20.04.1929
Efri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2866 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. 3. landsk. talaði um alþingishátíðina sem hversdagslegan atburð, sem skeði næstum daglega. Jeg held, að rjett sje að líta öðrum augum á það mál. Það er búist við, að um 10–20 þús. manns verði á Þingvöllum meðan á hátíðahöldunum stendur, og allir eða flestir þeirra koma fyrst til Reykjavíkur, eða eiga þar heima og fara svo til Þingvalla. Þess vegna hlýtur það að vera miklum örðugleikum bundið að flytja alt þetta fólk á skömmum tíma á milli Reykjavíkur og Þingvalla, jafnvel þótt vegurinn verði bættur. Þess vegna álít jeg, að brýn nauðsyn sje á því að fyrirbyggja, að einstakir menn taki bifreiðar á leigu handa sjálfum sjer, sitji einir í þeim til Þingvalla og hafi þær hjá sjer, meðan hátíðahöldin standa yfir, og aki svo einir til baka, án þess að nokkur fái að vera með. Á þennan hátt getur fjöldi bifreiða orðið notalaus öllum þeim sæg, sem þarf að komast fram og til baka. Þótt hámarksverð væri sett, þá fyrirbygði það ekki slíkt. Af þessum tveim leiðum, umráðarjetti eða hámarkstaxta, verð jeg að leggja meiri áherslu á umráðarjettinn.

Jeg býst ekki við, að annað og þriðja ákvæði 1. gr. verði nokkurntíma notuð. Jeg býst við, að það muni nægja að setja slíkt í lög, án þess að til þess þurfi að grípa. En þótt Alþingi gangi í þetta skifti svo langt, að taka um stundarstakir af mönnum umráð eigna þeirra, þá get jeg varla skilið, að það ylli nokkurri verulegri óánægju, enda kemur slíkt ekki fyrir nema einu sinni á þúsund árum, nema aðrar nauðsynjar krefji.