21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir hönd n. hefi jeg ekki mikið að segja, en ræða hv. 6. landsk. gaf mjer tilefni til þess að fara dálítið lengra út í málið. Hann sagði, að hafnleysi á þessu svæði væri búið að valda stórtjóni, og hjelt því fram, að þessi höfn mundi koma að miklu meiri notum fyrir útveginn en verslunina, þar sem hún hefði mikil hlunnindi aðallega sem fiskiveiðahöfn. Jeg get verið að mestu leyti sammála honum um þetta, en vil þó ekki ganga inn á, að höfnin hafi svo geysimikla þýðingu eins og hann vill vera láta sem fiskiveiðahöfn. Höfnin verður að mínu áliti fyrst og fremst verslunarhöfn, en verður að meira eða minna leyti, er fram líða stundir, fiskiveiðahöfn. Hve fljótt það má verða, fer að miklu eftir því, hve bráðlega verður framkvæmd og fullgerð þessi hafnarbygging. Viðvíkjandi því, að hafnargerðin sje tiltölulega ódýr, get jeg ekki verið sammála hv. 6. landsk. Það er mín sannfæring, að þessi hafnargerð, sem hjer er um að ræða, sje ekki nema byrjun að höfn á Skagaströnd, en ef Skagaströnd á að eiga framtíð fyrir sjer, þá þarf þar afarfullkomna höfn, sem kostar stórfje. Til slíkra ráðstafana þarf miklu meira fje en hjer er farið fram á, en svo langt er ekki hægt að ganga að svo komnu. Það er þó síður en svo, að þetta, sem nú á að gera, sje til þess að tefja fyrir málinu. Það er einmitt stórt spor í áttina. Jeg lít á þessa höfn sem mikla bót fyrir hjeraðsbúa.

Með þetta fyrir augum telur n. ekki rjett að ganga lengra með tillag ríkissjóðs en hún lagði til, þar sem líkur eru til, að í framtíðinni verði máske eigi síður um fiskihöfn en verslunarhöfn að ræða, og mun því fá svo miklar tekjur, að hún geti í framtíðinni staðið sjálf straum af sjer. Væri þetta ekki svo, horfði málið öðruvísi við. Væri þá varhugavert að leggja svona mikla byrði á hafnarsjóðinn. Hv. 6. landsk. talaði um það, að hafnarsjóður mundi ekki verða í neinum vandræðum með lán til hafnargerðarinnar, þó ábyrgð ríkissjóðs væri færð svo niður, að hún stæði ekki að baki alls lánsins. Þetta bendir á, að fyrirtækið er talið arðvænt. Þetta er hið sama og vakti fyrir sjútvn., er hún lagði til að færa tillagið niður, þótt hún teldi rjett að hafa tillagið nokkru hærra en venja hefir verið til annarsstaðar. Tel jeg því, að sjútvn. hafi tekið vingjarnlega í þetta frv.

Þá vil jeg geta þess, að sjútvn. er fyllilega samþykk 3. brtt. á þskj. 154, sem fer í þá átt að tryggja hafnarsjóði meiri tekjur. Af till. sjest, að hv. flm. hennar trúa á, að hjer geti verið um álitlegan tekjustofn að ræða. Og þótt óvíst sje, að það sje meira en ágiskun, og vafasamt að reynist rjett það, sem hv. 3. landsk. sagði, að útflutningur frá Skagaströnd mundi verða 20 þús. skpd. — (JÞ: Jeg sagði frá Húnaflóa). Ef höfnin kemur á Skagaströnd, verður aðstaðan best þar og útflutningur sjálfsagt að mestu leyti þaðan. Ef á þessari aukningu má byggja, þá ættu tekjur hafnarsjóðs samkv. b-lið till. að nema 70–80 þús. kr. árlega. Er það alllagleg upphæð, og ættu þeir, sem líta svo björtum augum á þetta fyrirtæki, að vera ánægðir með að fá 1/3 kostnaðar frá ríkinu.

Eins og skilja hefir mátt á orðum mínum, er sjútvn. því móti 1. og 2. lið brtt. á þskj. 154, en leggur til, að 1. liður brtt. verði samþ. Þá hefir sjútvn. og athugað brtt. frá hæstv. fjmrh. á þskj. 173 og leggur til, að hún verði samþ. Það er vitanlega ekki nema gott við því að segja, að þetta fyrirtæki sje athugað sem best, áður en framkvæmd er hafin. Og þessi brtt. tryggir það. Eins og jeg gat um áður, þá hvikar sjútvn. ekki frá sinni stefnu í þessu máli og telur þær upplýsingar enn ekki fram komnar, sem haggi skoðun hennar á því. Ræða hv. 6. landsk. fremur styrkir það, að skoðun sjútvn. sje rjett.