08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það eru aðeins fáein orð út af brtt. á þskj. 586, sem nú hafa komið fram, eftir að talað var fyrir þeim. Annars hefir hv. þm. V.-Húnv. að miklu leyti tekið af mjer ómakið að taka hjer til máls, því að hann hefir tekið það flest fram, er jeg þurfti og vildi sagt hafa.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það ekki af því, að jeg hafi ótrú á samvinnunni, að jeg er á móti því, að þetta fyrirtæki verði rekið með samvinnusniði, heldur er það vegna þess, að jeg treysti ekki þeim, er að þessu eiga að standa, til þess að starfrækja þetta í samvinnu. Er jeg alveg samþykkur því, er hv. þm. V.-Húnv. hefir sagt um þetta efni. Einnig er þess að gæta, að þeir, er hjer koma til með að eiga hlut að máli, búa mjög dreift, jafnvel í öllum landshlutum. Verður því miklu erfiðara að halda fjelagsskapnum saman, og öll aðstaða til þess að hann geti notið sín hin versta. Við, sem þekkjum samvinnufjelögin, vitum, að þau eru staðbundin. Þau hafa sinn ákveðna, tiltölulega litla verkahring hvert um sig. Það er alt annað að stofna fjelag, sem ekki nær nema yfir eina sveit eða einn bæ, eða fjelag, sem á að ná yfir alt landið, en svo mundi það verða hjer, því í þessu samvinnufjelagi, ef það verður stofnað, hljóta að verða menn úr öllum þeim landshlutum, er síldveiðiskip koma frá; ella mundi það fárra manna fjeþúfa. (ÁÁ: Það er til samband íslenskra samvinnufjelaga). Já, en því er svo háttað, að í því eru fjöldamörg einstök fjelög, sem hvert er bundið við lítið svœði. Jeg hefi ekkert á móti samvinnufjelagshugmyndinni í sjálfu sjer, en jeg tel mjög hæpið, að hún njóti sín til fulls við þennan rekstur. (MJ: Er það vegna þess að Siglufjörður á í hlut?). Jeg hallast heldur að því, að á þessu sje ríkisrekstrarfyrirkomulag, sem miðað er mest við hagsmuni viðskiftamannanna allra.

Það hefir verið sagt hjer af mörgum, að hinum væntanlegu viðskiftamönnum væru boðin þau kjör, sem þeir mundu alls ekki geta unað við. Það væri tekið svo mikið af síldarverðinu til tryggingar stofnuninni, að ókjör væru að búa við slíkt. En jeg tel þetta með öllu rangt. Jeg gæti frekar búist við því, að það, sem 4. grein áskilur að tekið verði frá vegna vaxtagreiðslu, fyrningar og í varasjóð, reynist of lágt Og ef svo færi, að hið gagnstæða yrði ofan á, þá er altaf hægt að gera breyt. í þá átt, að afgangurinn verði tilfærður viðskiftamönnunum. En tapi verksmiðjan, renna allir þessir frádráttarliðir, sem getið er um í 4. gr., í raun og veru í sama sjóð.

Jeg var búinn að lofa því áður að tefja ekki tímann með löngum umr., enda hefi jeg ekki ástæðu til þess. Samt vil jeg áður en jeg lýk máli mínu víkja nokkrum orðum að Hv. 1. þm. Reykv. Mjer virtist honum gremjast það, að jeg mjög góðlátlega gat þess, að hann hefði með brtt. sínum komið að haglega telgdum fleyg í þetta mál. Reyndi hann að snúa út úr þessu með kringilyrðum. Jeg ætla, að hann spyrði meðal annars að því, hvers vegna Siglfirðingar hvorki gœtu nje mœttu stofna samvinnufjelag. Jeg hefi aldrei haft neitt á móti því, að Siglfirðingar stofni samvinnufjelag. En jeg hefi ekki traust á þeim samvinnufjelagsskap, sem hjer um ræðir og bygður er upp af dreifðum einstaklingum úr öllum landshlutum. En reyndar má þess vœnta, ef nokkuð verður úr samvinnu um þessa stofnun, að fjelagið yrði fyrst og fremst fjelag Siglfirðinga, sem þá eðlilega hefði hag bæjarbúa fremur fyrir augum en aðkomumanna. Með því mundi jeg telja hagsmunum manna úr fjarlægum hjeruðum miður borgið en með hreinum ríkisrekstri, sem að eðlilegum hœtti mundi fremur líta á heildarhaginn.

hv. þm. taldi það vitleysu hjá mjer, að ríkisrekstur ætti hjer betur við, læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. Slíkir sleggjudómar sannfæra engan. Jeg gœti gert hv. þm. sömu skil, ef jeg kærði mig um að vera að elta ólar við hann um þetta.