30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Magnús Jónsson:

Út af niðurlagi ræðu hv. frsm., og sjerstaklega í tilefni af ræðu hv. þm. N.-Ísf. um að ósanngjarnt væri að setja hámarksleigu á gistingu hjer meðan á hátíðahöldunum stæði, þá vil jeg benda hv. þdm. á, að í frv. felst ekkert ákvæði um slíkt. Það er einungis nefndin, sem stingur upp á að bæta þessu ákvæði við. Ástæðan til þess er, eins og hv. frsm. tók fram, sú, að rjett sje að tryggja gestum ríkisins 1930 hið besta hótelpláss, sem völ er á hjer, og við ekki óhæfilegu verði. Það er ekki af því, að samkomulag geti ekki náðst, heldur af því, að í slíku tilfelli sje betra að hafa lagaheimild að baki. Það er þetta, sem vakað hefir fyrir n. fyrst og fremst. Hinu dettur engum í hug að amast við, að gistihúsaeigendur græði fje á gistihúsum sínum.

í II. lið 1. gr. frv. er þess óskað, að stj. fái heimild til þess að ákveða hámark á bifreiðataxta. Er það gert sökum þess, að búast má við, að mikið reyni á bílpláss þegar fólk verður flutt að og frá Þingvöllum meðan á hátíðahöldunum stendur, og þá sjerstaklega frá Þingvöllum til Reykjavíkur. En það virðist engin ástæða til þess, að bifreiðastöðvarnar og bílaeigendur geti okrað á þeim fólksflutningum. En að sjálfsögðu má búast við, að fargjöldin verði eitthvað dýrari en á venjulegum tímum, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem svo mikið er lagt á bifreiðarnar. Þetta vildi jeg taka fram, af því að mjer skildist helst á hv. þm. N.-Ísf., að n. myndi misbeita þessum heimildum. Jeg get því fullyrt, að tilgangur undirbúningsnefndarinnar er alls ekki sá, að misbeita þessu, heldur miklu frekar sá, að nota heimildina alls ekki. Að það er stj., sem fær heimildina, er vitanlega formsins vegna, því að Alþingi getur ekki gefið einni n. slíka heimild sem þessa.