06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Guðmundsson:

Hv. 1. þm. Reykv. tók nokkuð af því fram, sem jeg ætlaði að segja, svo að jeg get verið stuttorður. Hvað því viðvíkur, að hjer liggi flokkssamþykt að baki hjá okkur íhaldsmönnum, eins og hv. þm. V.-Húnv. heldur fram, þá er það afar ósennilegt, að við förum nú að mæla á móti því, sem við höfum samþ. á flokksfundi, enda eru þetta getsakir einar og gersamlega rangt.

Að nokkur hætta sje á því, að málið muni daga uppi, ef það fer aftur á milli deilda, hefir ekki við nein rök að styðjast. Hjer eru á dagskránni stjfrv. til 2. umr., sem eiga alveg eftir að ganga gegnum hv. Ed., og er þeim þá miklu hættara.

Það ákvæði frv., að lán út á smábýli við kaupstaði megi nema 3/4 af virðingarverði þeirra, skilst mjer vera komið af því, að flokksbræður mínir tóku þessa till. upp eftir öðrum og höfðu hvorki tíma nje tækifæri til þess að leiðrjetta þetta. Nú eru ákvæði frv. mjög órjettlát og í ósamræmi hvert við annað, þar sem heimilað er að lána 60% út á jarðir uppi í sveit, 75-80% út á smábýli við kaupstaði, og 85 % út á hús í kaupstöðum. Þetta er stefna, sem jeg er algerlega mótfallinn. Hún miðar að því að gera sveitunum lægst undir höfði, en að rjettu lagi á að gera þeim hæst undir höfði.