22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hannes Jónsson:

Það var rjett hjá hv. 2. þm. G.-K., að jeg segi í þessu máli það, sem jeg veit sannast og rjettast, eins og jeg geri yfirleitt í hvaða máli sem er. Hitt er ekki þar með sagt, að það sje altaf það sanna og rjetta; þetta vænti jeg, að hv. þm. taki til greina, og að hann vildi nú sjálfur taka upp þá reglu, ef hann hefir ekki haft hana áður. (ÓTh: Já, ef). Hitt er fullkominn misskilningur, að jeg sje að mæla á móti þessu frv. En það er aftur á móti rjett, að eftir ýmsum framkvæmdum í hjeraðinu nú á síðustu missirum, þá efast jeg um, að þar sje ríkjandi almenn trú á þessu máli. Þess vegna tel jeg nauðsynlegt, að málið geti fengið þá athugun heima í hjeraði, sem framkvæmanleg væri.

Hv. 1. þm. Skagf. vildi ekki trúa öðru en að málinu væri borgið í höndum hjeraðsbúa, og sæti síst á mjer að efast um það eða tortryggja samsýslunga mína. En jeg verð nú samt að segja það, að í hafnarbótamálum hafa þeir sýnt svo óvenjumikið dómgreindarleysi, og á jeg þar sjerstaklega við bryggjubyggingu á Blönduósi, fyrir innan ána. Kirk hafnarverkfræðingur lagði á móti því fyrirtæki, en samt var það barið fram í sýslun. með örlitlum meiri hl. Þar eru margar þúsundir kr. farnar til einskis. Jeg get því ekki sjeð annað en að fylsta ástæða sje til þess að vera varkár í þessu máli; og þetta segi jeg ekkert síður fyrir það, þó að samsýslungar mínir eigi hlut að máli, sem jeg vil fúslega gera eitt og annað fyrir. Það verður að gera alt til þess að tryggja það sem best, að almenningsvilji í hjeraðinu verði óskiftur á bak við þetta mál; því hann ræður úrslitum um, hvort hjeraðið bindur sjer þann skuldabagga á herðar, sem ábyrgðinni fylgir. Þar er í mikið ráðist fyrir sýslufjelagið; og þó að málið sje í sjálfu sjer gott, þá eiga hjeraðsbúar að fara varlega í að ofþyngja einstaklingum með skuldaböggum. Þegar almennur vilji hjeraðsbúa er fenginn til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, þá geri jeg ráð fyrir, að þeir klífi þrítugan hamarinn til þess að afla því nauðsynlegra tekna. En á hinn bóginn ætla jeg, að ef fylgi við málið verður skift í sýslunni og raunveruleg andstaða brýtst fram, þá mun sannast, að það verður mjög erfitt um skuldagreiðslur, sumpart af rjettlátum ástæðum, þ. e. getuleysi einstaklinga, og sumpart vegna þrjósku. Þess vegna er hætt við, undir þessum kringumstæðum, að skuldbindingar hjeraðsbúa færist á ríkissjóð til greiðslu. Það, sem eitt hjerað tekur að láni, til hvaða fyrirtækis, sem um er að ræða, verður hjeraðið að borga aftur. Það má ekki bindast lántökum nje ábyrgðum með þeirri hugsun að ætla síðar að smeygja sjer undan rjettmætum greiðslum, er af þeim stafa, þegar kemur að skuldadögunum. Sú stefna á að dæmast til dauða. En því miður hefir talsvert bólað á henni hjer á Alþingi. Og þó jeg geti viðurkent, að ákvæðin, sem eru í 2. gr. frv., hafi ekki mikil áhrif, þá vil jeg, að þau fái að standa óbreytt; það veitir þó meiri trygging fyrir góðum undirbúningi þessa máls í hjeraðinu. Jeg hefi ekki mælt á móti þessu frv. á nokkurn hátt; síður en svo. Jeg hefi aðeins viljað tryggja sem best, að það kæmi að haldi, og mun greiða atkv. með því.