26.04.1929
Efri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2836 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. (Jón Jónsson):

Mentmn. hefir athugað þetta frv. og látið uppi álit sitt um það á þskj. 394. Leitaði n. umsagnar Mentamálaráðsins um frv., og lagði það til, að frv. væri samþ. eins og það lá fyrir. En einn maður úr Mentamálaráðinu, hv. 2. landsk. þm., kom á fund n., og í samráði við hann varð niðurstaðan sú, að orða frvgr. örlítið öðruvísi en gert er í frv. Sama ákvæðinu er haldið, að stjórn útgáfudeildar sjóðsins ráði vali bókanna, en því bætt við, að hún skuli leita álits Mentamálaráðs, áður en fullnaðarákvörðun er tekin um útgáfu bókanna. N. fanst þetta sanngjarnt, og þess er að vænta, að hv. deild fallist á það.