02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg hefi eiginlega litlu við nál. okkar á þskj. 480 að bæta. Held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða það, að hvorugur okkar, sem erum í minni hl., sje á móti því, að æskilegt væri, að hægt væri að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, sem eru í kaupstöðunum, og þá kauptúnum líka. En einhversstaðar hljóta að vera takmörk fyrir getu ríkissjóðs. Og ef það á að afla þess fjár, er þarf til þessara bygginga, á þann hátt, er frv. gerir ráð fyrir, eða samkv. till. hæstv. atvmrh., sem sjá má á þskj. 429, þá hlýtur það að hafa í för með sjer stórum aukin útgjöld ríkissjóðs. Efumst við því stórlega um það, að gjaldamöguleiki hans sje svo mikill, að hann geti þolað þetta.

Því verður ekki neitað, að það er rjett hjá hæstv. atvmrh., að þetta er stórmál og hefði óneitanlega verið hentugra, að það hefði verið betur undirbúið frá hálfu hv. flm. en hann hefir getað með öllu því annríki, er á honum hvílir. Má þó segja, að gott sje, að það skyldi koma fram nú, svo menn gætu haft það til umr. og athugunar milli þinga. (HV: Það kom fram í fyrra). Já, svo mun vera, en nú er það í alt annari mynd.

Það er svo að sjá, sem hæstv. atvmrh. sjái ríkinu fært að taka á sig þær kvaðir, er á það eru lagðar samkv. brtt. hans. Þetta vil jeg þó mjög draga í efa. Hinsvegar þegar litið er á frv., þá sjest, að hv. flm. hefir fundið, hvar skórinn krepti mest að, nefnilega í bæjunum, en síður í kauptúnunum. Nú þykir mjer það undarlegt, að verri skuli vera hús í kaupstöðum heldur en kauptúnum. Það er þá ekki af öðru en því, að aðstreymið til bæjanna er óeðlilega mikið. Enn gat hv. flm. þess, er hann talaði fyrir þessu að sumu leyti merkilega máli, sem hann gerði mjög hógværlega, að hjer lægi fyrir að leysa úr ekki ósvipuðu verkefni og byggingar- og landnámssjóðurinn á að leysa úr. Við höfum nú nokkuð minst á þetta í nál. minni hl. og getum alls ekki fallist á þetta. Álítum við, að þetta sje alls ekki sambærilegt. Jeg held, að það sje óhætt að slá því föstu, og býst jeg við, að hæstv. fors.- og atvmrh. geti tekið undir það, að hugsun sú, er lá til grundvallar, er byggingar- og landnámssjóðurinn var settur á stofn, var sú, að stuðla að því, að hinar fólkslausu sveitir reistu við aftur. Og með umbótum þeim, er gera átti á húsum og öðru, þá var búist við því, að hægt væri að beina fólksstrauminum út í sveitirnar aftur. Við fáum því ekki sjeð, að takmarki þessa sjóðs verði á nokkurn hátt náð með því að samþykkja þetta frv.

Það eru gullvæg sannindi, að gott væri að hjálpa sem flestum kaupstaðarbúum til þess að eignast bletti umhverfis hús sín. En mjer er spurn á því, hve margir grænir blettir muni koma í ljós, þó þetta frv. verði samþ. Jeg er hræddur um, að þeir verði heldur fáir. Hæstv. ráðh. benti í þessu sambandi á atvik, sem gerðist hjer á sumardaginn fyrsta, er hann sá hinn fríða og stóra barnahóp. Það var mjög rjettilega fram tekið af hæstv. ráðh., að það var mjög ánægjulegt að sjá þennan hóp. En jeg verð að segja það, að ef litið er til þjóðarhópsins, þá held jeg, að það besta væri, ef hægt væri að beina huga þessarar uppvaxandi kynslóðar að hinu óræktaða landi sveitanna og því holla umhverfi, sem þar er að fá. En síður ætti að kappkosta að glæða hugarfar þeirra til kaupstaðanna. En þetta virtist mjer hæstv. ráðh. ekki hafa komið eins vel auga á og vœnta hefði mátt, með tilliti til þess, hve ant honum hefir verið um sveitirnar.

Jeg fullyrði, að það var hin brýna þjóðarnauðsyn, er vakti fyrir hv. þm. er þeir samþ., að komið skyldi á fót byggingar- og landnámssjóði, ræktunarsjóðinum og ýmsum öðrum stofnunum landbúnaðinum viðkomandi Aðalgrundvöllur alls þessa var hin mikla auðn í sveitunum. Þær voru yfirgefnar og fólkið þyrptist til kaup staðanna. Er nú með þessu frv. verið að halda áfram í sömu átt, að beina hug fólksins til sveitanna? Nei, og ef það verður samþ., álít jeg, að þingið hafi stígið hreint og beint víxlspor, miðað við það, sem það hefir áður gert. Því ef menn trúa á landið og ræktun þess og trúa því, að ef hinir óræktuðu blettir sjeu ræktaðir, þá verði eins lífvænlegt í sveitunum eins og í kaupstöðunum, þá held jeg, að ekki sje brýn nauðsyn á því að samþ. þetta frv., er hlýtur að hafa þau áhrif, að fólkið þyrpist til kaupstaðanna. En ef nú fólkinu finst lífvænlegra í kaupstöðunum eins og þeir eru nú heldur en í sveitunum, með þeim framtíðarmöguleikum, er þar eru fyrir hendi, þá getur minni hl. n. ekki sjeð, að ástæða sje til þess, að ríkið fari að gera ráðstafanir, er óhjákvæmilega mundu leiða til þess, að fólkið drægist til kaupstaðanna. Ráðstafanir, sem geta í framtíðinni orðið stórhættulegar fyrir ríkissjóð.

Hinsvegar er það síður en svo, að við viljum ekki viðurkenna, að óheppilegt sje, að fólkið búi í ljelegum húsakynnum. Viðurkennum við, að umbætur á þessum sviðum eru nauðsynlegar og sjálfsagðar. En við álítum, að frá hagfræðilegu sjónarmiði sje það heppilegast, að bæði þing og stj. snúi sjer að sveitunum með stórfeldar umbætur. Það kemur ekki málinu við, hve mikill hluti þjóðarinnar býr í kaupstöðum. Aðalatriðið er, hvað hollast er fyrir þjóðina og hvort betra er að beina hugum fólksins til sveitanna eða í gagnstæða átt. Þar fyrir dettur mjer ekki í hug að halda því fram, að þetta frv. eigi engan rjelt á sjer.

Okkur minni hl. hefir reiknast svo til, að árleg útgjöld ríkissjóðs af þessu muni nema 70—100 þúsund kr., en jeg hygg, að ef allir kaupstaðirnir eru taldir með, þá muni það verða meira, því fólkinu fjölgar svo ört þar. Og eftir því, er hv. flm. skýrði frá, stórfjölgar fólkinu í Reykjavík einni árlega.

Brtt. á þskj. 569, frá hv. 1. þm. N.-M., hafa ekki legið fyrir n., svo að jeg ætla ekkert að fara inn á þær, að öðru leyti en því, að jeg viðurkenni, að með samþykt þeirra er stuðlað að meira rjettlæti, af því að ef hinir stœrri bæir eiga rjett til þessara hluta, á það sama sjer stað um kauptúnin.

Álit mitt er, að þing og stj. œttu að gera sitt til þess, að ekki sje hægt að okra á fátækum mönnum af húsaeigendum í bæjum og kauptúnum. Hinsvegar hefi jeg minni samúð með þeim tilraunum, sem gerðar eru með frv. til þess að draga fólk úr sveitunum.

Jeg verð að segja, að þegar jeg sá brtt. hæstv. forsrh., vissi jeg ekki, hvaðan á mig stóð veðrið. Þó að jeg viðurkenni, að þær sjeu bót á frv., er langt frá því, að þær sjeu bygðar á þeirri grundvallarhugsun, sem jeg hafði vœnst frá hæstv. ráðh., að hann vildi beita allri sinni orku að umbótum í sveitum landsins, sem gætu orðið til þess, að hin unga kynslóð í kaupstöðunum sæi sjer fært að búa í sveitunum og yrkja jörðina, svo að okkur væri enginn voði búinn, ef sjávarútvegurinn bregst. Því að ef slíkt kemur fyrir, er það landbúnaðurinn, sem heldur lífinu í landsmönnum, eins og hann hefir gert í gegnum margvíslegar þrautir. Þar liggur kjarni hins íslenska þjóðfélags. En þó að jeg segi þetta, og meini það, þá er jeg ekki að kasta rýrð á aðra atvinnuvegi landsmanna.

Jeg hefi reynt að stilla í hóf ummælum mínum, enda er ekki ástæða til annars. Jeg viðurkenni hinn góða hug hv. flm. og hefi með ræðu minni reynt að skýra sem best frá því, hvað við minnihl.menn teljum heppilegra, þegar litið er á hagsmuni þjóðarheildarinnar. Og jeg bjóst við, að þar værum við fyrst og fremst í samræmi við hæstv. forsrn. En þegar jeg sá brtt. á þskj. 429, skildist mjer, að því væri ekki að heilsa.