04.03.1929
Efri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. sjútvn. hefir fallist á aðalatriði þessa frv., og m. a. á það mjög þýðingarmikla ákvæði, að þegar á að stofna til kostnaðar við að nema burt skipsflök eða annað í námunda við hafnir, þá eigi að gera það í samráði við ráðuneytið, en ekki eins og oft hefir verið gert hingað til, að einstakar hafnarnefndir stofna einar til slíkra verka, sem kannske er mjög mikill kostnaður samfara, og koma svo með reikninginn til ráðuneytisins og segja: Borgið þið þetta. Það er hlutur sem ekki á að eiga sjer stað, að hafnarnefndir gangi þannig inn á verksvið ráðuneytisins og ávísað úr ríkissjóði án þess að það geti haft hönd í bagga með því, sem gert er.

Aftur á móti hefir hv. n. ekki getað fallist á till. frv. um það, hvernig kostnaðinum ætti að skifta. Hv. frsm. n. vitnaði í hafnarreglugerðir fyrir Reykjavík, Akureyri og fleiri lög, en þau ákvæði, sem hv. þm. vitnaði í, gera ekki annað en styrkja þá skoðun alment, að hafnarsjóðir eigi að greiða eitthvað. En hjer er um það að ræða, hver eigi að greiða kostnað við að laga innsiglingaleið inn á höfn, sem hefir orðið fyrir skemdum. Við höfum nú einmitt talsvert almenna reglu um svipað efni, hvernig hafnargerðir eru styrktar; þar borgar ríkið einn þriðja kostnaðar, en hafnarsjóður tvo þriðju hluta. Aftur hefir undir sumum kringumstæðum, t. d. í Bolungavík og í Vestmannaeyjum, ríkissjóður lagt fram helming kostnaðar. Jeg álít, að hv. n. hafi hjer verið of kröfuhörð við ríkissjóð, og jeg er viss um, að ef hún hefði leitað umsagnar trúnaðarmanns ríkisstj. í þessum efnum, þá mundi hann hafa stutt þessa skoðun mína; við eigum hjer að setja almenna reglu um það, hvernig ríkissjóður hagi sjer í þessu máli, tilsvarandi við það, hvernig ríkissjóður styrkir hafnargerðir í upphafi. Jeg vil því mælast til þess, að þessi brtt. hv. n. verði feld, en þótt hún verði samþ., þá álít jeg frv. til töluverðra bóta, samt sem áður. En mjer þætti gaman að vita, hvort hv. n. getur bent á nokkuð því til stuðnings, að ekki sje rjett að halda þeirri stefnu, sem jeg nú hefi gert grein fyrir.