18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, fiskiræktarfélög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg býst við, að hv. þdm. hafi kynt sjer nál. á þskj. 109 og breyt. þær, er n. leggur til, að gerðar verði á frv. Ennfremur rekur menn vafalaust minni til þess, að mál þetta lá fyrir deildinni í fyrra og var þá afgr. frá Nd. í nær því sömu mynd og það er nú. Var málið þá nokkuð rætt, enda tel jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það nú. Þó vil jeg leyfa mjer að skýra stuttlega frá þeim breyt., er n. fer fram á, að gerðar verði á frv. N. þykir betur fara að taka það fram, að boða skuli leiguliða á stofnfund, ef sjeð er, að eigandi muni ekki sækja fundinn. Ennfremur leggur n. til, að leiguliða sje heimilað að taka þátt í umr., þannig að hann hafi nokkurn tillögurjett, enda þótt hann megi ekki greiða atkv. fyr en hann er orðinn löglegur fjelagi.

2. brtt. n. lýtur að þessu sama.

Loks er 3. brtt., við 6. gr. Er síðari málsgr. þeirrar gr. orðuð nokkuð á annan veg, þar eð n. þótti hún dálítið óljóst orðuð og vildi láta það koma skýrt fram, hverjar bætur landsdrotni væri skylt að greiða leiguliða, er hann fer frá jörð, fyrir þá veiðiaukningu, sem orðið hefir á jörðinni og þakka má starfsemi fjelagsins, að því áskildu, að leiguliði hafi greitt þann kostnað, sem jafnað er niður eftir 9. gr. Þótti okkur sennilegt að tífalda afgjaldshækkun þá, er ætla mætti að yrði fyrir aukna veiði. Og enda þótt sú upphæð yrði nokkuð minni en kostnaður við umbætur á jörðinni, þótti n. hæfilegt að fara ekki hærra.

Um önnur ákvæði frv. er það að segja, að þau eru svo skýrt fram tekin, að eigi er þörf á að fjölyrða um þau. í 10. gr. er það skýrt tekið fram, að samþyktir fjelagsmanna megi ekki brjóta í bág við gildandi lög nje almennar grundvallarreglur, og er þannig girt fyrir það, að samþyktir brjóti í bág við lög um friðun á laxi, ófriðun sels (selalátur) o. s. frv. Sama máli er að gegna um þær nýjar lagasetningar, er settar kunna að verða um þessi efni.