03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

111. mál, brunamál

Magnús Guðmundsson:

Rjett er það, að ríkið á að sjá um, að lögum sje haldið uppi, sem það hefir sett. Það er gert með þessi lög eins og önnur, að embættismönnum landsins er falið að sjá um þau. En hjer er farið fram á annað og meira en það venjulega eftirlit með lögunum. Jeg geng út frá, að hv. 1. þm. N.-M. þyki sanngjarnt, að fjelagið greiði helming kostnaðar. Þar með er hann inni á þessari sömu hugsun og jeg. Okkur greinir aðeins á um það, hversu langt skuli ganga á þessari sömu braut. Þar sem Brunabótafjelagið er stofnun, sem ríkið hefir komið á fót og er rekin að miklu leyti á ábyrgð ríkissjóðs, þá get jeg ekki sjeð neitt undarlegt við það, þótt henni sje falið að framkvæma þetta eftirlit. Mjer finst það ekki nein ósanngjörn byrði á fjelaginu. En hinsvegar er gott fyrir ríkissjóð að losna við þessi útgjöld, þó að þau sjeu ekki meiri en þetta.