01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Magnús Guðmundsson:

Það er engin afsökun fyrir hæstv. ráðh., að lögin í fyrra væru heimildarlög. Þau eru það enn. Jeg spurði ráðh., hvort hann ætlaði nú að neyta þessarar heimildar eða hvenær. Hæstv. ráðh. svaraði því, að hann myndi neyta hennar strax. Jeg vil nú biðja hv. þdm. að leggja sjer þessi svör ráðh. á minnið. Þessu sama myndi hann hafa svarað í fyrra, ef hann hefði verið spurður um þetta þá, en allir vita nú, hverjar urðu framkvæmdir hans í málinu. Mjer er ekki grunlaust um, að svo kunni að fara enn, og tel jeg það í sjálfu sjer ekki ámælisvert, heldur hitt, að vera að tefja dýrmætan tíma þingsins í að búa til lög, sem enginn veit, hvort nokkurntíma koma til framkvæmda.

Þá sagði hæstv. ráðh., að skoðun mín um áhættusemi þessa fyrirtækis kæmi illa heim við skoðun hv. 2. þm. G.-K., þegar hann sagði, að ríkið myndi græða á því 5 milj. kr. á 20 árum. Þessi orð hv. 2. þm. G.-K. voru miðuð við fullan rekstur verksmiðjunnar í 20 ár, en jeg held því fram, að vel geti svo farið, að enginn rekstur verði vegna frádráttarins á síldarverðinu.

Hæstv. ráðh. ætti að skilja það, að útreikningur hv. 2. þm. G.-K. var til að sýna þann gróða, sem yrði, ef verksmiðjan væri í fullum rekstri í 20 ár. En einmitt þessi útreikningur sýnir, að útgerðarmenn muni ekki að staðaldri vilja nota verksmiðjuna, er ríkissjóður tekur svo gífurlegt gjald. Þess vegna er jeg hræddur um, að hún muni fá lítið að gera og ríkissjóður verða fyrir halla.

Mjer þótti vænt um að heyra, hvernig hæstv. ráðh. tók í samningaumleitanir þær, sem forstjórar síldareinkasölunnar hafa átt í í Noregi, eftir blaðafregninni að dæma. Hann viðurkendi, að slíkt væri óforsvaranlegt. Jeg vil þá vænta þess, að hugur fylgi máli og að hæstv. ráðh. láti þær aðgerðir fylgja, sem á sínum tíma verða nauðsynlegar.