26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Jeg bjóst alls ekki við, að það kæmi svona snemma fyrir, og hefi jeg því ekki búið mig undir það sem skyldi. En jeg fæ ekki sjeð, að það þurfi neinn sjerstakan norðangarð til þess að menn sjái ýms missmíði á frv. þessu, þar sem það vægast sagt virðist vera sú hrákasmíði, sem alls ekki getur komið til mála að samþykkja nú. Hvað tilgang frv. snertir, þá er hann góður. Verður því ekki annað sagt en að hjer sje góð hugsun klædd í aumustu tötra. Í frv. þessu er talað um að setja upp rannsóknarstofu, og er engu líkara en að þeir, sem samið hafa frv., haldi, að hjer sje engin rannsóknarstofa til, enda þótt tvær rannsóknastofur hafi starfað hjer um nokkurt skeið, og það að mörgu leyti á sömu sviðum og rannsóknarstofu þeirri, sem hjer ræðir um, er ætlað að vinna. Á jeg hjer við rannsóknarstofu háskólans og efnarannsóknarstofu ríkisins. Það hefði því legið ólíkt beinna við að sameina báðar þessar rannsóknarstofur og auka svo við þær því, sem þurfti til þess að úr því yrði fullkomnari stofnun. Sú leið hefði áreiðanlega verið skynsamlegri heldur en að fara að setja á stofn nýja rannsóknarstofu, án þess að taka hið minsta tillit til þeirra, sem fyrir voru. Að fara þannig að, finst mjer alveg hið sama og ef ekkert tillit hefði verið tekið til þess 1911, þegar háskólinn var stofnaður, að til voru þá fyrir prestaskóli, læknaskóli og lagaskóli. En eins og þeim skólum var slegið í eitt þá, og við þá aukið til þess að mynda háskólann, eins finst mjer sjálfsagt að slá báðum þessum rannsóknarstofum saman í eitt og nota sem uppistöðu.

Aðalverkefni rannsóknarstofu þeirrar, sem hjer er talað um að setja á stofn, á að vera efnarannsóknir, samskonar rannsóknir og efnarannsóknarstofan hefir nú með höndum. Ennfremur á hún að fást við gerla- og sýklarannsóknir, en það er einmitt verkefni rannsóknarstofu háskólans. Hvað vitamínrannsóknirnar snertir, þá býst jeg við, að sjerstakan sjerfræðing þurfi til þess að framkvæma þær. Enda hefir það verið sagt, að það væri beinlínis tilætlunin með frv. þessu að búa til embætti handa ákveðnum manni, Skúla V. Guðjónssyni lækni. Hefir bólað á því fyr á þingi, að sumir hafa viljað búa til handa honum starf hjer á landi. Að vísu hefir hæstv. forsrh. borið þennan orðróm til baka, og má því vel vera, að hann sje ekki á rökum reistur, en mörgum hefir eigi að síður dottið í hug, að kjarni þessa máls væri vitamínrannsóknirnar, til þess að fá þennan ágæta mann til þess að koma heim.

Það dettur vitanlega engum í hug að neita því, að það væri mikils virði, ef hægt væri að koma í veg fyrir þá voða landplágu, sem bráðapestin og ýmsir aðrir alidýrasjúkdómar eru hjá okkur. Það er öldungis rjett hjá hæstv. ráðh., að slíkt væri ekki hægt að meta til peninga. En það, sem jeg efast um, er það, að fyrir þessa sjúkdóma verði nokkuð frekar girt, þó að frv. þetta verði samþ. Jeg veit ekki betur en rannsóknarstofa háskólans hafi einmitt verið að fást við tilraunir með bóluefni.

Þá er það, hversu mjög alt er óákveðið um stærð þessa fyrirtækis og kostnað við það. Það er ekkert um það sagt, hve margir menn eigi að vinna við þessa stofnun, og ekkert hvað neitt muni kosta. Það gæti bókstaflega hver hreppakerling búið til slíkt frv. Það, sem þó sjerstaklega verður að teljast alveg óafsakanlegt, er það, að engar kostnaðaráætlanir skuli hafa verið gerðar. Í 6. gr. segir aðeins, að allur kostnaður við stofnun og rekstur stofunnar skuli greiddur úr ríkissjóði, og skuli í fjárlögum ákveða nægilegt fje til rekstrarkostnaðar. Það er nú alls ekki svo, að við hv. þm. Barð. óttumst, að hjer eigi að fara að spila eitthvert laumuspil á bak við þingið, heldur hitt, að við óttumst, að hjer fari eins og um berklavarnakostnaðinn, sem upphaflega átti ekki að verða nema nokkrir tugir þúsunda, en er nú, eins og kunnugt er, orðinn sá óhemjuútgjaldaliður, sem alt ætlar að sliga. Við erum því alls ekki að væna hæstv. ráðh. um það, að hann ætli hjer að fara í felur, heldur viljum við fá að vita fyrirfram, hvað þetta muni kosta.

Hæstv. ráðh. vitnaði í búnaðarþingið, en það var alger óþarfi, því að það gerði ekki annað en láta í ljós, að þörf væri á slíkri stofnun sem þessari, en hana játa allir. Ágreiningurinn er því ekki um nauðsyn málsins, heldur um hitt, hvernig það skuli leyst.

Af því, sem jeg nú hefi tekið fram, hefði jeg helst viljað, að máli þessu væri nú vísað til stjórnarinnar til frekari undirbúnings, því að jeg er þess fullviss, að enda þótt það sje venjulega best, að gott mál sje leyst sem fyrst, þá mun þó í þessu tilfelli vera betra, að lausn þessa máls dragist um eitt ár.