06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

19. mál, landsreikningar 1927

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg ætla ekki að vekja deilur um þetta atriði, en mjer þykir óviðfeldið að sjá á reikningi landhelgissjóðs talda upp bíla, hesta og hestafóður og annað slíkt. Jeg sje heldur ekki, að þótt sjóðurinn þurfi stöku sinnum á hestum og bílum að halda, að ástæða sje til að eiga þá, þegar hægt er að fá þá leigða hvenær sem með þarf. Það er ekki nema sjaldan, að hjer koma erlendir menn vegna landhelgisgæslunnar, ekki oftar en svo, að miklu ódýrara yrði að leigja þessi farartæki í hvert skifti. Í raun og veru borgar ríkissjóður þetta í báðum tilfellum, en úr því að reikningi landhelgissjóðs er yfirleitt haldið út af fyrir sig, finst mjer óviðfeldið að sjá þetta alt fært á hans reikning. Mjer er kunnugt um, að úti um landið, þar sem menn eru ekki eins kunnugir þessu og hv. þdm., kemur þessi færsla mjög einkennilega fyrir, sem eðlilegt er.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um málið, en vænti þess, að hæstv. fjmrh. taki þetta til athugunar.