21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Eftirlit með skipum og bátum er nú orðinn mikill og vandasamur starfi, sem eykst með ári hverju í líkum hlutföllum og flotinn. Eftirlit þetta hvílir á lögreglustjórum undir eftirliti ráðh., en í reyndinni hefir það verið framkvæmt frá 1923 af sjerstökum starfsmanni, sem nú er farið fram á, að verði lögfestur um leið og verksvið hans og launakjör eru ákveðin.

Vjelfróður maður, sem er búsettur hjer í bæ, hefir haft þennan starfa á hendi. í fyrstunni voru honum goldnar 3000 krónur, en bráðlega jókst kostnaðurinn við framkvæmd starfans svo, að síðustu árin hefir hann orðið um 8000 krónur.

Breytingar á eldri lögum um þetta efni, sem hjer liggja nú fyrir í frv.-formi, lúta að því þrennu, að skerpa alt eftirlit, sem hingað til hefir verið reikult, að ákveða verksvið skipaskoðunarstjóra, og í þriðja lagi að afla fjár til að standast aukinn kostnað af eftirlitinu.

Sjútvn. hefir ekki gert neinar efnisbreytingar á frv., nema við 5. gr. Brtt. við 3. gr. er í raun og veru aðeins skýring og orðabreyting. Nefndin hefir með brtt. tekið upp það ákvæði, að skipaskoðunarstjóra skuli goldin dýrtíðaruppbót eftir sömu reglum og öðrum starfsmönnum hins opinbera. Hinsvegar er brtt. við 5. gr. alger efnisbreyt., þar sem gjaldið er fært mikið niður. N. gerir ráð fyrir, að þetta gjald verði 2 kr. fyrir smáskip, 5 kr. fyrir meðalstærð skipa og hæst 10 kr., alt við ákveðið rúmlestatal miðað. N. virðist, að útgáfa haffærisskírteina sje mjög hliðstæð útgáfu annara opinberra skjala eftir stimpilgjaldsl. frá 1921, þar sem stimpilgjald er 1, 2 eða 5 kr., og vill því fara sem næst því gjaldi fyrir skírteinin, þótt hjer sje lítið hærra.

Annars get jeg fyrir hönd n. tekið það fram, að henni virðist gjöld á smáfleytum vera svo há, að tæpast sje ástæða til að bæta þar nokkru við, og meðfram vegna þess hefir hún viljað draga úr þeim miklu gjöldum fyrir haffærisskírteinin, sem frv. tilskilur.

Einn af nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og býst jeg við, að hann geri grein fyrir fyrirvara sínum, svo að jeg þarf ekki að fara nánar út í það. Jeg vona, að hv. d. geti fallist á þessar breyt. á frv., og þykist jeg þá ekki þurfa að orðlengja frekar um málið.