02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

47. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Eggerz:

Jeg vildi aðeins gera örstutta aths. í þessu máli, og hún er sú, að hægt er að sýna fram á, að vegna veðurs hafa úrslit í sumum sveitakjördæmum orðið önnur en annars. Við næstsíðustu kosningar í mínu kjördæmi varð veður þess valdandi, að kosningin var ver sótt. Jeg segi ekki, að það hafi ráðið úrslitum, en veðrið dró úr aðsókninni sumstaðar. Þá varð veður þess valdandi, að margir kjósendur gátu ekki sótt kjörstað.

Þetta langaði mig aðeins til að taka fram og jafnframt undirstrika, að það liggur nokkurnveginn í hlutarins eðli, að í landi eins og okkar er ekki hægt að komast framhjá því, að veður geti verið svo vont fyrsta vetrardag, að það taki völdin af kjósendum og niðurstaða verði önnur en rjett var. Mjer finst sjálfsagt að benda á þetta, og jeg held, við nánari yfirvegun, að sveitakjördæmunum sje gert rangt til, ef sá dagur er valinn, sem getur vegna veðurs valdið óeðlilegri niðurstöðu í kjördæminu.