16.03.1929
Efri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Þorláksson:

Jeg ljet það álit í ljós við umr. þessa máls hjer í deildinni í fyrra, að jeg teldi þessa hafnargerð hið mesta nauðsynjamál. Byggi jeg þetta álit mitt á almennum kunnugleika mínum á atvinnuháttum þessa hjeraðs, enda hefir þörfin á hafnargerð þarna ekki verið vjefengd af neinum. Hv. sjútvn. leggur nú til, að tillagið úr ríkissjóði lækki úr 1/2 niður í 1/3 kostnaðar við hafnargerðina. Ber hún þá ástæðu fram fyrir niðurfærslunni, að áður hafi ekki verið venja að veita meira en hl. kostnaðar til hafnarmannvirkja. Er það að vísu rjett. En jeg er þó þeirrar skoðunar, að ekki dugi hjer eftir að binda sig um of við það fordæmi. Á það ber að líta, að fyrst voru gerðar hafnarbætur á þeim stöðum, þar sem mestar voru líkur til, að þær gætu staðið straum af sjer sjálfar. Var því eðlilegt, að tillag ríkissjóðs til þeirra væri ekki haft hærra en 1/4, kostnaðar. Það var og eðlilegt, að hafnarmannvirki væru fyrst gerð á þeim stöðum. En nú er svo komið, að farið er að hugsa fyrir hafnarbótum á þeim stöðum, svo sem Skagaströnd, sem minni líkur eru til, að beri sjálfar sinn kostnað heldur en t. d. í Reykjavík og öðrum stærri kauptúnum. Er jeg því hræddur um, ef haldið verður fast við þetta hlutfall, að það dragi mjög úr nauðsynlegum framkvæmdum, eða þá að ríkissjóður verði síðar, vegna ábyrgða; er hann tekur á sig vegna framkvæmdarinnar, áð taka á sig greiðslur utan fjárl. og umfram það, sem löggjöfin ætlaðist til. Dæmi þessa þekkjast þaðan, sem meiri líkindi voru til, að takast mætti að láta hafnargerð ávaxta sig heldur en á Skagaströnd. Jeg lít svo á, að 850 þús. kr. sje ekki svo stórvaxin upphæð fyrir ríkissjóð, að rjett sje að lækka hana, ef hætta er á, að sú niðurfærsla verði hafnargerðinni að fótakefli, ekki síst með það fyrir augum, að hjer er um stórt nauðsynjamál að ræða fyrir fleiri en hjeraðsbúa.

Þá vildi jeg víkja að annari hlið þessa frv. Við athugun á því er það ljóst, að við samningu þess hefir verið haft fyrir augum, að hjer væri aðallega um verslunarhöfn að ræða. En það er sannfæring mín, að í framtíðinni verði þarna fremur um fiskiveiðihöfn að ræða, og finst mjer ekki nógu vel tekið tillit til þess í frv. Það er álit kunnugra manna, að Húnaflói feli í sjer mikla möguleika til bátfiskiveiða, en hafnleysið við austanverðan flóann stendur nú í vegi fyrir því, að hægt sje að notfæra sjer þann möguleika. Að vísu eru hafnir að vestanverðu, á Ströndunum, en þær liggja ver við, auk þess sem þar er mjög þokusamt. Hindrar það tíðum sjósókn þaðan. Þegar nú örugg höfn er komin á Skagaströnd, bæði fyrir báta hjeraðsmanna og annarsstaðar frá, sem fá þarna viðleguhöfn, þá þurfa lögin að vera svo úr garði gerð, að ráð sje gert fyrir tekjuöflun í samræmi við þá notkun. Jeg álít, að heimild hefði þurft að vera fyrir því í lögunum, að hafnarsjóður fengi tekjur af þessum atvinnurekstri, en tel hæpið, að sú heimild finnist í þeirri gr. frv., sem um tekjuöflun ræðir, 11. gr., enda er sú gr. að mestu sniðin eftir hafnarlögum Reykjavíkur, en þau eru miðuð við verslun. Þó hygg jeg, að fordæmi sje fyrir því í löggjöfinni, að gjöld sjeu tekin af útvegi í svipuðum tilgangi. Eru til heimildarlög, sem jeg hygg, að sjeu í gildi enn, að taka hálfan eða heilan hlut af hverjum bát til þessara þarfa, þar sem löglegar samþyktir eru um það gerðar. Mjer finst ekki óeðlilegt, þótt heimild til að leggja eitthvert slíkt gjald á væri sett í lögin. Vil jeg skjóta því til hv. sjútvn., að hún athugi þetta til 3. umr., fyrst hæstv. atvmrh. lætur ekki svo lítið að vera við umr. þessa merka máls. Jeg tel rjett að setja ákvæði um þetta í l., án þess þó að svo langt sje gengið að þau ákvæði fæli atvinnurekendur frá staðnum.

Jeg er þeirrar skoðunar, að það sje mjög hæpið, þó að ríkissjóður legði fram helming stofnkostnaðar, að hafnarsjóðurinn geti staðið straum af viðhalds- og rekstrarkostnaði hafnarinnar og svarað vöxtum eftir 11. gr. frv. Það er jafnvel svo ólíklegt, að jeg gæti trúað, að ekkert yrði úr framkvæmdum. Og þó að brtt. n. yrði feld, um að lækka ríkissjóðstillagið, þarf ríkisvaldið áð sjá höfninni fyrir beinum tekjum af þeim fiskiveiðum, sem jeg veit, að verða stundaðar í sambandi við hana.