15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2963 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Pjetur Ottesen:

Mjer þykir það næsta kynlegt, að hæstv. forsrh. skuli ekki fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Jeg skal nú ekki fara mikið út í einstök atriði frv., enda á það ekki við nú við 1. umr. málsins. En jeg vil þó ekki láta hjá líða að taka fram, að í mínum augum er það næsta mikilsvert, að stj. hefir nú horfið frá því að reka verksmiðjuna fyrir reikning ríkissjóðs. Á þann hátt hefði rekstur hennar orðið mjög áhættusamur. Það eru að vísu dæmi þess, að þegar mikil aflabrögð eru, geta slíkar verksmiðjur borið sig vel, en þegar illa árar, er útkoman býsna ljeleg, og svo mundi og reynast með þessa verksmiðju. Mjer þótti því vænt um, að stj. skyldi hafa tekið þær bendingar, sem fram komu í þessa átt, til greina og farið inn á heppilegri leið en upphaflega var gert ráð fyrir. Jeg ætla nú, úr því jeg hefi kvatt mjer hljóðs, að drepa á þrjú atriði, til athugunar n. þeirri, sem fær frv. til meðferðar.

Fyrsta atriðið er það ákvæði 5. gr., að síldarbræðsluverksmiðjunni sje skylt að selja við kostnaðarverði samvinnufjelögum, hreppsfjelögum og búnaðarfjelögum síldarmjöl til innlendrar notkunar. Það er vert að gefa gaum að, hvað felst í orðinu „kostnaðarverði“. Mjer skilst þetta orðalag vera mjög teygjanlegt og óákveðið, og það getur mikið oltið á því, um hve mikil hlunnindi hjer er að ræða til handa landbúnaðinum, hversu þetta er skýrt. Jeg held þess vegna, að nauðsynlegt sje að athuga þetta og slá einhverju föstu um það, hvað meint er með þessu, ef ekki í frv. sjálfu, þá í nál. eða framsöguræðu. Hefi jeg ekki orðið þess var, að þetta hafi verið útskýrt við umr. í Ed., og er því meiri nauðsyn á að taka þetta atriði til frekari athugunar.

Annað atriðið, sem jeg vildi benda n. á, er, hvernig stj. verksmiðjunnar skuli skipuð. í 7. gr. segir, að stjórnina skipi þrír menn, einn skipaður af atvmrh., annar af stj. einkasölunnar og þriðji tilnefndur af bæjarstj, Siglufjarðarkaupstaðar. Mjer finst með þessu ákvæði vera blandað inn óskyldum aðila í stj, fyrirtækisins, þar sem einkasalan er, en sá aðilinn, sem mjer virðist að fyrst og fremst að sjálfsögðu ætti að hafa hjer íhlutunarrjett, sem eru framleiðendurnir, er þar algerlega útilokaður. Mjer virðist bæði óhyggilegt og með öllu órjettmætt að gefa ekki framleiðendum og seljendum síldarinnar kost á að taka þátt í skipun stjórnar fyrirtækisins. Mjer virðist sjálfsagt að leiðrjetta þetta, og mig undrar, að þetta skuli ekki hafa verið tekið upp í frv. þegar. Jeg vil skjóta því til hv. sjútvn., að hún verði við þessari sjálfsögðu sanngirniskröfu þeirra atvinnurekenda, sem alla afkomu eiga undir rekstri þessa fyrirtækis. Jeg vil eindregið vænta þess, að n. taki þetta til greina.

Þriðja atriðið, sem jeg vildi benda á, er það ákvæði 8. gr., sem heimilar síldareinkasölunni að kaupa síld af utanríkismönnum. Mjer kemur slíkt ákvæði dálítið undarlega fyrir sjónir, þar sem það hefir verið stefna þingsins að undanförnu að vinna á móti því, að útlendingar ættu kost á að selja hjer síld. Slík undanþága bætir einungis aðstöðu þeirra til að stunda síldveiði hjer við land, og margir álíta, að síldveiði útlendinga hjer við land sje jafnvel mikið undir því komin, að þeir hafi aðstöðu til þess að selja hjer síld í bræðslu. Það skyldi því gjalda varhuga við að stíga þetta spor. Jeg vænti þess, að hv. sjútvn. taki þetta einnig til alvarl. athugunar. Það er ekki gengið svo frá frv. sem vera ætti; það er stórgallað í verulegum atriðum, og væri gott, ef hv. n. vildi sníða af því mestu agnúana. Eins og nú standa sakir, hefir engin verksmiðja leyfi til þess að taka á móti síld af útlendingum, og jeg teldi stórlega misráðið, ef opnuð væri heimild til þess, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.