16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Þessi breyt. á kosningalögunum, sem hjer er á ferðinni, er alls ekki nýr gestur. Á undanfarandi þingum hefir því verið hreyft, að kjördagur sá, sem nú er, sje að ýmsu leyti óheppilegur fyrir sveitirnar, sjerstaklega af því, að á þeim tíma ársins er allra veðra von. Því hefir verið hreyft víða um landið, að æskilegt væri, að kjördagurinn yrði færður til þess tíma, þegar minni hætta er á farartálma frá náttúrunnar hálfu, og það verður víst ekki um það deilt, að um veturnætur er kominn sá tími, þegar búast má við, að tíðin fari að verða erfiðari til kjörfundasóknar heldur en á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir hjer í frv. Þetta er sjerstaklega tilfinnanlegt í sveitunum síðan ákvæðin um heimakosningar voru afnumin, því að með því að afnema þær var öllu því fólki, sem ekki hefir fulla heilsu, meinað að neyta kosningarrjettar nema í blíðu veðri. Hinsvegar ber því ekki að neita, að þetta hefir mætt mikilli andstöðu í kaupstöðunum, og er auðvitað sjálfsagt að líta á þau rök, sem þar eru borin fram til andmæla. Þau eru þá aðallega það, að á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir í frv., að kosningar fari fram, þá sjeu margir af kaupstaðabúum farnir burt frá heimilum sínum til atvinnuleitar, og er ekki hægt að neita, að það sje rjett. Töluverður hluti íbúanna er þá venjulega farinn að heiman; en þá ber þess að gæta, að kosningalögin gera þessum mönnum mjög hægt um að kjósa, þó að þeir sjeu utan heimilis. Það er heimilað, að slíkir menn greiði atkv. hvar sem þeir eru staddir, hjá bæjarfógeta. sýslumanni, hreppstjóra eða um borð í skipi. Þar hafa lögin tekið fult tillit til kringumstæðnanna; en aftur á móti eru nú afnumin ákvæðin um heimakosningar, og er þá ekki slíku til að dreifa fyrir það fólk í sveitum, sem ekki er hraust og verður að sækja kjörfund jafnlangan veg eða lengri en þessir kaupstaðabúar verða að fara til hreppstjórans. Jeg skal þó játa, að þessi breyt. muni auka erfiði fyrir eitthvað af kaupstaðabúum, en hinsvegar tel jeg það misrjetti, sem þeir þannigverða fyrir, áreiðanlega vera miklu minna en það, sem sveitirnar eiga nú alment við að búa. Ef þetta fólk er í atvinnuleit, þá mun í fáum tilfellum vera lengra fyrir það að fara til hreppstjórans heldur en sveitafólkið verður að fara á kjörfundinn, og ef það er í kaupstað, sem er það algengasta, þá á það jafnvel miklu hægra með að neyta kosningarrjettar síns en sveitafólkið, því að þá getur það notað hvaða dag sem er. Það er að vísu rjett, að þetta hefir í för með sjer einn ókost fyrir kaupstaðina, og hann er sá, að þá verður erfiðara að smala mönnum á kjörstað; en jeg get ekki sjeð, að með því skapist neitt misrjetti, því að sömu erfiðleikarnir eru á þessu fyrir sveitirnar. Jeg get heldur ekki sjeð, að með þessu sje framið neitt ranglæti gagnvart kjósendunum, því að ef þeir hafa á annað borð áhuga á að kjósa, þá standa þeir ekki ver að vígi heldur en margir aðrir, þótt þeir sjeu utan heimilis.

Þá skal jeg víkja nokkru nánar að því, hversu knýjandi ástæður valda því, að nú verður að færa kjördaginn. Jeg hefi drepið á það áður, að það verður ekki um það deilt, að fyrsta vetrardag getur verið allra veðra von, en það skiftir þó mestu máli, að á þeim tíma árs er dagur orðinn mjög stuttur. Þó að hægt sje að segja, að illviðri geti verið 1. júlí, þá eru það aldrei hörkufrost eða stórhríðar. Það getur verið rigning, en tæplega snjóveður, og jeg man eftir því, að stórrigning hefir stundum verið 1. júlí, en þó mun það vera fremur sjaldgæft. En þá ber þess að gæta, að þá er dagur langur, bjart næstum nótt sem dag, og er þá ólíkt hægra að komast leiðar sinnar og hægt að nota seinni part dags til þess að sækja kjörfund. Það verður ekki um það deilt, að erfiðleikarnir á að hafa fyrsta vetrardag sem kjördag gera vart við sig um alt land, en þó sjerstaklega á Norðurlandi og Norð-Austurlandi, en sennilega minna á Vestur- og Suðurlandi. Jeg held að jeg þurfi ekki að eyða mörgum orðum að því að sýna fram á, að illviðrahættan getur verið alstaðar. Til merkis um, að svo sje, get jeg bent á það, að fulltrúar úr öllum landshlutum standa að þessari færslu kjördagsins. Jeg er sjálfur víða kunnugur og veit því, að fyrsta vetrardag getur verið allra veðra von; en þó að jeg sje fremur ókunnugur á Vesturlandi, þá tel jeg víst, að megi leiða rök að því, að þar hafi einnig stundum verið stórhríð fyrsta vetrardag. Að vísu eru til undantekningar, en yfirleitt má telja það víst, að færsla kjördagsins verði til hins mesta hagræðis fyrir sveitirnar. Það verða aðeins kaupstaðirnir, sem ekki hafa hag af því, og sumir ef til vill dálítið aukna erfiðleika. Mjer virðist öll rök hníga að því, að þó jeg verði að kannast við, að eitthvað verði lakari aðstaða kjósendanna í kaupstöðum, þá verður því ekki á móti mælt, að miklu fleiri kjósendur fá þá betri aðstöðu. Ef hjer er um misrjetti að ræða með þessu frv., þá hefir þó verið ennþá meira misrjetti áður, og ef misrjetti verður að eiga sjer stað í framtíðinni, þá er sjálfsagt að taka þann kostinn, sem minst misrjetti hefir í för með sjer. Þess vegna varð niðurstaðan hjá okkur í meiri hl. allshn. að leggja til, að frv. yrði samþ. Jeg geri nú ráð fyrir. að minni hl. færi rök fyrir sínu máli, því að hann er á móti frv. og leggur til, að það verði felt, og læt jeg það þá ráðast, hvort jeg hefi frekari ástæðu til andmæla eða ekki.

Minni hl. ber hjer fram brtt. á þskj. 635, sem jeg geri ráð fyrir, að eigi að vera miðlunartill.; en frá mínu sjónarmiði miðla þær litlu og er vansjeð, hvort þær nái þeim tilgangi að koma í veg fyrir það misrjetti, sem minni hl. telur kaupstaðina verða fyrir. Þó að till. minni hl. verði samþ., þá koma þær að litlu gagni, því að það er áreiðanlegt, að þeir menn, sem eru farnir að heiman 1. júlí, verða fæstir komnir heim aftur 9.–10. sept. Auk þess eru mikil vankvæði á að framfylgja þessum brtt., því að þar er svo ákveðið, að kjördagarnir skuli vera tveir, og þó jeg vilji ekki segja, að það sje óframkvæmanlegt, þá er það áreiðanlega miklum erfiðleikum bundið. Ef þessi aðferð verður einhverntíma tekin upp, þá verður áreiðanlega að gera fleiri og miklu víðtækari ráðstafanir heldur en brtt. minni hl. gerir ráð fyrir, ef það ætti að verða trygt, að þetta kæmi ekki að sök. Jeg skal taka það fram, að meiri hl. hefir ekki sjerstaklega borið sig saman um þessa brtt., en jeg fyrir mitt leyti sje mjer ekki fært að mæla með henni, þar sem jeg tel, að hún nái ekki þeim tilgangi, sem henni er ætlað að ná, að kosningar fari ekki fram í kaupstöðunum fyr en fólk er komið heim úr sumaratvinnunni. Í öðru lagi virðist mjer vera svo miklir erfiðleikar á að framkvæma kosningar í tvennu lagi, að það sje tæplega gerlegt, þó að jeg vilji ekki segja, að það sje með öllu ókleift. En ef það skyldi vera fært, þá verður áreiðanlega að gera miklu víðtækari ráðstafanir heldur en gert er í brtt.

Um aðra brtt. minni hl. er það að segja, að hún virðist ekki vera nema sanngjörn, þó að hennar sje ekki brýn þörf, þar sem svo er ákveðið í lögum, að húsbændur megi ekki hindra hjú í að kjósa. Annars virðist mjer ekkert vera á móti því, að kjördagurinn sje almennur hvíldardagur. En jeg vil þó taka það fram um þessa brtt. að jeg tel mjög varhugavert að samþykkja hana, þar sem jeg er ekki alveg ugglaus um, að hún sje borin fram til þess að láta málið daga uppi, og ef þessi hv. deild er á annað borð meðmælt því, að frv. nái fram að ganga, þá er ekki ástæða til að gefa tilefni til þess, að málið strandi. Hinsvegar er altaf hægt að taka upp þessa brtt. hvenær sem er á næstu þingum.

Þessa brtt. væri ávalt hægt að taka upp fyr á þingi síðar, og þá gæti hún gengið fram, ef meiri hl. væri með henni. Hinsvegar er óvíst nú, hvernig Ed. tæki í hana. Hjer er nýmæli á ferðinni, og ef Nd. vill ekki á það fallast, gengur málið. ekki fram á þessu þingi.