01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

47. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Jeg hefi haldið því fram hjer við fyrri umr. þessa máls, að það, sem haft er að yfirvarpi, sem sje að gera sveitabændum auðveldara með að neyta kosningarrjettar síns, sje ekki aðaltilgangurinn, heldur hitt, að gera kaupstaða- og kauptúnabúum óhægra fyrir, og rýra þannig rjett þeirra. Jeg hefi ennfremur margsinnis bent á aðrar leiðir betri en þessa til þess að gera sveitamönnum auðveldara að sækja kjörfund, t. d. að fjölga kjördeildum og að hafa kjördaga fleiri en einn í einu. Ennfremur hefir verið bent á það af öðrum, að þetta mál er hægt að leysa með því að hafa ekki sama kjördag fyrir alt landið, en hafa t. d. einn kjördag fyrir alla kaupstaðabúa og kauptúna, en svo annan fyrir sveitafólkið. Það orkar ekki tvímælis, að með því að flytja kjördaginn fram á háannatímann, er verið að gera sjómönnum og miklum hluta verkalýðsins um alt land miklu óhægra og jafnvel ófært að kjósa. Ef nú á að fara að bæta úr fyrir sveitunum með þessu frv., þá er það gert með því að þyngja hlut hinna, sem við sjóinn búa. En slíkt er bæði ranglátt og alóþarft. Þessu væri hægt að komast hjá með því að fara eftir uppástungum mínum, eða þá með því að hafa sjerstakan kjördag fyrir sveitirnar, eins og einhver annar hefir lagt til. Sá kjördagur, sem nú er, er sá langhagfeldasti fyrir kaupstaðabúa, en sje svo, að fulltrúar sveitanna telji það nauðsynlegt að flytja kjördaginn vegna bændanna, þá stendur það þeim opið án þess að gera verri hlut hinna um leið.

Jeg hafði hugsað mjer nú við 3. umr. að reyna að ná samkomulagi um eitthvað svipað þessu, áður en málið yrði afgr. frá þessari hv. deild, en mjer hefir ekki gefist tóm til að ganga svo frá brtt. mínum sem jeg hefði kosið, og veit ekki heldur, hvort afbrigði yrðu leyfð. Mjer þótti það ilt, að hæstv. forseti skyldi ekki sýna mjer þá sjálfsögðu tilhliðrunarsemi að fresta málinu um 1–2 daga, og það staðfestir enn meir grun minn um það, að málið sje flutt af forsvarsmönnum þess meira af kappi en forsjá, til þess að bæta aðstöðu sveitanna á þann hátt að skerða rjett kaupstaðabúa, og þá sjerstaklega verkalýðsins.

Það er kunnugt, að einmitt í júní og júlí flykkist fólkið hjeðan úr Reykjavík og sjávarþorpunum í grendinni unnvörpum á burtu út um alt land. Það flytst þá norður í síldarstöðvarnar, í vegavinnu eða kaupavinnu, og sumt er þá alveg bundið við sín störf heima, eða á að fara burtu með svo stuttum fyrirvara, að það má ekki vera að því að kjósa hjá sýslumönnum eða hreppstjórum. Það er alveg áreiðanlegt og víst, að þess má finna mýmörg dæmi, að þetta frv. verður bein svifting kosningarrjettar fyrir þá, sem við sjóinn búa.

Það eru miklu fleiri en jeg, sem hafa bent á það, að þó þess sjeu einstök dæmi, að veður hamli á þeim kjördegi, sem nú er, þá er reynslan yfirleitt sú, að kosningar eru aldrei betur sóttar yfirleitt um alt land heldur en einmitt að haustinu, og það var líka vitað, þegar sá dagur var upphaflega ákveðinn.

Það er nú orðið nokkuð síðan 2. umr. fór hjer fram um þetta mál, en jeg held, að það hafi verið hv. þm. Mýr., sem ljet þá þau orð falla um þetta, að á þeim tímum, þegar þessi kjördagur var lögfestur, hefðu bændur ekki haft við neina að keppa, svo að það hefði ekkert gert til, þó að kjördagur væri óheppilega valinn. Jeg er þessu ekki sammála, því að þá var ekki síður um keppni að ræða heldur en nú. En þetta sýnir ljóslega, hvar fiskur liggur undir steini: að það er tilgangurinn að draga úr þátttöku verkalýðsins við sjóinn í kosningum og gera bændum með því auðveldari „keppnina“. Jeg minnist þess, að við 2. umr. gat einhver hv. þm. þess, að nú gætu úrslit kosninga og skipun æðstu stj. landsins verið undir veðri komin. Ef þetta er rjett nú, þá var það ekki síður rjett þegar bændurnir ákváðu þennan kjördag sjálfir, því að þá voru heimastjórnarbændur og sjálfstæðisbændur, sem deildu alveg eins og íhaldsbændur og framsóknarbændur deila nú, og það gat verið slembilukka þá eins og nú, hvort veðrið var vont hjá heimastjórnar- eða sjálfstæðisbændunum.

Jeg verð að álíta, að það sje mjög misráðið, ef hv. deild ætlar að hrapa svo að þessu máli, að henni þykir ekki taka því að gefa mönnum tíma til að leggja fram nýjar till., þar sem bættur er hlutur bændanna án þess að gera hlut hinna stjetta þjóðfjelagsins verri. Svo skal böl bæta, að bíða ei annað verra.