03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þarf engu að svara út af þeim fyrirvara, sem hv. 2. þm. Árn. lýsti. Sá ágreiningur, sem er á milli hans og okkar hinna nm., er of lítill til að svo sje. En út af því, sem hæstv. fors.- og atvmrh. sagði, vil jeg taka það fram, að í frv. er gengið svo langt í þá átt, að láta hafnarsjóði bera kostnað af burtnámi ýmissa farartálma af siglingarleiðum, að varla er hugsanlegt, að slíkt nái samþykki þingsins. En hitt er rjett hjá hæstv. forsrh., að núv. ástand er með öllu óþolandi fyrir ríkissjóð. Hjer er um það að ræða, hversu mikið af kostnaðinum ríkissjóður eigi að bera að sínu leyti, og hinsvegar hafnarsjóðirnir. Og um það atriði má auðvitað deila í það endalausa. Það er eðlilegt, að stj. vilji tryggja ríkissjóðinn sem best í þessu efni, en þess verður að gæta, að hafnirnar geta liðið stórkostlegt tjón, fjárhagslega sjeð, við þann trafala, sem verður á siglingaleið hafnarsvæðis, ef t. d. skip sekkur í hafnarmynninu. Og jeg held, að till. sjútvn. sjeu fullkomlega sæmilegar og verjandi, með því líka, að með þessu móti skapast föst regla í þessum efnum, og framkvæmdavaldið er lagt í hendur stj.

Það er nú svo, að hjer hjá okkur eru hafnarsjóðirnir í bernsku og eiga fult í fangi með að standast venjulegar framkvæmdir, en þegar skip sekkur á siglingaleið hafnarsvæðis, er um óvænt áfall að ræða, sem hefir í för með sjer aukalegan kostnað fyrir hafnarsjóðina.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Málið var mikið rætt í n., og eins og jeg hefi þegar tekið fram, treystir hún sjer ekki til að leggja til, að lengra verði gengið í þessu efni.