29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hannes Jónsson:

Jeg sje, að brtt. hv. 1. þm. Skagf. víkur frá þeim ákvæðum, er sett eru í 2. gr. 2. mgr. um skilyrði fyrir fjárveitingu til hafnargerðarinnar. Í henni er tekið fram, að til byrjunar á hafnargerðinni megi ríkið verja alt að 50 þús. kr., gegn tilsvarandi eða alt að 75 þús. kr. framlagi úr hafnarsjóði Skagastrandar. Ennfremur sje ríkisstj. heimilt að ábyrgjast alt að 75 þús. kr. lán handa hafnarsjóðnum í þessu skyni, gegn ábyrgð sýslunefndar A.-Húnavatnssýslu, og skal ákvæði 2. málsgr. 2. gr. þessa frv. ekki ná til þeirrar ábyrgðar.

Nú var jeg á móti því við 2. umr., að ákvæði 2. málsgr. 2. gr. væri felt niður. En jeg verð að segja, að hjer er öðru máli að gegna, því eins og búið er að taka hjer fram, þá er hjer um nauðsynlegar lendingarbætur að ræða. Jeg get því sagt það um þessa brtt., að jeg hefi ekkert út á hana að setja hvað þetta snertir. Hjer er ekki verið að ráðast í neitt, sem er hjeraðinu ofurefli. Og þó að svo færi, að þær tekjur hafnarinnar, er sumir hafa gert sjer vonir um, fengjust ekki, þá er þetta ekki svo mikið fje, að það sje ekki þess vert að leggja það í nauðsynlegar hafnarbætur. Jeg held, að það sje nokkur ástæða til þess að setja sjerákvæði um þetta mannvirki, því þegar þeir hafa fengið þetta, þá er mjer það mjög til efs, að þeir haldi lengra áfram. Heldur mundu þeir láta þetta nægja, a. m. k. fyrst um sinn, og bíða eftir því, að mögulegt væri að láta stærri mannvirki bera sig. Hefi jeg svo ekki meira um þetta að segja, en mæli með till. hv. 1. þm. Skagf.