02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

47. mál, kosningar til Alþingis

Einar Jónsson:

Jeg skal eigi lengja umr. að mun, enda er mál þetta kunnugt öllum þm. Það hefir legið áður fyrir þinginu, og hefir þá jafnan komið í ljós, að erfitt er að velja svo einn kjördag, að allir verði sammála um það, að hann sje heppilega valinn. Enda efast jeg ekki um, að ekki muni hægt að gera öllum landsmönnum til hæfis í því efni, hvor þessara daga sem valinn verður. Hinsvegar má ekki gleyma því, að menn þeir, sem frv. þetta flytja, eru kunnugir um land alt og munu hafa ólíkt meira vit á þessu máli en þeir, sem andmælum hafa hreyft hjer í þessari hv. deild og hafa alið allan aldur sinn í kaupstað, en aldrei í sveitum. (HG: Jeg er gamall sveitamaður). Aðalástæða þessara manna, sem leggjast gegn frv., er sú, að þeir álíta sjálfa sig hafa óhag af því, að kjördagurinn verði fluttur. En ef hv. deild ætlar að gefa slíkum mönnum byr í seglin, þar sem þeir telja, að 1. vetrardagur sje hentugri þeirra fylgismönnum, þá tel jeg það mjög illa farið. Ráð slíkra manna ætti ekki að auka, því að þeir ættu helst að ráða hvergi. Og jeg leyfi mjer að segja, að flm. frv. hafi einnig ólíkt meira vit á þessu máli en andmælendur þess. Jeg get játað það, að í mínu kjördæmi mun mönnum standa nokkuð á sama um það, hvor dagurinn yrði valinn. En jeg veit, hvernig vetrarhörkurnar eru, og veit, hve mjög þær geta hamlað, að hægt væri að sækja kjörfund 1. vetrardag. Tel jeg því 1. júlí miklu heppilegri.