04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jónas Kristjánsson:

Jeg gat ekki skilið það hjá hv. 3. landsk., er hann var að tala um, að það mundi leiða til afturfarar í byggingum hjer í Reykjavík, ef þetta frv. yrði samþ. Það er greinilega tekið fram í 4. gr. þess, og reyndar víðar, að eftir 30 ár skuli allar kjallaraíbúðir vera horfnar. Nú er yfirleitt vandað svo til húsa, þá bygð eru, að gera má ráð fyrir, að þau svari til þeirra krafna, sem gerðar verða til húsa að liðnum 30 árum hjer frá. Fæ jeg því ekki skilið, að það hafi nokkra þýðingu til hins verra fyrir byggingu húsa framvegis, þó þetta frv. verði samþ.

Fyrst verður gengið að því að útrýma þeim kjallaraíbúðum, sem lakastar eru, og síðast verður þeim skárstu útrýmt. Og eftir 30 ár eiga þær engar að vera til. Hinsvegar fæ jeg ekki skilið, að 30 ár sjeu of stuttur tími. Hjer í Reykjavík munu vera um 800 kjallaraíbúðir, og virðist þessi tími ekki óhæfilega langur til útrýmingar þeim. Enda munu margar kjallaraíbúðir vera svo góðar, að vel sje unandi við þær þangað til.