gegn þessu frv., það væri nú einu sinni háttur okkar Alþýðuflokksmanna að smala slíkum mótmælum, ef okkur byði svo við að horfa. Jeg veit ekki, hvað sýnir betur vilja almennings en slíkar samþyktir frá fjölmennustu stjett landsins. Og jeg álít, að þm. ættu að leggja mest upp úr því, að starf þeirra sje jafnan í sem mestu samræmi við óskir og rjettarvitund almennings. (SE: Hvernig er það með stjórnarskrána?). Jeg játa, að í stjskr. felast ákvæði, sem brjóta í bága við rjettarmeðvitund landsmanna, og er sjálfsagt að nema þau ákvæði burt hið fyrsta. (MG: Og brjóta þau á meðan þau standa þar). Mörg hin skárri ákvæði stjórnarskrárinnar hafa þrásinnis verið þverbrotin. Mætti hv. þm. (MG) vera þess minnugur.

Það hefir rjettilega verið fram tekið, að mál það, sem hjer liggur fyrir, er ekkert nýmæli á Alþingi. Hv. þm. ættu því að vera búnir að átta sig á því, og vona jeg, að þeir sjeu sammála um það að vísa því frá nú þegar, svo að það verði eigi til að tefja deildina frá nauðsynlegri störfum.