23.02.1929
Efri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Jónas Kristjánsson:

Hæstv. atvmrh. hefir nú fylgt frv. þessu úr hlaði með nokkrum orðum, en í ræðu hans og greinargerð frv. sakna jeg þó mjög mikilsvarðandi upplýsinga, sem sje áætlunar um kostnað fyrirtækisins. Verður eigi annað sagt um frv. en að það sje mjög ljelega undirbúið, og er það því lakara vegna þess, að frv. þetta verður að álítast mjög þarft.

En það er ýmislegt fleira en kostnaðarhlið þessa máls, sem mig langar til að spyrja hæstv. atvmrh. um. Er frv. þetta samið í samráði við læknadeild háskólans og forstöðumann efnarannsóknarstofu ríkisins? Hvernig á að haga samvinnu milli þessara stofnana? Langar mig til að fá upplýsingar um þessi atriði, og þó einkum, hve mikinn kostnað þarf að leggja í þessa stofnun, því að öðrum kosti sje jeg mjer eigi fært að greiða frv. þessu atkv. til nefndar.