04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg vil láta í ljós þakklæti mitt til hv. landbn. fyrir þann skilning, sem hún hefir sýnt á þörfum smábátaútvegsins í landinu með tillögum sínum í þessu máli. Bátaútvegsmönnum er mikil nauðsyn á því að eiga þess kost að geta á hagkvæman hátt aflað sjer lánsfjár til atvinnurekstrar síns. En þess getur hver maður gengið ódulinn, að með því að sýna skilning á þörfum bátaútvegsins í þessu efni er einnig lagður drjúgur skerfur til ræktunar landsins. En það var auðsætt, að hæstv. atvmrh. hafði ekki haft þann skilning sem skyldi á þessu máli, enda bera frv. þau, sem hann hefir lagt fyrir þingið, það með sjer. Íhaldsfl. bar fram á síðasta þingi frv. um atvinnurekstrarlán, þar sem jafnhliða átti að greiða úr rekstrarlánaþörf bænda og bátaútvegsmanna, en eins og kunnugt er, náði það ekki fram að ganga. Þessa hugmynd hefir hæstv. atvmrh. tekið upp í frv. um sveitabanka, en meðal annara breytinga, sem hann hefir gert á þessu frv. Íhaldsflokksins, er sú, að útiloka bátaútvegsmenn frá þessum rekstrarlánum. Það hefði nú raunar mátt búast við því, að hæstv. atvmrh. sæi sig um hönd og kæmist að því við nánari athugun, að hann hefði þar ekki farið rjetta leið, en sú hefir þó ekki orðið raunin á. Og ekki hafa till. landbn. opnað augu hans heldur, því að ennþá snýst hann öndverður gegn þessu og leggur aðaláherslu á það, að koma þessari brtt. landbn. fyrir kattarnef. Hann viðurkennir það að vísu, að smábátaútvegurinn þurfi að fá nokkra úrlausn í þessu efni, en orðin tóm hafa lítið að segja, ef ekkert er aðhafst, sem sýnir, að hugur fylgi máli.

Hæstv. atvmrh. benti á frv. það um breytingar og aukningu á Fiskiveiðasjóðnum, sem sjútvn. flytur, og hann ljet það álit sitt í ljós, að ekki þyrfti meira, og með þessu væri sjeð fyrir bátaútveginum. En þetta er hinn mesti misskilningur. Sú úrbót, sem um er að ræða í því frv., er aðeins lítill stofn að löggjöf um lánsstofnun fyrir bátaútveginn, og að því leyti sem með því frv. er lagður grundvöllur að lánsstofnun fyrir bátaútveginn, má telja þær tillögur mikilsverðar, en sem úrlausn á þessu máli til frambúðar ná þær harla skamt. Jeg vil í þessu sambandi benda á það, hvernig Íhaldsflokkurinn hafði hugsað sjer að greiða úr á þessu sviði. En það er á þann hátt, að efla Fiskiveiðasjóðinn, svo að hann geti fullnægt þörfum manna til bátakaupa og til þess að koma upp verksmiðjum til að vinna úr fiskúrgangi og að byggingu íshúsa. Í öðru lagi með því að veita bátaútvegsmönnum aðgang að rékstrarlánum, sbr. rekstrarlánafrv., sem jeg gat um áðan. Með þessu móti mundi hafa tekist á hagkvæman hátt að greiða úr brýnni lánsþörf bátaútvegsmanna. En samkv. þeim undirtektum, sem frv. þau, er íhaldsmenn fluttu um þetta á síðasta þingi, hafa fengið, og till. þær, sem þeir hafa og borið fram á þessu þingi, þá er sýnt, að málið verður nú ekki leyst á þann hagkvæma hátt. Það er bersýnilegt, að það lengsta sem hægt er að komast á þessu þingi með að greiða úr lánsþörf bátaútvegsmanna, er að samþ. frv. sjútvn. um aukningu Fiskiveiðasjóðsins og tillögur landbn. um, að bátaútvegsmenn eigi ásamt og í fjelagi við bændur aðgang að rekstrarlánum. Jeg treysti því, að andstaða hæstv. atvmrh. gegn þessum sjálfsögðu og sanngjörnu tillögum landbn. verði vegin og ljettvæg fundin af Alþingi. Eins og bent hefir verið á, er landbúnaðurinn og smábátaútgerðin svo fljettuð saman, að það má segja, að ræktunin í og kringum kauptúnin byggist á bátaútveginum; þaðan kemur fjármagnið til þess að hrinda ræktuninni á stað, og svo er það enginn smáræðis áburðarforði, sem til fellur þar, sem mikil útgerð er. Mjer þykir leitt, að hæstv. atvmrh., sem ber hlýjan hug til ræktunar landsins, skuli ekki hafa komið auga á þetta. Eins og hv. frsm. landbn. benti á, þá er sú grýla ekki frambærileg, að þetta auki áhættuna, eins og hæstv. atvmrh. hjelt fram, því að svo vel er búið um hnútana, að lánsfjelögin, sem starfa innan þröngs hrings, hafa fulla þekkingu á högum allra viðskiftamanna lánsfjelagsins, alveg eins þeirra, sem bátaútveg stunda, og ennfremur hefir nefndin gengið svo frá þessu að öðru leyti, að það má hiklaust telja, að þar sje alls öryggis gætt. Þótt ákvæðin um lán til bátaútvegsmanna nái ekki til kaupstaðanna, þá er þar sá stóri munur á, að í kaupstöðunum eru lánsstofnanir, sem menn geta snúið sjer til og fengið lán til útgerðarinnar, en í kauptúnum landsins vel flestum er engu slíku til að dreifa.

Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að fara um þetta fleirum orðum, og vona, að hv. þingdm. geti orðið sammála um það, að hjer sje fyrir hendi sú nauðsyn, er eigi verði skotið skollaeyrum við að bæta úr, og að einmitt á þennan hátt verði það hagkvæmlega gert og að gersamlega ástæðulaust sje að vera að tala um áhættu í því sambandi.