26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Það er gott, að þessar umr. voru vaktar hjer nú, því það hefir orðið til þess, að hæstv. forsrh. hefir gefið mikilsverðar upplýsingar um málið. (Forsrh.: Þær komu fram í hv. Ed.). — Það er nú einmitt það, að ekki er hægt að vísa til þess hjer, sem fram fer í hv. Ed. Þm. hjer hafa svo mikið að gera, að þeir hafa engan tíma til þess að lesa hundruð blaðsíðna í óaðgengilegum handritum þaðan. Og það er alveg tilviljun, að þm. hjeðan hafi tækifæri til að hlusta á umr. í hv. Ed. Þm. Nd. fá því yfirleitt engar upplýsingar um það, sem gerist í Ed. Það er hreinasti ósiður, að hæstv. stjórn haldi þeirri venju að tala aðeins fyrir frv. sínum í þeirri þingdeild, sem þau eru lögð fram í. Það þarf alveg eins að skýra málin fyrir þeirri þingdeild, er síðar tekur við þeim. — Það, sem sú þingdeild hefir, sem síðar tekur við málunum, er frv. eins og það er lagt fyrir, og svo nál. um það í hinni d. og afgreiðsla hennar á því, og meira svo ekki.

En nú hafa þá þessar upplýsingar loksins komið fram. Og jeg get sagt, að jeg er miklu rólegri með frv. eftir að hafa heyrt þær.

Þessi stofnun, sem hjer um ræðir, á nú fyrst og fremst að vera til þess að rannsaka búfjársjúkdóma. Það er nú í sjálfu sjer þarft og gott. En það er margt fleira, sem á að athuga. Og jeg get ekki sjeð, hvað á móti því getur mælt, að háskólinn taki þessa stofnun að sjer. Máske þyrfti að fá fagmann í vitamínrannsóknum, en jeg sje ekki, að það komi í bága við það, að Skúli Guðjónsson verði tekinn, ef þess endilega þykir þurfa. (LH: Það er nú óvíst, hvort af því verður). Hvers vegna ætti að ganga framhjá honum, ef maður verður tekinn til þessa hvort sem er? Hann hefir þó gott orð á sjer sem vísindamaður. — En jeg hjelt nú samt satt að segja, að það væri alveg óhætt, að hann starfaði enn um stund í Danmörku. Jeg held jafnvel, að hann geti gert meira gagn þar en hjer, og það jafnvel, sem okkur má að gagni koma. Hv. þm. Mýr. lýsti yfir því, að Skúli Guðjónsson væri enginn Ölmusumaður; jeg get vel gengið inn á, að það sje rjett, og tel því best að lofa honum að starfa þar í friði, sem hann nú er. — Jeg hjelt nú, að þetta starf, sem Skúli hefir með höndum, rannsókn á vitamín efnum, væri ,internationalt‘ viðfangsefni, svo að ekki gerði svo mjög til, í hvaða landi þær eru framkvæmdar. En ef eitthvað væri sjerstakt fyrir okkur í þessu efni, þá ætti ekki að verða skotaskuld úr því að fá það rannsakað. En alidýrasjúkdóma þyrfti að rannsaka, svo sem bráðapest, lungnaormaveiki, fjöruskjögur o. fl. Ef inn í það þyrfti að koma rannsókn á vitamínum, þá ætti að vera auðvelt að fá það rannsakað annarsstaðar.

Mjer virðist, sem að undanförnu hafi verið talsvert á það ýtt að stofna embætti hjer handa Skúla Guðjónssyni. Má vel vera, að hann sje enginn „ölmusumaður“. En hitt kann svo að vera, að honum sje líkt farið og Sveinbjörn Egilsson kvað: „Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til“. Að hann langi heim, þótt honum sje eigi starfsvant. En hvað sem því líður, þá verðum við þó að líta fyrst og fremst á okkar fjárhag og hvað okkur hentar í þessu efni. Og þar sem nú er hafin gerla- og bóluefnisrannsókn við háskólann, þá finst mjer, að við það hefði mátt bæta þeim stofni til efnarannsóknarstofu, sem nú er styrkt af ríkinu með 15 þús. kr. Þetta átti fyrst og fremst að reyna að draga saman í eitt og sjá, hvað það kostaði; síðar mátti svo bæta við eftir þörfum og getu. Að vísu liggur nú fyrir ský laus yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um það, að hann ætlar sjer ekki að stofna hjer neitt bákn upp á mörg hundruð þús. kr., en aðeins að láta fram fara rannsókn á búfjársjúkdómum og athuga, hvort ekki er hægt að fella saman það, sem fyrir er, — sama og við hv. þm. Barð. höfðum hugsað okkur og átti að koma fram strax í frv. En um kostnaðinn getur nú altaf orðið spurning. Þótt hann sje í byrjun hugsaður lítill og eigi að ákveðast í fjárlögum, þá getur nú samt svo farið, að hann vaxi án þess við það verði ráðið, líkt og t. d. hefir orðið með styrkinn til berklavarna.

Hv. þm. Mýr. sagði, að jeg og hv. þm. Barð. hefðum misskilið þetta frv. En jeg held, að það sje hv. þm. sjálfur, sem hefir misskilið okkur, er hann sagði, að við hefðum talað af kala um frv. og sagt, að bak við það stæðu lægri hvatir. Þetta er hreinasti misskilningur. (BÁ: Stofnun embættis!). Það er nú alt annað mál. Hv. þm. sagði, að ekki væri um neinar lægri hvatir að ræða, því þetta frv. væri borið fram samkv. óskum síðasta þings. Og hann sagði, að jeg hefði þá mælt hlýlega með þessu máli, sem kom fram í þinglokin. En þá var hugmyndin öll önnur. Þá var hugmyndin að setja þessa stofnun á fót við háskólann og með víðtækara starfsviði en nú er ráð fyrir gert. Að vísu er nú hjer talað um aðrar rannsóknir, og má máske koma mörgu undir það ákvæði. Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna hv. þm. taldi mig mótfallinn þessu, þótt jeg tæki til máls nú við 3. umr. af því mjer þótti þetta mál svo óhugsað og óundirbúið. Hv. þm. sagði, að hjer ætti að safna saman dreifðum kröftum. Hvers vegna er það ekki tekið fram í frv.? Enginn veit eiginlega, hvað hjer er verið að samþykkja. Það vakir bara óljóst fyrir, að eitthvað þurfi að gera, og það á að henda því í stjórnina. Hv. þm. Mýr. sagði, að hann vildi ekki henda þessu í höndurnar á okkur hv. þm. Barð. Með því játar hann í raun og veru, að þetta sje óskapnaður, sem megi fara með hvernig sem vill. En hv. þm. treystir nú stjórninni til þess að fara svo með þetta, að vel megi við una. En eins og hann ekki treysti okkur hv. þm. Barð., þá verður hann að viðurkenna það sem eðlilegt, að við stjórnarandstæðingar treystum ekki stjórninni eins vel og hann og aðrir stuðningsmenn hennar. Hvernig fer nú, ef stjórnarskifti verða við kosningarnar 1931? Þá verður þetta mál enn í vöggu. Og þá geta máske komist í meiri hl. þeir menn, sem hv. þm. Mýr. treystir ekki nú. Hvað sem því líður, þá á það að vera föst venja Alþingis að samþykkja það eitt, sem það veit hvað er. Og þetta frv. er svo óákveðið, að það hefði mátt alveg eins vel veita stjórninni heimild í fjárl. til að starfa að þessu. Hjer er bara óákveðin heimild til að byrja einhvernveginn. Og það tel jeg illa meðferð á góðu máli.

Jeg treysti því, að hæstv. forsrh. efni orð sín um að fara varlega í þessu máli og byrja aðeins í smáum stíl. Í raun og veru eru rannsóknir þegar hafnar, og það sýnir, hve alt þetta umstang er óþarft. Jeg veit ekki betur en hjer hafi dvalið þýskur maður og athugað búfjársjúkdóma. Annars held jeg, að það hefði alveg nægt að fela Búnaðarfjelaginu þessar rannsóknir og veita því eitthvert fje til þeirra. Rannsóknarstofa háskólans gæti svo rannsakað það, sem lýtur að útbúningi bóluefnis og þessháttar. Í öllu falli held jeg, að stjórnin ætti að undirbúa þetta mál betur og leggja svo fyrir næsta þing frv., sem væri dálítið ákveðnara en það, sem nú liggur fyrir.