01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Já, mjer mun reynast erfitt að samrýma þá skoðun hv. 2. þm. G.-K., að verksmiðjan muni græða 5 milj. kr. á 20 árum, og hinsvegar kenningu hv. 1. þm. Skagf. um, að verksmiðjan sje hið mesta fjárglæfrafyrirtæki, sem muni aldrei bera sig. Og jeg verð að telja skýringu hv. 1. þm. Skagf. á þessu ósamræmi mjög lítils virði, eins og hann hlýtur að finna sjálfur. En um hitt atriðið í ræðu hans, að þessi lög sjeu að því leyti samskonar lögunum í fyrra, að hvorttveggja sjeu heimildarlög, þá er því til að svara, að í lögunum nú, eða frv. því, sem nú liggur fyrir (MG: Jeg átti við lögin frá í fyrra. Þetta er frv., en ekki lög.), er svo að orði komist í 1. gr.: „Þá er hafinn verður rekstur síldarbræðslustöðva eða stöðvar samkvæmt heimild í l. nr. 49, 7. maí 1928, skal um reksturinn fylgt ákvæðum þeim, sem segir í lögum þessum“.

Þetta orðalag er ótvírætt og fortakslaust; hjer er ekki um heimild að ræða, heldur um skyldu. Verksmiðjan skal rekin eftir þeim grundvallarreglum, sem frv. mælir fyrir um. Það er einmitt það, sem jeg hefi viljað fá fram og fá lögfest. Jeg hefi viljað vinna að því að tryggja það, að verksmiðjan verði rekin á þann hátt, sem að mínu áliti er heppilegast og affarasælast fyrir alla aðila.