27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg finn enga ástæðu til þess að lengja umr. um þetta mál, þar sem engin brtt. hefir komið fram við frv. og það var samþ. með miklum meiri hluta við 2. umr.

Hv. 3. landsk. vakti athygli á því, að þær stofnanir, sem til væru fyrir hjá okkur í þessum efnum, ættu við mjög þröngan kost að búa, sem sennilega er alveg rjett og jeg skil því sem bendingu til íhugunar fyrir stjórnina.

Það, sem mjer virðast skoðanir manna vera skiftar um, er það, hvort frekar eigi að þrengja eða víkka verksvið stofnunar þeirrar, sem frv. ræðir um. Hæstv. forsrh. og hv. þm. Snæf. virtust báðir hallast að því við 2. umr. að þrengja frekar verksvið hennar. Aftur hafa tveir menn úr landbn. staðið upp núna og talað um að víkka starfssvið hennar. Jeg fyrir mitt leyti held, að það sje gott eins og ákveðið er í frv., að stærðin og verksviðið fari eftir því, hvað talið verður heppilegast þegar til framkvæmdanna kemur. Óska jeg svo, að frv. fái að ganga áfram.